Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Miklar umræður standa nú yfir um aukið ofbeldi í Reykjavík, fjölgun hnífaárása og vopnaburð meðal ungmenna. Í síðustu viku óskuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að lögreglustjórinn í Reykjavík kæmi sem fyrst á fund borgarráðs til að ræða fjölgun ofbeldisglæpa. Teljum við að borgarfulltrúar og lögreglan þurfi sameiginlega að ræða leiðir til að stemma stigu við þessari öfugþróun, t.d. með því að efla löggæslu og auka samstarf milli þessara aðila.
Vandamálið er grafalvarlegt en sem betur fer er margt hægt að gera til að takast á við fjölgun ofbeldisglæpa. Margar erlendar borgir hafa tekist á við slíka hluti á síðustu áratugum og brugðist við með mjög ólíkum hætti. Tækifæri eru til að læra af reynslu margra borga í nágrannalöndum okkar, sem náð hafa miklum árangri á þessu sviði.
Lögreglan stendur sig vel
Lögreglan hefur staðið sig vel við erfiðar aðstæður að undanförnu en aðferðafræði hennar má auðvitað alltaf endurskoða og bæta. Að mínu mati þarf að leggja aukna áherslu á að bregðast við minni háttar líkamsárásum og taka þær til kærumeðferðar í kerfinu án dráttar. Erlendar rannsóknir sýna að það hefur mikið forvarnargildi að taka á slíkum brotum af festu áður en gerendurnir leiðast út í enn alvarlegra ofbeldi. Þá þarf að auka sýnileika lögreglunnar almennt sem og hverfalöggæslu.
Þessi mikilvægu mál voru meðal annars til umræðu í Bítinu á Bylgjunni sl. þriðjudag og þá ekki síst samskipti borgarstjórnar við lögregluna.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, sagði við það tækifæri að ofbeldisvarnir hefðu verið efldar hjá Reykjavíkurborg á kjörtímabilinu. Stofnað hefði verið nýtt mannréttinda- og ofbeldisvarnarráð strax eftir kosningar, þar sem fram færi stöðugt samtal milli lögreglunnar og borgarfulltrúa.
Minnkandi samskipti borgarstjórnar við lögreglu
Þessi orð forsetans standast því miður ekki. Á kjörtímabilinu hafa samskipti borgarfulltrúa og lögreglunnar snarminnkað í samanburði við fyrra kjörtímabil þegar sérstök ofbeldisvarnarnefnd fór með samskipti við lögregluna. Þá sótti lögreglustjóri sjálfur nær alla fundi ofbeldisvarnarnefndarinnar.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur lögreglustjóri aldrei komið á fund hins nýja mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs en fulltrúi hans einu sinni samkvæmt fundargerðum þess. Var það í október eða nokkrum vikum fyrir hnífaárásina í Bankastræti 17. nóvember. Hefur ráðið þó haldið sjö fundi á kjörtímabilinu, hinn síðasta 24. nóvember. Það var ekki fyrr en í lok október sem ráðið samþykkti að lögreglan fengi fastan áheyrnarfulltrúa í ráðinu og hefur sá fulltrúi komið einu sinni á fund þess eins og áður sagði.
Það stenst því ekki að í hinu nýja mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði fari fram stöðugt samtal milli borgarfulltrúanna og lögreglunnar. Staðreyndin er sú að samskipti þessara aðila hafa minnkað þrátt fyrir stóryrði forsvarsmanna vinstri meirihlutans í borgarstjórn um að þau hafi aukist. Eitthvað er að verkstjórninni hjá meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar.
Mikilvægt er að strax verði horfið frá því sleifarlagi, sem vinstri meirihlutinn hefur sýnt af sér í þessum málum það sem af er kjörtímabilinu. Koma þarf samskiptum milli borgarstjórnar og lögreglunnar í lag að nýju enda er ljóst að aukin samvinna milli þessara aðila, ekki síst í forvörnum, getur skilað margvíslegum árangri við að stemma stigu við ofbeldisglæpum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. desember 2022.