„Ég er nokkuð sannfærður um að forystumaður á vinstri væng stjórnmálanna hefði haft uppi stærri orð og þyngri ef viðkomandi hefði verið stillt upp á glæru með Stalín og Maó undir yfirskriftinni „Merkir sameignarsinnar“. Krafist hefði verið brottrekstrar kennarans og fréttastofa ríkisins hefði farið hamförum í nokkra daga. Að setja vinstri mann í flokk með fjöldamorðingjum og alræðisherrum er innræting af verstu gerð sem aldrei skal líðast,“ segir Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í nýlegum hlaðvarpsþætti sínum en þar fjallar hann um glæru kennara Við Verslunarskóla Íslands sem notuð var nýlega í kennslustund. Þáttinn má finna hér.
Óli Björn ræðir einnig aðra glæru sem kennari við Menntaskólann við Sund notaði nýlega.
„Þar er Sjálfstæðisflokknum líkt við Þýskaland Hitlers, Gestapo og útrýmingu kynþátta. Forherðingin er fullkomin. Fölsunin og rangfærslurnar eru yfirgengilegar. Því verður vart trúað að kennsla í íslenskum framhaldsskólum sé komin niður á þann stall að eiga ekkert skylt við menntun, sem allir skólar hafa gefið nemendum sínum fyrirheit um að veita. Kennsla sem byggir á innrætingu og fölsunum hentar aðeins þeim sem aðhyllast forræðishyggju og ganga á hólm við frjálsa og sjálfstæða hugsun,“ segir Óli Björn.
„Samkvæmt fréttum munu báðir kennararnir sem hlut eiga að máli vera virkir í starfi vinstri flokka. Við því er ekkert að segja. Það er ekkert óeðlilegt að kennarar, líkt og aðrir landsmenn, taki til máls í ræðu og riti. Berjist fyrir framgangi ákveðinna hugsjóna. Kennslustofan getur hins vegar aldrei og má aldrei verða vettvangur pólitískrar innrætingar. Kennslustofan á að vera skjól nemenda til að sækja sér þekkingu og auka skilning sinn á ólíkum viðfangsefnum. Griðastaður til að tileinka sér gagnrýna hugsun, kynnast ólíkum aðferðum og sjónarmiðum. Innræting, smekkleysa og blekkingar rjúfa griðin.“
Óli Björn segir að ef til vill séu glærurnar tværi aðeins birtingarmynd þess eitraða andrúmslofts sem hefur fengið að myndast í opinberri umræðu hérlendis og víðar á umliðnum árum.
Hægri menn afhent vinstri mönnum dagskrárvaldið
„Virðingar- og umburðarleysi gagnvart ólíkum skoðunum hefur aukist. Kröfurnar og leikreglurnar hafa breyst. Dylgjur og meiðyrði vefjast lítið fyrir sumum þeirra sem tekið hafa að sér að kenna við æðstu menntastofnanir landsins. Búið er að setja hlutleysis- og sanngirnisreglur ríkisrekins fjölmiðils ofan í læsta skúffu sem enginn man hvar er og lyklinum hent,“ segir hann og bætir við: „Ég hef áður velt því upp hvort forystumenn borgaralegra afla hafi búið til sitt eigið sjálfskaparvíti með aðgerðarleysi – afhent andstæðingum sínum dagskrárvaldið í opinberri umræðu sem myndar skjól til að misnota menntastofnanir og fjölmiðla. Hvort sem það er sanngjarnt eða ekki þá er ágætur félagi minn sannfærður um að uppgangur vinstrimennsku sé afleiðing af því að við kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins höfum forðast hugmyndafræðilega baráttu. Höfum afhent vinstri mönnum dagskrárvaldið. Hægri menn elti umræðuna í stað þess að móta hana með skýrri hugmyndafræði og rökum.“
Hann segir það yfirleitt hafa reynst sér vel að hlusta á þennan félags sinn og að þeir séu um eitt sammála: „Vinstri mönnum hefur ekki skort kjarkinn til að endurrita söguna enda þurfa margir þeirra á því að halda. Þeir vita sem er að í pólitískri baráttu erum við hægri menn fremur værukærir og fæstir sérlega vopnfimir. Óhræddir mæta vinstri menn því á vígvöll stjórnmálanna og skirrast ekki við að breyta kennslustofum í vettvang pólitískrar innrætingar.“
Að lokum spyr Óli Björn: „Er ekki kominn tími til að hægri menn taki höndum saman, rjúfi þögnina og hefji hugmyndafræðilega baráttu fyrir frelsi einstaklinganna, opnu samfélagi og mynda um leið jarðveg fyrir sjálfstæða gagnrýna hugsun?“
Hlekkur á hlaðvarpsrás Óla Björns Kárasonar „Alltaf til hægri“.