Kæru félagar,
Eftir snarpa og góða kosningabaráttu í vor, gengum við til kosninga og fengum meirihluta atkvæða.. Við settum fram metnaðarfulla og ábyrga stefnuskrá sem tekið var eftir og skilaði okkur þessum frábæra árangri. Hér í framhaldi fer ég í gegnum það helsta sem við höfum verið að gera frá því í vor.
Snæfellsbær var gestgjafi hátíðarinnar Hinsegin Vesturland og tókst sú hátíð frábærlega. Mikið var lagt í undirbúninginn og hátíðina sjálfa. M.a. var málaður stór og fallegur regnbogi fyrir neðan kirkjuna í Ólafsvík sem hefur vakið verðskuldaða athygli og ætlum við að hafa hann áfram næstu árin a.m.k..
Segja má að höfuð áherslan í framkvæmdum ársins hafi verið í formi viðhaldsframkvæmda á eignum sveitarfélagsins. Ekki tókst þó að framkvæma allt það sem átti að gera á árinu sökum skorts á fagmönnum til verka.
Töluverðar framkvæmdir voru við grunnskóladeildina á Hellissandi, skipt var um dúk á stofu, inngangurinn endurnýjaður og aðgengi að skólanum bætt til muna. Keyptir voru nýir gluggar í allt húsið og byrjað var á að skipta út
Snæfellsbær á lítinn hlut í Snældu sem er að byggja 6 íbúðir á Hellissandi sem gert er ráð fyrir að verði tilbúnar snemma á næsta ári. Einstaklingar voru einnig að byggja hús í sveitafélaginu, sem er afar jákvætt.
Bæjarstjórn tók þá ákvörðun síðla sumar að festa kaup á nokkrum húsum fyrir hina ýmsu starfsemi í Snæfellsbæ. M.a. var keypt hús sem á að hýsa starfsemi eldri borgara , húsið er um 500 m2 að stærð og á eftir að nýtast starfseminni vel. Annað hús verður síðan reyst á Lýsuhóli sem er um 200 m2 að stærð og á að bæta aðstöðuna fyrir leik- og grunnskólann.
Lokið var við tvö verkefni á árinu en styrkur fékkst frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til þeirra, annar til að bæta aðgengi að Svöðufossi og hinn til að bæta aðgengi við styttuna af Bárði-Snæfellsás á Arnarstapa.
Haldið var áfram við að endurnýja ljósabúnað í götuljósum sveitarfélagsins en það mun taka nokkur ár. Verkið felst í því að skipta út eldri ljósum og setja upp mun sparneytnari led lýsingu. Þetta er enn einn liðurinn hjá sveitarfélaginu í orkusparnaði.
Árið var gott hjá Hafnarsjóði Snæfellsbæjar og var landað þar tæpum 40.000 tonnum sem er með því mesta sem landað hefur verið. Á vegum Hafnarsjóðs voru helstu verkefni að rekið var niður nýtt stálþil við Norðurtanga í Ólafsvík, þekja steypt og nýtt masturshús byggt og rafmagn endurnýjað. Hafnarhúsið í Ólafsvík var klætt að utan og unnið er við stækkun þess.
Í Rifshöfn var unnið að umhverfismálum við uppsátur, þökulagningu og gangstéttar lagðar. Byrjað var á dýpkun í innsiglingunni í haust en því miður sökk dýpkunarpraminn þannig að ekki er búið að klára það verk.
Mikil fjöldi ferðamanna kom í Snæfellsbæ á árinu og er gestafjöldinn að nálgast það sem áður var mest. Tjaldsvæðin okkar voru mikið notuð og komu tæplega 17.000 gestir á þau á liðnu ári.
Tekinn var í notkun á árinu 5 íbúða búsetukjarni í Ólafsvík fyrir íbúa með fötlun og er almenn ánægja með að vera búin að ná þessum áfanga í þjónustu við fólk með fötlun.
Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar er góð og voru engin ný langtímalán tekin á árinu sem er mjög ánægjulegt að hafi tekist, því verðbólgan setti þó nokkurt strik í reikninginn er varðar fjármagnsútgjöld.
Kosið var um sameiningu Eyja- og Miklaholtshrepps og Snæfellsbæjar þann 19. febrúar. Íbúar Snæfellsbæjar samþykktu sameininguna en íbúar Eyja- og Miklaholtshrepps feldu hana, þannig að ekkert varð úr sameiningu sveitarfélaganna.
Sendi ykkur öllum ósk um gleðilegt nýtt ár. Þakka samstarfið á liðnu ári.
Björn Haraldur Hilmarsson
oddviti og forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar