Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Óvissa er óaðskiljanlegur hluti af lífinu. Við getum tekist á við óvissuna með bjartsýni að vopni eða fyllst vonleysi þess sem ekki sér ljósið. Ekkert okkar er þess umkomið að segja til um hvernig árið 2023 muni reynast okkur Íslendingum. Við getum hins vegar verið ágætlega bjartsýn á framtíðina en um leið raunsæ gagnvart fjölmörgum verkefnum og áskorunum sem bíða okkar.
Þótt ekki sé búið að binda alla enda í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði hefur helstu leiðtogum launafólks og atvinnurekenda tekist að ná saman. Rammi launaþróunar á komandi misserum hefur verið mótaður. Enginn – hvorki hið opinbera né aðrir – hefur siðferðilegan rétt á að rjúfa þennan ramma. Efnahagslega er of mikið í húfi.
Kjarasamningar – jafnvel þótt í nokkru sé teflt á tæpasta vað – draga úr óvissu á nýju ári. Þeir auðvelda fyrirtækjum og launafólki að gera áætlanir um framtíðina. Hið sama á við um ríki og sveitarfélög. Ekki skal dregið í efa að það mun reyna á pólitísk bein ríkisstjórnar ekki síður en þeirra sem fara með meirihluta í stærstu sveitarfélögum landsins. Alveg með sama hætti og það reynir á skynsemi forystumanna samtaka opinberra starfsmanna.
Það hægir á
Samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum [AGS] hafa efnahagshorfur á þessu ári versnað. Stríðið í Úkraínu reynir mjög á efnahag heimsins. Kristalina Georgieva forstjóri AGS lýsti því yfir í viðtali um helgina að þriðjungur landa heims yrði að glíma við efnahagskreppu á þessu ári. Árið gæti einnig reynst öðrum löndum erfitt jafnvel þótt ekki væri glímt við efnahagslegan samdrátt. Vandinn magnast ekki síst vegna þess að það hefur hægst á efnahagsstarfsemi í þremur stærstu hagkerfum heimsins; í Bandaríkjunum, Kína og í löndum Evrópusambandsins.
Auðvitað hefur efnahagur heimsins áhrif hér á landi. Okkur gengur vel þegar öðrum gengur vel. En ólíkt mörgum öðrum löndum erum við í þokkalegri stöðu til að takast á við áskoranir. Staðan er í mörgu öfundsverð. Þrátt fyrir ágjöf vegna Covid-faraldursins stendur ríkissjóður sterkt og hlutfallslega miklu sterkar er ríkissjóðir annarra landa sem við berum okkur gjarnan saman við. Hagvöxtur hefur verið góður en það hægir vissulega á. Staða fyrirtækja og heimila er í flestu góð. Við höfum séð sprotafyrirtæki skjóta rótum, eflast og blómstra. Fjölbreytni atvinnulífsins hefur aldrei verið meiri og í því felst styrkur.
Við Íslendingar höfum engin áhrif á heimsbúskapinn en við getum tekist á við verkefnin heima fyrir – verkefni sem mörg krefjast ögunar og festu en leggja grunn að bættum lífskjörum.
Skynsamlegir kjarasamningar eru mikilvægir en duga ekki einir og sér til að tryggja stöðugleika og bættan hag alls almennings. Lífskjör ráðast ekki aðeins af fjölda króna sem eru eftir í launaumslaginu þegar skattar og gjöld hafa verið greidd. Hvernig til tekst við rekstur ríkis og sveitarfélaga hefur beint áhrif á líf okkar allra. Allt frá snjómokstri til heilbrigðisþjónustu, frá leikskólum til heimaþjónustu aldraðra. Með öðrum orðum: Hvernig farið er með opinbera fjármuni og eignir er spurning um lífskjör og lífsgæði.
Ein stærsta áskorun sem við stöndum frammi fyrir á komandi árum er að tryggja hagkvæmari nýtingu opinberra fjármuna – fá meira fyrir hverja krónu – og losa fjármuni sem eru bundnir í eignum sem þjóna ekki hagsmunum almennings. Það verður að brjóta múra úreltrar hugsunar og skipulagningar í opinberum rekstri og það verður best gert í samvinnu við nýsköpunarfyrirtæki og hleypa þannig nýjum straumum og hugsunum inn í „kerfið“. Með útvistun verkefna og virkjun sköpunarkrafts frumkvöðla verður hægt að ná fram aukinni hagkvæmni og betri þjónustu á flestum sviðum opinbers rekstrar.
Hefur fitnað ágætlega
Ríkissjóður hefur fitnað ágætlega á síðustu árum – hann hefur fengið að njóta hagvaxtar líkt og flestir landsmenn. Þrátt fyrir að slakað hafi verið á skattaklónni undir forystu Sjálfstæðisflokksins – almenn vörugjöld afnumin, tollar felldir niður af flestum vörum, tekjuskattur einstaklinga lækkaður og tryggingagjald lækkað – verða skatttekjur og tryggingagjald rúmlega 302 milljörðum krónum hærri á þessu ári að nafnverði en árið 2017, gangi tekjuáætlun fjárlaga eftir. Á föstu verðlagi er hækkunin tæpir 136 milljarðar króna eða yfir 15%. Útgjöldin hafa vaxið mun hraðar.
Talsmenn ríkisrekstrar þola illa að bent sé á mikla aukningu ríkisútgjalda á umliðnum árum. Og fátt virðist fara verr í þá en þegar spurt er hvort almenningur fái betri og tryggari þjónustu í samræmi við aukin útgjöld ríkisins. Varðmenn ríkisrekstrar – kerfisins – bregðast hart við þegar reynt er að spyrna við fótum – koma böndum á aukningu ríkisútgjalda og hærri skattheimtu. Í draumaríki þeirra eru lífsgæði mæld út frá hlutfallslegri stærð þeirrar sneiðar sem hið opinbera tekur af þjóðarkökunni – hversu djúpt er seilst í vasa launafólks og fyrirtækja. Því stærri sneið og því dýpra sem er farið, því betra er samfélagið. Engu skiptir þótt kakan verði sífellt minni og krónunum í vösum launafólks fækki. Hlutfallsleg stærð sneiðarinnar er mælikvarðinn sem allt miðast við.
Þessi hugsunarháttur ríkisrekstrarsinna mun fyrr fremur en síðar leiða okkur í ógöngur og draga úr lífskjörum til framtíðar.
Verkefni komandi ára er því ekki að auka enn frekar útgjöld ríkisins, heldur að auka framleiðni í opinberum rekstri og tryggja aukna hagkvæmni. Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi og stjórnarformaður Landspítalans, gefur gott fordæmi í viðtali við fréttastofu ríkisins síðastliðinn mánudag. Þvert á það sem hæst glymur í fjölmiðlum segir Björn að Landspítalann sé vel fjármagnaður: „Þetta er ekki spurning um peninga – þetta er spurning um að koma á skipulagi og horfa lengra fram í tímann. Ekki bara fyrir spítalann heldur heilbrigðiskerfið í heild.“
Björn Zoëga gefur tóninn fyrir uppstokkun á öðrum sviðum ríkisrekstrar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2023.