Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023 var samþykkt í borgarstjórn í fyrrinótt. Áætlunin sýnir að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur engin tök á fjármálum borgarinnar. Reksturinn er ekki sjálfbær og borgin stendur frammi fyrir miklum skuldavanda.
Borgarbúar blekktir
Fyrir borgarstjórnarkosningar í vor var því haldið fram af borgarstjóra að fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar væri sterk og að hún ætti ekki við neinn vanda að stríða í þeim efnum. Um leið og borgarstjóri hélt þessu fram boðaði hann jafnframt ný útgjöld upp á tugi milljarða króna. Því miður létu margir kjósendur blekkjast fyrir kosningar en nú er komið á daginn að fjárhagsstaða borgarinnar er mjög slæm. Væri það verðugt rannsóknarverkefni að skoða muninn á þeirri fjármálastöðu, sem áróðursvél borgarstjóra í ráðhúsinu hélt að kjósendum fyrir kosningar, og raunverulegri stöðu.
Froðuhagnaður vegna félagslegra íbúða
Stór liður í fjárhagsáætlun borgarinnar er svonefnd „matsbreyting fjárfestingareigna“.
Félagslegar íbúðir borgarinnar eru endurmetnar og aukið verðmæti þeirra skráð sem hagnaður í bækur borgarinnar. Þetta er reiknaður hagnaður (froða) en ekki raunverulegur. Þessi matsbreyting nam 20,5 milljörðum á síðasta ári og mun nema 29,5 milljörðum á þessu ári. Án þessa froðuhagnaðar væri rekstrartap samstæðu borgarinnar um fimmtán milljarðar króna á yfirstandandi ári.
Íþyngjandi vaxtagjöld
Samkvæmt útkomuspá munu vaxtagjöld borgarinnar rúmlega tvöfaldast á milli áranna 2021 og 2022. Vaxtagjöldin voru tæplega 13 milljarðar í fyrra en verða rúmlega 26 milljarðar í ár. Gert er ráð fyrir að þau lækki að nýju og verði 18,5 milljarðar á næsta ári. Auðvitað er þó vandi um slíkt að spá.
Þrátt fyrir grafalvarlega skuldastöðu ætla borgarstjóri og aðrir borgarfulltrúar meirihlutans enn að auka skuldirnar.
Langvarandi skuldasöfnun Samfylkingar
Skuldir borgarinnar (A- og B-hluta) munu aukast um 35 milljarða króna á árinu og verða komnar í 442 milljarða núna um áramótin. Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun munu skuldir borgarinnar aukast um 22 milljarða á næsta ári og verða 464 milljarðar í árslok 2023.
Aukin skuldsetning er fjármálastefna vinstri meirihlutans í Reykjavík í hnotskurn. Ef haldið verður áfram á þeirri óheillabraut að hækka skuldir Reykjavíkurborgar um tugi milljarða á ári stefnir borgin í greiðsluþrot innan nokkurra ára. Enginn skuldsetur sig út úr fjárhagsvanda og skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða heimili, fyrirtæki eða sveitarfélag.
Reykjavíkurborg hefur safnað skuldum linnulítið í aldarfjórðung, lengst af undir forystu borgarstjóra Samfylkingarinnar. Erfitt er að sjá í hvaða veruleika þeir stjórnmálamenn lifa, er halda því fram að slíkur rekstur sé í lagi og koma þar að auki stöðugt með hugmyndir að nýjum útgjaldaverkefnum, sem almenningur á að greiða. Slík fjármálastefna er ábyrgðarlaus en á tímum hárra vaxta er hún beinlíns hættuleg.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. desember 2022.