Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Úti er kalt en daginn er a.m.k. farið að lengja. Alþingi er tekið aftur til starfa og viðfangsefni þingvetrarins eru margvísleg. Mig langar þó að draga fram tvö stór verkefni sem bíða okkar þingmanna og brýnt að við leysum fljótt og farsællega.
Í fyrsta lagi hefur forsætisráðherra lagt fram tillögu til þingsályktunar um breytingu á þjóðaröryggisstefnu og er hún nú í meðförum þingsins, en gildandi stefna var samþykkt árið 2016. Við endurskoðun hennar er mikilvægt að stíga fast til jarðar varðandi öryggi þjóðarinnar við gjörbreyttar aðstæður. Breytingarnar litast auðvitað af stríðinu sem nú geisar í okkar heimshluta; stríði sem virðist ekki ætla að ljúka í bráð. Það kemur enda fram í nýlegri skýrslu þjóðaröryggisráðs að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hafi aukist og forsætisráðherra hefur ítrekað ávarpað breytingar í öryggismálum á heimsvísu. Þetta er því síður en svo launungarmál. Við búum sem betur fer að þeim breytingum sem Sjálfstæðismenn hafa leitt í utanríkisráðuneytinu með stóraukinni áherslu á varnarmál og sömuleiðis hafa framlög til öryggis- og varnarmála aukist verulega. En betur má ef duga skal og við þingmenn ættum að spýta í lófana.
Í öðru lagi hefur frumvarp dómsmálaráðherra um breytingu á lögum um útlendinga farið í gegnum fyrstu umræðu á þinginu. Meginbreytingin sem frumvarpið felur í sér er minnkuð félagsleg þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun við umsókn sinni. Það getur ekki verið eðlileg krafa og hvað þá niðurstaða að fólk geti ferðast hingað og fengið húsnæði, framfærslu og önnur félagsleg réttindi í lengri tíma eftir að hafa verið synjað um alþjóðlega vernd á tveimur stjórnsýslustigum. Það er jafnvel svo að fólk getur tafið eigin brottvísun þegar ákvörðun um hana liggur fyrir, mánuðum og jafnvel árum saman án þess að það hafi nokkur áhrif á rétt viðkomandi til húsnæðis eða framfærslu frá íslenska ríkinu. Þetta er mjög óeðlilegt að mínu mati.
Við eigum að leggja áherslu á að aðstoða fólk sem er raunverulega á flótta undan stríðsátökum og ofsóknum, en til þess að við getum gert það vel er nauðsynlegt að styrkja útlendingalöggjöfina og skjóta þannig hlífiskildi fyrir verndarkerfið. Því miður er þar af nógu af taka, en aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum en í dag. Þar eigum við ekki að skorast undan ábyrgð, en við breytingar og endurskoðun á lagaumhverfi okkar hljótum við eins og svo oft að líta til reynslu og aðgerða nágrannaþjóða okkar. Frumvarpið er þannig skref í átt að því að færa kerfið okkar nær því sem gerist hjá þeim. Þannig nýtum við fjármunina sem best handa þeim sem mest þurfa á að halda.
Ég hlakka til að eiga góðar og gagnlegar umræður um þessi mikilvægu mál við þingmenn. Að svo búnu er mikilvægt að málin verði til lykta leidd.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.