Ár nýrra viðmiða
'}}

Árið sem er að líða markar merk tímamót í starfi Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Vörður voru lagðar á árinu sem varð leiðarvísir að velgengni okkar í síðustu sveitarstjórnarkosningum og starfi flokksins. Í upphafi árs samþykktu flokksfélagar tillögu stjórnar fulltrúaráðs um að efna til prófkjörs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem aldrei hafði áður verið gert í Fjarðabyggð. Innra starf flokksins hélt vel utan um skipulag og framkvæmd prófkjörsins þar sem boðið var upp á atkvæðagreiðslur í öllum sex þéttbýliskjörnum hins sameinaða sveitarfélags. Gott skipulag og góður meðbyr tryggði góða þátttöku í prófkjörinu sem átti eftir að veita flokknum aukinn kraft í kosningunum.

Í prófkjörsbaráttunni fundu frambjóðendur fyrir ákalli kjósenda um breytingar. Undir því ákalli var framboðslisti flokksins samþykktur sem endurspeglaði mikla nýliðun og sterka breidd. Framboðslistinn var samheldinn og félagsstarfið undir sterkri forystu fulltrúaráðsins var kraftmikið. Það skilaði góðri og skemmtilegri kosningabaráttu þar sem kjósendur tóku ríkulegan þátt og sóttu viðburði og fundi flokksins vel. Þessi kraftur færði okkur aukna bjartsýni og öryggi sem skilaði á endanum sögulegum kosningasigri Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð þar sem við hlutum tæplega 41% atkvæða og fjóra bæjarfulltrúa. Við settum okkur það markmið í kosningunum að verða leiðandi afl í sveitarfélaginu. Við náðum settum markmiðum og gott betur. Sannarlega hefði svo afgerandi ákall um breytingar átt að skila okkur meirihlutasamstarfi.

Það umboð sem kjósendur færðu okkur veitir okkur styrk til að berjast fyrir breytingum með öflugu aðhaldi. Það höfum við gert og munum gera áfram með ákallið að leiðarljósi og kröftugu innra starfi. Þannig verður ár 2022 ekki eingöngu ár sögulegra kosningasigra, heldur ár nýrra viðmiða.

Ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir ánægjuleg og góð samskipti á árinu sem er að líða.

Áramótakveðjur,

Ragnar Sigurðsson
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð