Raunhæfar aðgerðir til að koma böndum á reksturinn
'}}

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík leggur fram ríflega sjö milljarða króna sparnað við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2023. Jafnframt snúa tillögurnar að tekjuaukandi aðgerðum sem geta skipt sköpum fyrir rekstur borgarinnar.

„Með breytingatillögum okkar kynnum við raunhæfar en nauðsynlegar aðgerðir til að koma böndum á rekstur borgarinnar og svara fremur máttlausum hagræðingartillögum meirihlutans. Tillögur meirihlutans skila samanlagt aðeins einum milljarði í hagræðingu, sem er dropi í hafið. Áherslur meirihlutans virðast einkennast af magni umfram gæðum,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Í tillögum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er lagt til að draga úr rekstrargjöldum sem nemur 5,2 milljörðum króna með því að minnka yfirbyggingu. Þar vegur þyngst tillaga um að skera niður launakostnað um 5%, en þess gætt að hlífa framlínustarfsfólki. Samhliða er lagt til að hagræða í miðlægri stjórnsýslu og fækka borgarfulltrúum.

Jafnframt er lögð til frestun eða lækkun á fjárfestingum sem nemur 1.850 milljónum króna árið 2023 og 4.850 milljónum króna næstu fimm árin. Tillögurnar felast m.a. í því að fjárfestingar á sviði Þjónustu- og nýsköpunar verði lækkaðar um  helming eða um 1.500 milljónir króna og að forgangsraðað verði í þágu starfrænnar umbreytingar í velferðarþjónustu, skólastarfi barna og á umhverfis- og skipulagssviði. Auk þessa verði fjárfestingu í Grófarhúsi og á Hlemmsvæði frestað.

„Til viðbótar við þessar hagræðingaraðgerðir leggjum við fram tillögur um tekjuaukandi aðgerðir. Aðgerðirnar snúa annars vegar að frekari sölu lóða undir íbúðar- og atvinnuhúsnæði í borginni. Lóðasalan sem slík mun skapa borginni auknar tekjur, en jafnframt sú fjölgun íbúa og fyrirtækja sem fylgja mun í kjölfarið.   Hins vegar  leggjum við að venju til sölu á Ljósleiðaranum og öðrum eignum sem ekki snúa að lögbundnu grunnþjónustuhlutverki Reykjavíkurborgar. Geta aðgerðirnar skilað borginni tugum milljarða sem verja má til lækkunar á skuldum og fjármagnskostnaði ásamt því að fjárfesta í innviðum,“ segir Hildur.