Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Hann var framúrskarandi netöryggissérfræðingur, sem við höfðum leitað að í lengri tíma, en hann hafði ekki formlega háskólamenntun í faginu. Netöryggissérfræðingurinn var fyrrverandi hakkari og fékk ekki leyfi til að koma og starfa fyrir okkur, þrátt fyrir mikla vöntun á fólki með slíka þekkingu í fjölmörg fyrirtæki á Íslandi.“
Þetta sagði forstjóri fyrirtækis við mig þegar hann lýsti því hve erfiðlega hefur gengið að fá starfsfólk með sérhæfða þekkingu til starfa.
Greiður aðgangur að sérhæfðri þekkingu og færni er ein mikilvægasta forsenda þess að áform um vöxt íslenskra fyrirtækja verði að veruleika. Dæmum frá íslenskum fyrirtækjum um ný verkefni, sem ekki hefur náðst að koma á laggirnar vegna skorts á sérfræðingum, fer því miður fjölgandi. Skortur á hæfu starfsfólki, flókið kerfi og langur afgreiðslutími atvinnu- og dvalarleyfa er eitt helsta áhyggjuefni stjórnenda, sem hafa annars burði til að stækka fyrirtæki sín hér á landi og skapa aukin verðmæti.
Fyrsta skrefið til að liðka fyrir komu alþjóðlegra sérfræðinga er lagabreyting sem lögð verður fyrir þingið á næstu dögum. Þar er lögð til ákveðin hraðbraut fyrir störf sem mikil eftirspurn er eftir. Hugmyndina lagði ég fram í fyrra sem eina af fleiri leiðum sem skynsamlegt væri að ráðast í til að bæta stöðu okkar í alþjóðlegu kapphlaupi heimsins um hæft starfsfólk. Þannig verði hægt að hraða afgreiðslu atvinnuleyfisumsókna fyrir ákveðin störf, t.d. forritara eða grafíska hönnuði sem liggur fyrir að skortir, án þess að farið sé yfir hverja einstaka umsögn og staðfest að enginn finnist innan EES til að vinna þau. Slíkur starfalisti hefur mælst vel fyrir, t.d. í Danmörku og Kanada.
Lagabreytingunni er m.a. ætlað að ná til starfa sem ekki krefjast tiltekinnar þekkingar í formi háskólamenntunar. Dæmi eru um að einstaklingar, eins og netöryggissérfræðingurinn, hafi ekki háskólamenntun en séu einstaklega færir og hafi sértæka þekkingu sem fyrirfinnst ekki svo víða.
Vinnumarkaðurinn tekur stöðugum breytingum. Störf breytast hratt, önnur hverfa og ný verða til. Starfalisti sem byggist á spá um það hvar vinnuafl vantar til að auka verðmætasköpun er fyrsta skrefið til að skapa aukin tækifæri og bjóða alþjóðlega sérfræðinga velkomna. Ég bind vonir við að afgreiðslutíminn á starfalistanum verði innan við tvær vikur.
Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að skapa hér umhverfi og kerfi sem laðar að alþjóðlega þekkingu og draga úr því að þekking flæði frá Íslandi. Hér eru fjölmörg tækifæri og spennandi störf en kerfið er of svifaseint. Margt þarf að bæta til að við eigum möguleika á að taka þátt í samkeppninni um sérfræðinga á heimsvísu. Því ætlum við að breyta.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 23. janúar 2023.