Að flétta nýsköpun saman við heilbrigðiskerfið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Einn helsti mæli­kv­arðinn á lífs­gæði hér á landi er aðgengi okk­ar að öfl­ugu heil­brigðis­kerfi. Við vit­um þó öll að það er ým­is­legt sem hægt er að gera bet­ur til að bæta aðstöðu starfs­fólks í kerf­inu og gera þjón­ust­una enn betri en hún er í dag. Frek­ari út­gjöld verða þó ekki til þess að leysa all­an vanda, ekki frem­ur en þau hafa gert til þessa, held­ur þurf­um við að huga bet­ur að því hvernig við nýt­um fjár­magnið. Auk þess þurf­um við að finna nýj­ar leiðir til að bæta kerfið.

Matth­ías Leifs­son, fram­kvæmda­stjóri Levi­osa, bend­ir á það í ný­legri blaðagrein að ís­lensk­ir heil­brigðis­starfs­menn verja stór­um hluta af vinnu­tíma sín­um fyr­ir fram­an tölvu­skjái. Ástæðan er sú að þeim ber að halda sjúkra­skrá um sjúk­linga, út­búa lyf­seðla og rann­sókn­ar­beiðnir, vinna úr niður­stöðum og skrá sjúk­dóms­grein­ing­ar.

„Hvernig væri að búa strax til meiri tíma fyr­ir starf­andi lækna til að sinna sjúk­ling­um í stað þess að búa til fleiri lækna sem koma til starfa eft­ir ára­tug?“ spyr Matth­ías. Hann gagn­rýn­ir nú­ver­andi kerfi sem varð til í gömlu tæknium­hverfi og hvet­ur til þess að nýj­ar leiðir verði farn­ar á grund­velli nú­tíma­tækni til að stytta þenn­an mikla skjá­tíma og gefa lækn­um og öðru heil­brigðis­starfs­fólki meiri tíma með sjúk­ling­um. Þetta eru góðar ábend­ing­ar.

Í grein­ingu ráðgjaf­ar­fyr­ir­tæk­is­ins McKins­ey kem­ur fram að starfs­fólki Land­spít­al­ans muni fjölga um 45% og rekstr­ar­kostnaður aukast um 90% ef rekst­ur verður áfram með óbreyttu sniði til árs­ins 2040. Það staf­ar m.a. af vænt­um breyt­ing­um þar sem íbú­um lands­ins fjölg­ar og þeir lifa leng­ur en fyrri kyn­slóðir. Á hinn bóg­inn sýn­ir grein­ing McKins­ey að ef brugðist verður við með ný­sköp­un og sta­f­ræn­um lausn­um, nýj­um ferl­um og hagræðingu muni auk­in þjón­usta leiða til 3% fjölg­un­ar starfs­fólks og um 30% hækk­un­ar heild­ar­kostnaðar.

Ný­sköp­un eyk­ur gæði með hag­kvæm­um hætti. Það er ástæðan fyr­ir þeirri ákvörðun minni að kasta Flétt­unni til ný­sköp­un­ar­fyr­ir­tækja, til að kom­ast upp veggi heil­brigðis­kerf­is­ins. Flétt­an veit­ir styrki til að auðvelda heil­brigðis­stofn­un­um að inn­leiða nýj­ar lausn­ir; lausn­ir sem bæta þjón­ustu við sjúk­linga, stytta biðlista og auka skil­virkni. Öflugt rann­sókna- og ný­sköp­un­ar­um­hverfi á sviði heil­brigðis­tækni og þjón­ustu er brýn aðgerð til að bregðast við þeirri stöðu sem við stönd­um frammi fyr­ir.

Áhug­inn á Flétt­unni lét ekki á sér standa, 59 um­sókn­ir bár­ust þar sem 23 heil­brigðis­stofn­an­ir um allt land taka þátt. Vegna mik­ils áhuga verður 60 millj­ón­um varið ár­lega næstu þrjú ár í Flétt­una. Ef vel tekst til get­ur hér verið á ferðinni mik­il­væg­ur liður í því að draga úr þeim gíf­ur­lega kostnaðar­auka sem fylgja mun auk­inni vinnu­aflsþörf heil­brigðis­kerf­is­ins á næstu árum.

Hér er því til mik­ils að vinna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. desember 2022.