Við áramót ríkir jafnan eftirvænting og við hugleiðum hvað nýja árið muni bera í skauti; og nýjar áskoranir og ný tækifæri verða til. Það eru áhugaverðir tímar framundan á komandi ári í Hafnarfirði. Fjölmörg uppbyggingarverkefni sem hafa verið í undirbúningi undanfarin ár og misseri munu fara af stað og sum klárast. Ný íbúðarhverfi rísa og með hóflegri þéttingu á eldri svæðum er áætlað að íbúum bæjarins muni fjölga um allt að fjórðung næstu þrjú til fjögur árin. Samhliða því sem æ fleiri fjölskyldur kjósa að búa sér heimili í Hafnarfirði, fjölgar fyrirtækjum umtalsvert enda höfum við lagt miklar áherslu á að laða fyrirtæki til bæjarins með góðu lóðaframboði og lágum álögum. Einnig eru mörg stór verkefni á teikniborðinu eða eru að fara af stað eins og uppbygging í miðbænum og við Flensborgarhöfn, þróun Krýsuvíkursvæðisins, glæsileg íþróttamannvirki og ýmsir innviðir bæjarins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði eru fullir tilhlökkunar að halda áfram á kjörtímabilinu með þau góðu verkefni sem unnið hefur verið að síðastliðin ár. Okkar helsta verkefni frá því við komumst í meirihluta fyrir rúmum átta árum hefur ekki síst verið að ná stjórn á afar þungri skuldastöðu sveitarfélagsins. Það gengur samkvæmt áætlun og skuldaviðmið lækkar jafnt og þétt. Við höfum einnig lagt á það áherslu að halda álögum og gjöldum hóflegum og eitt fyrsta verkið var að lækka útsvarið en álagningarhlutfallið hafði verið fullnýtt í aldarfjórðung. Þjónustan hefur einnig verið sett í forgang hvert sem litið er, nú síðast við snjómokstur og hreinsun.
Á sama tíma og bærinn er í örum vexti ætlum við að standa áfram vörð um sérkenni bæjarins, hraunið, gömlu húsin og höfnina og bæjarbraginn einstaka, allt það sem gerir Hafnarfjörð að því sem hann er. Hafnarfjörður er hlýlegur bær þar sem er gott að búa og starfa og þangað sem er gott að koma í heimsókn. Framundan eru spennandi tímar í okkar blómstrandi og vaxandi bæ. Megi nýja árið verða okkur öllum farsælt og gott.
Rósa Guðbjartsdóttir
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði