Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
„Skattaumhverfið þarf að vera sanngjarnt, skilvirkt og samkeppnishæft á alþjóðamarkaði. Skattar þurfa að vera einfaldir og skattkerfið má ekki letja fólk og fyrirtæki. Mikilvægt er að skattalegir hvatar séu áfram nýttir til að ýta undir fjárfestingu í nýsköpun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einn flokka raunverulega staðið fyrir lægri sköttum í gegnum tíðina og mikilvægt er að fara í endurskoðun á skattkerfinu og auka skilvirkni þess.“ Svohljóðandi er hluti stjórnmálaályktunar síðasta landsfundar Sjálfstæðisflokksins.
Heimilin borga hærri skatta
Fasteignamat hérlendis tók gríðarlegum hækkunum um áramót, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Með breytingunni hækkuðu fasteignaskattar á íbúðarhúsnæði í Reykjavík um 21 prósent, en hækkunin nam um 25 prósentum á sérbýli. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári, þegar fasteignamat hækkaði um 7,4 prósent á landinu öllu. Þetta er jafnframt talsvert meiri hækkun en áætlanir borgarinnar gerðu ráð fyrir.
Hækkandi fasteignamat íbúðarhúsnæðis er óhjákvæmileg afleiðing hækkandi húsnæðisverðs í borginni. Lóðaskortur undanliðinna ára og hæg húsnæðisuppbygging hafa sannarlega verið meðal meginástæðna þess að fasteignaverð hefur farið hækkandi. Það er óviðunandi að stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði skuli sjálfkrafa leiða til samsvarandi skattahækkana. Skattgreiðendur eiga ekki að þurfa að sætta sig við aukna skattbyrði, án þess að neinar þær breytingar hafi orðið á högum þeirra sem réttlætt geta slíka skattahækkun, svo sem frekari eignakaup eða hækkandi tekjur.
Atvinnulíf greiðir hærri skatta
Hið nýja fasteignamat leiðir jafnframt af sér hækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði sem nemur 10,2% á landinu öllu. Þetta þýðir samsvarandi skattahækkun á atvinnulíf, án þess að hækkuninni fylgi aukin þjónusta til fyrirtækjanna í borginni. Í erindi Félags atvinnurekenda til sveitarstjórna segir að með hækkuninni muni þrír milljarðar bætast við skattbyrði atvinnulífsins árlega. Jafnframt sagði að hækkun álagðra fasteignaskatta frá árinu 2014 til ársins 2022 myndi nema um 87%. Við núverandi efnahagsaðstæður þyrftu fyrirtæki að leita allra leiða til að velta ekki hækkunum út í verðlag. Skoraði félagið á sveitarfélögin að lækka álagningarhlutföll með samsvarandi hætti.
Sjálfstæðisflokkur lækkar skatta
Á fyrsta borgarstjórnarfundi nýs kjörtímabils lagði Sjálfstæðisflokkur til lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði fyrir árið 2023. Með lækkuninni yrði brugðist við gríðarlegri hækkun fasteignamats. Sjálfstæðisflokkurinn stendur nefnilega með fólki og fyrirtækjum í borginni þegar skórinn kreppir. Við viljum draga úr álögum – og tryggja sanngjarna skattheimtu í Reykjavík. Það er skemmst frá því að segja að meirihlutinn hafnaði tillögunni.
Á sama tíma lækkuðu nágrannasveitarfélögin, undir forystu Sjálfstæðisflokks, álagningarhlutföll fasteignaskatta svo koma mætti til móts við hækkað fasteignamat. Reykjavíkurborg er því eina stóra sveitarfélagið sem lætur fordæmalausa hækkun fasteignamats leggjast af fullum þunga á þegna sína.
Tryggjum sanngjarna skattheimtu
Fasteignaskattur er ekki aðeins hár í sögulegu samhengi heldur einnig í samanburði við nágrannaríkin. Hvergi meðal Norðurlandanna eru tekjur hins opinbera af fasteignaskatti eins hátt hlutfall af verðmætasköpun og á Íslandi.
Á nýliðnum landsfundi Sjálfstæðisflokks var ályktað að lækka þyrfti skattstofn fasteignaskatta að fyrirmynd Norðurlanda með það að markmiði að draga úr sveiflum á skattstofninum. Gera þyrfti þróun skattstofnsins fyrirsjáanlegri. Sveitarfélögum þyrfti að vera í sjálfsvald sett að ákveða hvernig fasteignagjöld væru ákveðin og innheimt með það að markmiði að draga úr skattbyrði einstaklinga og fyrirtækja.
Lækkum skatta og stækkum kökuna!
Eitt af lykilatriðum þess að efla samkeppnishæfi borgarinnar er að lækka skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Í dag innheimtir Reykjavík hæsta útsvar og hæstu fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Það er varla til þess fallið að auka samkeppnishæfi höfuðborgarinnar.
Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á sanngjarna skattheimtu í Reykjavík. Við treystum nefnilega fólki og fyrirtækjum betur en hinu opinbera til að ráðstafa eigin sjálfsaflafé og skapa úr því verðmæti, samfélaginu öllu til heilla. Við vitum sem er – að hægt er að lækka skatta, en stækka kökuna um leið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.