Vörumst að gera leiguvandann verri

Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:

Þessa dag­ana höf­um við heyrt af dæm­um um sví­v­irðileg­ar og ófor­svar­an­leg­ar hækk­an­ir leigu­verðs. Þó að þau segi ekki alla sög­una um markaðinn í heild koma svona dæmi illa við allt heiðvirt fólk.

Í stjórn­mála­sögu heims­ins er þekkt að vilja bregðast við mikl­um hækk­un­um leigu­verðs með að grípa til aðgerða sem eru vel meint­ar og hljóma vel, eins og til dæm­is leiguþak hvers kon­ar. Það er skilj­an­legt að það sama eigi við um for­ystu­fólk sam­fé­lags okk­ar nú en slík inn­grip hafa þó iðulega gert stöðuna enn verri fyr­ir þá sem síst skyldi og er ástæða til að var­ast.

Leiguþak hef­ur aukið á grunn­vand­ann

Það er ekki mann­vonska eða skeyt­ing­ar­leysi að gjalda var­hug við slík­um inn­grips­lausn­um, held­ur hef­ur reynsl­an af þeim ein­fald­lega verið slæm. Leiga und­ir markaðsverði hef­ur aukið á grunn­vand­ann með sóun á hús­næði, verra viðhaldi og stöðvun ný­bygg­inga. Leiguþak hef­ur búið til óeðli­lega eft­ir­spurn og dregið úr nauðsyn­legu fram­boði. Verk­tak­ar hafa ekki byggt og eig­end­ur ekki leigt hús­næði sem þeir fá ekki raun­v­irði fyr­ir til að nefna nokkr­ar al­geng­ar af­leiðing­ar slíkra inn­gripa. Hag­fræðing­ur­inn Henry Hazlitt orðar það bein­skeytt að há­marks­leiga sé ekki ein­ung­is ár­ang­urs­laus held­ur valdi hún æ meiri skaða fyr­ir alla, og ekki síst fyr­ir hóp­inn sem átti upp­haf­lega að hjálpa. Ann­ar hag­fræðing­ur, Ass­ar Lind­beck, orðaði það enn snagg­ara­leg­ar; að leiguþak sé skil­virk­asta leiðin til að eyðileggja borg­ir, fyr­ir utan sprengju­árás.

Fram­boðsvandi sveit­ar­fé­laga þrýst­ir upp leigu­verði

Inn­lend­ar aðgerðir og aðgerðal­eysi síðustu ára hafa haft sín áhrif. Vinstri­stjórn eft­ir­hruns­ár­anna tvö­faldaði skatt á leigu­tekj­ur sem þrýsti upp leigu­verði sem markaður­inn þurfti að jafna sig á þó að rík­is­stjórn Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sókn­ar­flokks sneri þeirri þróun við með mik­illi skatta­lækk­un á leigu­tekj­ur. Heimag­ist­ing­ar­bóla og fram­boðsvandi hef­ur svo þrengt stöðuna og þrýst upp leigu­verði eins og ger­ist jafn­an þegar eft­ir­spurn er meiri en fram­boð.

Í þeirri stöðu er heilla­væn­legra að rík­is­stjórn hugi að heild­stæðum og raun­veru­leg­um lausn­um með það fyr­ir aug­um að ýta und­ir upp­bygg­ingu á fjöl­breyttu íbúðar­hús­næði, styðja við kaup­end­ur sem og leigj­end­ur, þá sér­stak­lega þá sem veik­ast standa. Rík­is­stjórn­in hef­ur nú sýnt á spil­in um sín plön um að stór­efla hús­næðis- og vaxta­bóta­kerf­in sem er vel. Rík­is­stjórn­in er einnig að stuðla að auknu fram­boði af nýj­um íbúðum á viðráðan­legu verði í sam­ráði við sveit­ar­fé­lög um allt land ásamt áfram­hald­andi upp­bygg­ingu al­mennra íbúða. Þetta eru að aðgerðir sem munu skipta sköp­um.

Það er ábyrgðar­hluti allra sem starfa í stjórn­mál­um að tryggja hús­næðis­ör­yggi í formi skil­virks og þar af leiðandi sann­gjarns hús­næðismarkaðar. Það er líka ábyrgðar­hluti að horfa þar til heild­ar­lausna sem skila raun­veru­leg­um ár­angri en grípa ekki til hljóm­fag­urra skyndi­lausna sem geta komið verst niður á þeim sem á mestri aðstoð þurfa að halda.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. desember 2022.