Áramótakveðja
'}}

Þó stutt sé liðið á núverandi kjörtímabil hafa mikilvæg verkefni verið unnin eftir úrslit kosninga í Grindavík í vor. Úrslitin voru vissulega ekki óskastaða okkar, en við mynduðum þó sterkan meirihluta með öðrum flokkum og hefur samvinnan þar verið til mikils sóma. Undirritaður málefnasamningur er okkur vel að skapi og er séstaklega tekið fram að forgangsverkefni séu að tryggja öryggi rafmagns og vatns í bænum, en skemmst að segja frá því að góður gangur er á þeirri vinnu með HS orku og HS veitum.

Á síðasta kjörtímabili var eitt af stefnumálum okkar sjálfstæðismanna í Grindavík að reisa félagsheimili eldri borgara, en fyrsta skóflustunga í verkefninu var tekin í blálok tímabilsins og verkefnið því stutt á veg komið í vor þegar gengið var til kosninga. Nú hefur verið undirritaður samningur við lægstbjóðanda, sem var Grindin ehf, fyrirtæki í heimabyggð, um að reisa þetta metnaðarfulla mannvirki. Það er fagnaðarerindi að sjá verkefni okkar verða að veruleika og verður vonandi nýtt mikið og vel af eldri borgurum bæjarfélagsins.

Framundan eru krefjandi tímar, meðal annars þar sem sveitarfélög almennt, standa frammi fyrir áskorunum í rekstri og að viðhalda þjónustustigi, en þó það muni blása aðeins á móti er bjart framundan í bæjarfélaginu okkar.

Við sjálfstæðismenn í Grindavík teljum heilshugar að með áframhaldandi ábyrgri fjármálastjórn ásamt uppbyggingu innviða í takt við íbúaþróun og fjárhag, munum við uppskera vel, enda erum við með góð verkefni á áætlun, til dæmis uppbyggingu í kringum nýja sundlaug, nýjan leikskóla og uppbyggingu nýs hverfis.

Bestu kveðjur úr víkinni fögru og óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár,

Hjálmar Hallgrímsson
Oddviti sjálfstæðismanna Grindavík