Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Umræða um málefni Ljósleiðarans, dótturfyrirtækis Orkuveitu Reykjavíkur, var loks leyfð á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Í fjórar vikur höfðu fulltrúar meirihlutans misbeitt valdi sínu í því skyni að koma í veg fyrir að málefni fyrirtækisins yrðu rædd í borgarstjórn. Slík misbeiting er skýrt brot á sveitarstjórnarlögum en sýnir hversu langt borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar ganga til að koma í veg fyrir umræður sem þeim þykja óþægilegar.
Enn er því fjölmörgum spurningum ósvarað um nýgerðan viðskiptasamning milli Ljósleiðara OR annars vegar og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hins vegar.
Ljósleiðarinn kaupir stofnnet Sýnar á þrjá milljarða króna samkvæmt samningnum. Í staðinn skuldbindur Ljósleiðarinn sig til að kaupa þjónustu af Ljósleiðaranum í tólf ár eftir því sem næst verður komist. Svo virðist sem um sé að ræða svokallaða skilyrta sölu.
Stóraukin umsvif í samkeppnisrekstri
Eitt helsta markmið Ljósleiðara OR með samningnum er að byggja upp nýjan og öflugan landshring fjarskipta og færa þannig út kvíarnar í samkeppnisrekstri sínum.
Margar fyrri áhættufjárfestingar Orkuveitu Reykjavíkur á landsbyggðinni hafa ekki gefið góða raun. Sú reynsla ásamt slæmum fjárhag borgarinnar ætti út af fyrir sig að tryggja að ekki sé farið út í frekari áhættufjárfestingar án vandaðrar skoðunar og lýðræðislegrar umræðu í borgarstjórn.
Mörgum spurningum ósvarað
Slík stefnubreyting vekur einnig fjölmargar spurningar um hlutverk Orkuveitunnar á fjarskiptamarkaði og þýðingu samningsins fyrir fjárhag hennar. Til dæmis:
Á Orkuveita Reykjavíkur að færa út kvíarnar í samkeppnisrekstri með milljarða áhættufjárfestingum á landsbyggðinni eins og gert er með samningnum við Sýn?
Hver eru áhrif samningsins á fjárhag og skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitusamstæðunnar og samstæðu Reykjavíkurborgar?
Í nýsamþykktri eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta-félögum er áskilið að borgarstjóri skuli leggja mál sem eru óvenjuleg eða mikils háttar fyrir borgarráð til samþykktar. Umræddur samningur er bæði óvenjulegur og mikils háttar enda með stærstu viðskiptasamningum sem gerðir hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar. Af hverju kýs borgarstjóri að hunsa áðurnefnt ákvæði?
Markmið Ljósleiðarans er að byggja upp nýjan og öflugan landshring fjarskipta eins og áður segir. Í eigendastefnu Orkuveitunnar segir að meginstarfssvæði hennar sé Suðvesturland og að frávik frá því skuli staðfest af eigendum áður en stofnað sé til skuldbindinga vegna þeirra. Af hverju kýs meirihluti borgarstjórnar að ráðast í slíka stefnubreytingu án undangenginnar umræðu í borgarstjórn?
Hvert er eðli samnings, þar sem búnaður er keyptur háu verði gegn langtímaþjónustukaupum seljanda? Hvaða trygging er fyrir því að þau viðskipti haldist í tólf ár?
Stofnnet Sýnar er við sölu bókfært á 564 milljónir króna en Ljósleiðarinn greiðir 3.000 milljónir fyrir það. Söluhagnaður Sýnar vegna kaupanna er því 2.436 milljónir króna og bókfærist að fullu við afhendingu. Er til of mikils ætlast að þessi mikli munur á bókfærðu verði og kaupverði sé útskýrður fyrir almenningi, eigendum Orkuveitunnar?
Milljarða króna viðbótarskuldsetning
Á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag kom berlega í ljós að borgarstjóri og formaður borgarráðs vilja ekki ræða ofangreind álitamál. Hefur umræddur viðskiptasamningur þó í för með sér nokkurra milljarða króna viðbótarskuldsetningu fyrir Reykjavíkurborg. Fóru þeir undan í flæmingi þegar ég beindi ofangreindum spurningum til þeirra og vísuðu til hinnar óréttmætu leyndar, sem þeir hafa viðhaft í málinu.
Undirritaður hefur ítrekað óskað eftir því að stjórnarmenn Orkuveitu Reykjavíkur fái að kynna sér umræddan viðskiptasamning í von um að a.m.k. þeir fái svör við helstu álitamálum varðandi hann. Ekki hefur verið orðið við því. Fulltrúar borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík gera því allt sem þeir geta til að viðhalda því laumuspili, sem viðgengst um milljarðaviðskipti fyrirtækis í almannaeigu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. janúar 2023.