Kæru sjálfstæðismenn.
Nú er 2022 senn á enda og ekki úr vegi að líta aðeins um öxl. Síðustu mánuðir hafa verið viðburðaríkir og kraftmikill borgarstjórnarhópur staðið vaktina, og sannarlega ekki vanþörf á!
Birtingarmyndir svikinna loforða og slælegs reksturs eru víða í borginni.
Skýrasta birtingarmyndin var sennilega áætlaður 2,8 milljarða rekstrarhalli borgarsjóðs fyrir árið 2022 sem reyndist að lokum nær sexfaldur, eða 15,3 milljarðar, samhliða 35 milljarða skuldaaukningu samstæðunnar. Þá hefur starfsmönnum borgarinnar fjölgað um 25% á síðastliðnum fimm árum. Báknið blæs út ár frá ári undir stjórn þessa meirihluta og enginn þorir að bregðast við – nema Sjálfstæðisflokkurinn!
Við lögðum til umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir sem miðuðu fyrst og fremst að því að minnka yfirbyggingu borgarinnar og töldum unnt að ná fram 7,3 milljarða hagræði árlega í rekstri borgarinnar. Samhliða lögðum við til aukna lóðasölu og eignasölu sem skilað gæti borgarsjóði tugum milljarða sem verja mætti til niðurgreiðslu skulda og innviðafjárfestinga. Öllum okkar tillögum var hafnað. Meirihlutinn fjallaði um eigin tillögur sem „mestu hagræðingaraðgerðir frá hruni“ þrátt fyrir að þær væru einungis dropi í hafið og einkenndust umfram allt af magni umfram gæðum. Í tillögunum kristallast einmitt stærsta vandamál borgarinnar. Meirihlutinn hefur ekki kjark til að taka á rekstrarvandanum, lausnin er alltaf að skerða þjónustu við íbúa eða seilast dýpra í vasa skattgreiðenda.
Á haustdögum mættu reiðir foreldrar í ráðhúsið til að mótmæla sviknum loforðum í leikskólamálum eftir að öllum 12 mánaða börnum hafði verið lofað leikskólaplássi rétt fyrir kosningar, jafnvel á leikskólum sem ekki voru til. Fljótlega birtust svo fréttir af því að skólastarf í tæplega þrjátíu grunn- og leikskólum hefði orðið fyrir raski á síðustu árum vegna viðvarandi skorts á viðhaldi. Þá virðast viðbrögð þessa meirihluta við uppsöfnuðum húsnæðisskorti í borginni hvergi vera í sjónmáli.
Að lokum má ekki gleyma snjómokstrinum en meirihlutaflokkarnir virðast fullkomlega vanfærir um að sinna eðlilegri vetrarþjónustu og lausnin ávallt að stofna stýrihópa – stýrihópa sem funda almennt mánuðum saman, og komast yfirleitt að þeirri niðurstöðu að stofna skuli nýjan stýrihóp.
Kæri félagi við höldum áfram að standa vaktina, þökkum velvildina og stuðninginn á árinu sem er að líða og óskum þér og þínum farsældar á komandi ári.
Hildur Björnsdóttir
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.