Á þessu ríflega hálfa ári frá enn einum sigri okkar Sjálfstæðismanna í bæjarstjórnarkosningum á Seltjarnarnesi hefur undirrituðum og mínu fólki gengið mjög vel. Okkur hefur verið vel tekið. Hér á Nesinu þekkja menn ekkert annað en styrka stjórn Sjálfstæðismanna. Við höfum náð þeim einstaka árangri að halda hreinum meirihluta allt frá upphafi vega. Þegar þetta yfirstandandi kjörtímabil verður liðið höfum við Sjálfstæðismenn haldið hér hreinum meirihluta í 76 ár. Ég held að það sé einhverskonar íslandsmet og af þessu erum við Sjálfstæðisfólk á Nesinu verulega stolt.
Undirritaður hefur ásamt meirihlutanum notað þetta hálfa ár til að koma sér vel inn í starfið og reynt að setja sig inn í öll kerfi og ferla og kynnast því mikilvægasta sem er starfsfólkið okkar sem veitir þjónustuna. Það má líklega líkja þessu við að stökkva um borð í bát á ferð og taka stjórn.
Í því efnahagsumhverfi sem við búum við í dag er ekki mikið svigrúm til að láta til sín taka með fjárfestingum eða framkvæmdum. Undirritaður auk meirihlutans voru með hófstillt kosningaloforð í baráttunni síðatliðið vor. Okkar stærsta verkefni er bygging leikskóla sem er kostnaðarsöm en þörf framkvæmd. Það verkefni er að fara í gang á vormánuðum. Eins lækkum við fasteignagjöld til að sporna við hækkun fasteinamats svo fátt eitt sé talið.
Undirritaður hefur unnið markvisst með ódýrasta en líklega mikilvægasta kosningaloforð okkar Sjálfstæðismanna. Það er að vinna með opin og jákvæð samskipti með það að leiðarljósi að búa til eitt samstillt lið úr starfsmannahópnum okkar. Einnig höfum við létt á ásýnd okkar með nýrri heimasíðu. Gaf það út í kosningabaráttunni að ég yrði uþb. 50% minna á skrifstofu bæjarstjóra en forverar mínir og við það hef ég staðið. Ég er meira úti í stofnunum bæjarins hjá okkar fólki.
Undirritaður vill vera sýnilegur og alltaf til svara bæði á förnum vegi sem og á íbúasíðu bæjarins. Símanúmerið er heldur ekki neitt leyndarmál 780 7777. Við erum í þessu til að veita þjónustu og ég reyni alltaf að setja mig í spor viðskiptavinarins. Ég heyri og finn að þessu jákvæða og opna viðmóti bæjarstjóra er virkilega vel tekið af bæjarbúum.
Með bestu óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár,
Þór Sigurgeirsson
bæjarstjóri Seltjarnarness.