Ófært í Reykjavík!
'}}

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

„Færð þyng­ist mikið í dag og mögu­lega gæti orðið ófært í Grafar­holti, Grafar­vogi og í Úlfarsár­dal.“ Svohljóðandi voru skila­boð frá Reykja­vík­ur­borg í vik­unni.

Storm­ur með ákafri snjó­komu

Snjór er ná­tengd­ur hvers­dags­legu lífi Íslend­inga enda búum við á norður­hjara ver­ald­ar við marg­vís­leg veðrabrigði. Tungu­málið ber þess sann­ar­lega merki. Í ís­lensku eru til mörg orð um snjó og snjó­komu. Mjöll er til dæm­is notað um ný­fall­inn snjó og ef snjór­inn er mjög laus í sér er talað um lausa­mjöll . Ný­fall­inn snjór er nefnd­ur nýs­nævi en harðfros­in snjó­breiða hjarn . Djúp­ur snjór er kallaður kaf­ald en mjög blaut­ur, djúp­ur snjór er stund­um nefnd­ur bleytuslag . Hálf­bráðinn snjór kall­ast krap en skamm­vinn snjó­koma með vindi nefn­ist él Hunds­lappa­drífa er svo mik­il og stór­flyg­sótt snjó­koma í logni en ofan­koma er notað um hvers kyns úr­komu en oft­ast um snjó­komu, él og slyddu. Byl­ur er aft­ur á móti storm­ur með ákafri snjó­komu, en það er sú teg­und ofan­komu sem Reyk­vík­ing­ar hafa upp­lifað und­an­farna daga.

Hringlanda­hátt­ur og virðing­ar­leysi

Síðustu daga hef­ur líf og starf­semi í borg­inni orðið fyr­ir tölu­verðu raski vegna snjóþyngsla. Aðstæðurn­ar eru ekk­ert eins­dæmi og ættu ekki að koma nein­um að óvör­um. Við Íslend­ing­ar höf­um lifað við snjóþunga um ald­anna skeið, en ekki þarf að leita lengra aft­ur en til fyrstu mánaða þessa árs þegar við upp­lifðum sams kon­ar ofan­komu og snjóþunga. Víða lamaðist starf­semi í borg­inni og virt­ist úrræðal­eysi borg­ar­yf­ir­valda al­gert.

Þá lýstu starfs­menn vetr­arþjón­ustu borg­ar­inn­ar sig „fullsadda“ af hringlanda­hætti, þekk­ing­ar­leysi og virðing­ar­leysi borg­ar­yf­ir­valda í sinn garð. Þeim væri ætlað að sinna krefj­andi verk­efn­um við ómögu­leg­ar aðstæður – van­bún­ir og und­ir­mannaðir við slæmt skipu­lag.

Ein­ung­is nokkr­um mánuðum síðar stönd­um við frammi fyr­ir sam­bæri­leg­um vanda en viðbragðið hef­ur ekki tekið fram­förum. Lærði meiri­hlut­inn ekk­ert af síðasta vetri? Hef­ur inn­koma Fram­sókn­ar­flokks­ins ekki breytt neinu?

Ger­um bet­ur!

Það er grund­vall­ar­atriði að fólk kom­ist greiðlega leiðar sinn­ar í borg­inni. Við búum í höfuðborg á norður­hjara ver­ald­ar og þjón­usta borg­ar­inn­ar ætti að gera ráð fyr­ir snjóþung­um vetr­um. Það er ótækt að út­hverf­um Reykja­vík­ur sé lokað vegna ófærðar. Hér þarf betra skipu­lag og öfl­ugra viðbragð. Hér þarf að gera bet­ur!

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. desember 2022.