Sendiráð Íslands í Varsjá opnað
'}}

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Í dag verður sendi­ráð Íslands í Var­sjá opnað, á deg­in­um þegar Íslend­ing­ar fagna því að hafa orðið full­valda ríki árið 1918. Um svipað leyti, í árs­lok 1918, var sjálf­stætt og full­valda Pól­land að rísa upp úr þeim mol­um þjóðríkja­skip­un­ar sem lá eft­ir fyrri heims­styrj­öld­ina. Ísland viður­kenndi lýðveldið Pól­land í janú­ar 1922 – fyr­ir réttri öld – og hóf­ust diplóma­tísk sam­skipti form­lega árið 1946.

Frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar hafa tengsl ríkj­anna verið mik­il og vax­andi á fjöl­mörg­um sviðum. Þar ber einna hæst í mín­um huga að mik­ill fjöldi fólks frá Póllandi og af pólsk­um upp­runa hef­ur auðgað ís­lenskt sam­fé­lag með því að setj­ast hér að til lengri eða skemmri tíma. Nú búa ríf­lega 20 þúsund íbú­ar með pólskt rík­is­fang á Íslandi og er lang­stærsti hóp­ur er­lendra rík­is­borg­ara. Vita­skuld hef­ur einnig fjölgað hratt í hópi þeirra sem eru Íslend­ing­ar með pólsk­ar ræt­ur.

Raun­veru­legt frelsi ekki sjálf­gefið

Íslend­ing­ar hafa bless­un­ar­lega aldrei þurft að horf­ast í augu við stríðshörm­ung­ar á borð við þær sem lita sögu Pól­lands en hin sterka sjálf­stæðisþrá pólsku þjóðar­inn­ar er til­finn­ing sem hreyf­ir við sam­bæri­leg­um strengj­um í ís­lensk­um hjört­um. Sam­töl mín við pólsk starfs­systkin og pól­skættaða vini og kunn­ingja hafa sann­fært mig um að milli þess­ara tveggja ólíku þjóða séu ákaf­lega sterk­ir streng­ir og að við eig­um margt sam­eig­in­legt þótt annað landið sé meðal þeirra fjöl­menn­ustu í Evr­ópu og hitt meðal hinna fá­menn­ustu. Einn þess­ara vina er borg­ar­full­trú­inn Pawel Bartoszek en hann hef­ur haft mik­il áhrif á póli­tíska af­stöðu mína í gegn­um tíðina. Bæði með því að lesa skrif hans og eiga við hann sam­töl hef ég fengið glögga og dýr­mæta inn­sýn í það hversu miklu máli það skipt­ir sam­fé­lög að búa við raun­veru­legt frelsi og að slíkt sé ekki sjálf­gefið. Á meðan við Íslend­ing­ar höf­um litið á frelsi og sjálf­stæði sem ákaf­lega eft­ir­sókn­ar­verð mark­mið fyr­ir okk­ar sam­fé­lag, þá hef­ur bar­átt­an fyr­ir frels­inu verið bein­lín­is lífs­spurs­mál fyr­ir pólsku þjóðina. Frelsi er eng­inn lúx­us held­ur nauðsyn til þess að mann­legt sam­fé­lag geti blómstrað.

Það voru líka Pól­verj­ar sem stóðu einna fremst í bar­átt­unni gegn oki komm­ún­ism­ans og stend­ur öll Evr­ópa í þakk­ar­skuld fyr­ir það hug­rekki sem til dæm­is meðlim­ir Sam­stöðu sýndu á ní­unda ára­tug­in­um í bar­áttu gegn harðræði yf­ir­valda. Þá réð mórölsk for­ysta Jó­hann­es­ar Páls II., fyrsta pólska páfans, miklu í hinni hug­mynda­fræðilegu bar­áttu sem lauk með því að lönd­in í aust­ur­hluta Evr­ópu gátu markað sína eig­in braut í átt að lýðræði, mann­rétt­ind­um og rétt­ar­ríki.

Pól­land for­ystu­ríki

Pól­land hef­ur verið með sendi­ráð á Íslandi frá 2013 og eru sam­skipti okk­ar á mörg­um sam­eig­in­leg­um vett­vangi til fyr­ir­mynd­ar. Það var þó ekki ein­ung­is til að upp­fylla gagn­kvæmn­is­reglu diplóma­tískra sam­skipta sem ég tók ákvörðun um opn­un sendi­ráðs í Var­sjá held­ur blas­ir við að Pól­land er eitt af for­ystu­ríkj­um Evr­ópu í menn­ing­ar­legu, póli­tísku, vís­inda­legu og efna­hags­legu til­liti. Sú djúpa virðing og vinátta sem rík­ir milli Íslands og Pól­lands fel­ur því í sér mik­il verðmæti fyr­ir Ísland og það er með stolti sem ég tek þátt í að opna sendi­ráð okk­ar í Var­sjá á deg­in­um sem helgaður er ís­lensku full­veldi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2022.