Táknrænt hænufet
'}}

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Það verður að segjast eins og er. Hvorki mér né öðrum sem barist hafa fyrir hagfelldara umhverfi fyrir frjálsa fjölmiðla hefur orðið sérlega ágengt á síðustu árum. Leikurinn er enn ójafn. Það er enn vitlaust gefið og ef eitthvað er hefur hlutfallsleg yfirburðastaða ríkisins á fjölmiðlamarkaði styrkst á undanförnum árum. Lögvarin forréttindi Ríkisútvarpsins gera það illmögulegt að tryggja heilbrigða samkeppni, þar sem jafnræði og sanngirni eru virt. Á sama tíma halda alþjóðleg stórfyrirtæki áfram strandhöggi sínu. Tæplega helmingur þess fjár sem varið var til birtingar auglýsinga árið 2021 rann til erlendra aðila samkvæmt úttekt Hagstofunnar. Af 22 milljarða markaði runnu 9,5 milljarðar til erlendra fyrirtækja, einkum Facebook og Google, eða 44%. Árið 2012 var hlutdeild erlendra aðila í íslenska auglýsingamarkaðinum 4%.

Sjálfstæðir íslenskir fjölmiðlar berjast því ójafnri baráttu, annars vegar við ríkisfyrirtæki og hins vegar við alþjóðleg stórfyrirtæki. Löggjafinn hefur það í hendi sér að jafna stöðuna töluvert en gerir ekki.

Löggjafinn mótar lögin og þær leikreglur sem eru í gildi á hverjum tíma. Forréttindi Ríkisútvarpsins og ójöfn og erfið staða sjálfstæðra fjölmiðla er ákvörðun sem nýtur stuðnings meirihluta þingmanna. Ég hef orðað þetta þannig að mjúkar hendur og hlýjar faðma Ríkisútvarpið á hverju ári. Þetta sést ágætlega þegar horft er til framlaga ríkisins til ríkismiðilsins sem fjármögnuð eru með útvarpsgjaldi. Gangi fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp eftir verða framlögin tæplega 28% hærri að raunvirði á komandi ári en 2013 eða um 1.250 milljónum króna. Þetta er meira en tvöfalt hærri fjárhæð en lagt er til að renni til beins stuðnings við einkarekna fjölmiðla á komandi ári. Samkvæmt frumvarpinu, sem kann að taka breytingum, fær Ríkisútvarpið 5.710 milljónir króna úr ríkissjóði á komandi ári. Þessu til viðbótar hefur Ríkisútvarpið fengið frá 2020 árlega 175 milljónir til að efla leikið íslenskt efni. Og ekki má gleyma auglýsingatekjum ríkisfyrirtækisins sem námu liðlega tveimur milljörðum króna á síðasta ári.

Hænufet

Í fylgifrumvarpi fjárlaga – svokölluðum bandormi – er gert ráð fyrir því að útvarpsgjaldið hækki um 1.400 krónur á hvern greiðanda á komandi ári – úr 18.800 krónum í 20.200 krónur. Þetta er hækkun um 7,4%. Þar með hækkar framlag til Ríkisútvarpsins um 388 milljónir króna. Auk þess nýtur Ríkisútvarpið þess þegar einhver framtakssamur einstaklingur stofnar hlutafélag eða þegar unglingurinn nær 16 ára aldri. „Áskrifendum“ fjölgar og framlagið til ríkisfyrirtækisins hækkar.

Ég hef lagt fram breytingatillögu við bandorminn um að fallið verði frá hækkun útvarpsgjaldsins á komandi ári. Líta má á tillöguna sem tilraun til að stíga hænufet í átt að því að jafna lítillega ójafna stöðu á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Um leið fær íslenskt launafólk að halda eftir nokkru fleiri krónum í vasanum – krónum sem annars renna beint í ríkisrekstur fjölmiðils. Þingmenn fá þannig tækifæri til að sýna í verki hvort þeir eru tilbúnir til að taka sér stöðu með sjálfstæðum fjölmiðlum eða verja ægivald ríkisins á fjölmiðlamarkaði. Ákvörðunin er táknræn.

En þótt erfitt hafi verið að tryggja heilbrigðara rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla kemur ekki til greina að leggja árar í bát. Í baráttu fyrir framgangi hugmynda, að ekki sé talað um baráttu fyrir tilvist öflugra frjálsra fjölmiðla, er ekki aðeins nauðsynlegt að láta sig dreyma heldur neita að gefast upp. Afnám einokunar ríkisins á öldum ljósvakans kom ekki af sjálfu sér. Áralöng og erfið átök skiluðu loks árangri. Nú vill enginn kannast við að hafa reynt að leggja stein í götur þess að einkaaðilar gætu haslað sér völl í útvarpi og sjónvarpi.

Aldrei hef ég farið dult með að eiga draum um að ríkið dragi sig með öllu út úr fjölmiðlarekstri. Litlar eða engar líkur eru á því að draumurinn rætist á komandi árum. Til þess er pólitíski varnarmúrinn sem slegið hefur verið upp í kringum Efstaleiti of þéttur. Á meðan svo er verður að grípa til annarra aðgerða til að byggja undir sjálfstæða fjölmiðla.

Meirihluti þingmanna veit að það er kolvitlaust gefið á fjölmiðlamarkaðinum og er þess vegna tilbúinn til að veita einkareknum fjölmiðlum beina styrki úr ríkissjóði. Mér líður á stundum eins og við þingmenn séum að kaupa okkur aflátsbréf með þeim hætti – friða samviskuna og komast um leið hjá því að skera burt meinið.

Bjartsýnni en áður

Skilvirkasta leiðin til að styrkja rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla er sérstök lækkun skatta samhliða því að draga ríkið að fullu út af markaði auglýsinga.

Ég hef tvisvar lagt fram frumvarp um lækkun tryggingagjalds einkarekinna fjölmiðla þannig að það leggist ekki á laun starfsmanna nema í efsta þrepi tekjuskatts. Í greinargerð frumvarpsins eru færð rök fyrir því að eðlilegt sé að einkareknir fjölmiðlar njóti ákveðinna skattalegra ívilnana, en ekki ríkisfjölmiðill, til að leiðrétta að nokkru það samkeppnisforskot sem ríkisreksturinn hefur. Með því að fella niður tryggingagjaldið að hluta næst hlutfallslega sama lækkun á hvern fjölmiðil miðað við launakostnað. Skattaívilnunin er þannig byggð á rekstri einstakra fjölmiðla og allir sitja við sama borð. Aðgerðin er einföld og gagnsæ.

Á síðasta þingi lagði ég jafnframt fram frumvarp um að draga Ríkisútvarpið út af samkeppnismarkaði í skrefum. Frumvarpið náði ekki fram að ganga en ég á marga bandamenn, meðal annars menningar- og viðskiptaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur. Í sérstakri umræðu um umhverfi fjölmiðla í mars sl. sagði ráðherrann það ekki æskilegt „að Ríkisútvarpið sé á auglýsingamarkaði“. Við virðumst einnig eiga samleið í því að huga sérstaklega að skattaumhverfi fjölmiðla.

Undir lok árs 2022 er ég því nokkru bjartsýnni en í upphafi ársins um að það takist að tryggja heilbrigðara umhverfi fyrir íslenska fjölmiðla á komandi misserum. Hænufetið í þá átt geta þingmenn stigið með því að falla frá hækkun útvarpsgjaldsins sem allir eru þvingaðir til að greiða.

Morgunblaðið, 14. desmeber 2022.