Davíð Oddsson 75 ára

Davíð Oddsson fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra, utanríkisráðherra, borgarstjóri og seðlabankastjóri fagnar í dag 75 ára afmæli sínu.

Davíð er fæddur í Reykjavík 17. janúar 1948. Eiginkona hans er Ástríður Thorarensen hjúkrunarfræðingur.

Davíð var kjörinn í borgarstjórn árið 1974 og var borgarstjóri í Reykjavík frá 1982 til 1991. Það ár var hann kjörinn á Alþingi og tók við embætti forsætisráðherra sem hann gengdi óslitið til ársins 2004. Hann var utanríkisráðherra 2004-2005 en það ár hætti hann á þingi. Davíð var formaður Sjálfstæðisflokksins á árunum 1991-2005, en áður hafði hann verið varaformaður flokksins frá 1989. Hann sat í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins frá 1979-2005.

Davíð lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970 og lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1976.

Sjálfstæðisflokkurinn sendir Davíð bestu óskir í tilefni dagsins.