Við sjálfstæðismenn í Húnaþingi vestra buðum fram að nýju undir merkjum D-lista eftir að hafa verið í bandalagi með vinstri mönnum í tvö kjörtímabil. Með hliðsjón af átta ára fjarveru án beinnar tengingar við flokkinn var árangurinn ágætur – fengum tvo menn inn í sjö manna sveitarstjórn og tæplega þriðjung atkvæða. Eftir kosningar mynduðum við meirihluta með framsóknarmönnum og er oddviti framsóknar, Þorleifur Karl Eggertsson, oddviti sveitarstjórnar en undirritaður er formaður byggðarráðs. Fljótlega eftir myndun meirihluta réðum við Unni Valborgu Hilmarsdóttur, fyrrv. framkvæmdastjóra SSNV, sem sveitarstjóra. Hefur samstarf í meirihluta, við sveitarstjóra sem og í sveitarstjórn allri gengið mjög vel og er það þakkarvert.
Við sjálfstæðismenn höfum talað sterkt fyrir ábyrgri fjármálastjórn auk þess að efla og viðhalda einingu og samstöðu, sem einkennt hefur Húnaþing vestra um árabil og gert samfélagið eftirsóknarvert til dvalar og búsetu. Þjónustustig er hátt og álögur lægri en víða annarsstaðar. Við höfum lagt áherslu á pólitískan stöðugleika bæði í samstarfinu á síðasta kjörtímabili líkt og það sem af er því nýja. Þannig hafa mörg brýn framfaramál komist í höfn og önnur nýrri komin í undirbúnings- eða framkvæmdafarveg en með því stöndum við vörð um gott og dýrmætt samfélag og nýtum enn frekar tækifærin sem eru til staðar í okkar héraði.
Við höfum fólkið í sveitarfélaginu í forgrunni líkt og í gegnum heimsfaraldurinn þar sem við vörðum störf og grunnþjónustu samfélagsins. Einn mikilvægasti þáttur grunnþjónustunnar eru skólamálin en þar var grettistaki lyft á liðnu kjörtímabili með byggingu grunn- og tónlistarskólahúsnæðis undir sama þaki, sem var stærsta framkvæmd í sögu sveitarfélagsins.
Við höfum lagt mikla orku og áherslu á að bæta samgöngur og efla innviði. Endurskoðuð samgöngu- og innviðaáætlun SSNV var samþykkt vorið 2022. Í þessari áætlun er tæpt á því helsta sem brennur á okkar samfélagi í samgöngu- og innviðamálum s.s.; uppbygging og viðhald tengivega og annara vega með Vatnsnesveg í sameiginlegum forgangi á Norðurlandi vestra, betra fjarskiptasamband um allt héraðið og tryggt afhendingaröryggi raforku með styrkingu dreifi- og flutningskerfis. Mikið innviðaátak hefur verið unnið af hálfu sveitarfélagsins með endurnýjun hitaveitu í þéttbýli og við lagningu hitaveitu í dreifbýli árin þar á undan. Áfram skal haldið með endurnýjun í þéttbýli og nýframkvæmdir í dreifbýli.
Við viljum stuðla að fjölskylduvænu og heilsueflandi samfélagi fyrir unga sem aldna. Í því sambandi er ánægjulegt að nefna að Húnaþing vestra varð á árinu formlegur þátttakandi í verkefninu heilsueflandi samfélag þar sem heilsa og líðan íbúa er höfð í fyrirrúmi og áþreifanleg í allri stefnumótun.
Atvinnumál með landbúnað í öndvegi eru grundvallaratriði í okkar héraði líkt og víðar. Við leggjum áherslu á að skapa umhverfi sem styður við fjölbreytta atvinnustarfsemi. Fjölbreytt, framsækin og sístæð verðmætasköpun er undirstaða lífskjara í okkar samfélagi og þjóðfélagi.
Óska sjálfstæðismönnum og lesendum öllum árs og friðar með þakklæti fyrir líðandi ár.
Magnús Magnússon
oddviti D-lista sjálfstæðismanna og óháðra í Húnaþingi vestra