Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Þolinmæði kínversku þjóðarinnar gagnvart hörðum sóttvarnaraðgerðum stjórnvalda í baráttu við Covid-19 virðist á þrotum. Eftir tæp þrjú ár af lokunum, sem fylgt hefur verið eftir af hörku af lögreglu og heilu borgirnar settar í sóttkví, er mælirinn loksins fullur. Mótmælin sem brotist hafa út síðustu daga eru líklega mesta áskorun sem Xi Jinping forseti hefur staðið frammi fyrir frá því að hann komst til valda árið 2012. Hrottaleg stefna í sóttvörnum hefur haft efnahagslegar og félagslegar afleiðingar sem enginn í forystu Kommúnistaflokks Kína reiknaði með. Lokunarstefna Xi hefur ekki skilað árangri. Útbreiðsla Covid-19 er að aukast að nýju og efnahagslegur kostnaður er gríðarlegur.
Mótmælin sem brutust út í kjölfar eldsvoða í borginni Urumqi, þar sem tíu manns fórust, eru sérstaklega hættuleg Xi af tveimur ástæðum, segir Ian Williams, dálkahöfundur tímaritsins The Spectator og sérfræðingur í málefnum Kína. Annars vegar vegna þess hve útbreidd þau eru – frá Urumqi í vestri, til Guangzhou í suðri, í gegnum Peking, Sjanghaí, Wuhan og marga fleiri bæi og borgir. Hins vegar vegna þess að námsmenn, efri millistéttin og verksmiðju- og farandverkafólk hafa sameinast í mótmælunum. Alræðisklíkan í Peking undir forystu Xi Jinping hefur greinilega vanmetið hve útbreidd og djúpstæð reiðin er í garð stjórnvalda.
Verum hugrakkari
„Kínverjar ættu að vera hugrakkari!“ hrópaði ungi maðurinn með fangið fullt af gulum blómum um leið og hann hvatti til dáða fjölda fólks sem safnaðist saman í miðborg Sjanghaí á sunnudag. „Er ég að brjóta lög með því að halda á þessum blómum? Þeir þora ekki að handtaka okkur!“ Augnabliki síðar var ungi maðurinn handtekinn af lögreglu, honum hent upp í lögreglubíl. Með þessum orðum hefst fréttaskýring Jamils Anderlinis, aðalritstjóra fréttaritsins Politico fyrir Evrópu, um ástandið í Kína. Hann starfaði í tvo áratugi sem blaðamaður í Kína.
Leiðtogar kínverska kommúnistaflokksins hafa alltaf mætt andófi af mikilli hörku. Brotið mótmæli á bak aftur af grimmd alræðisherra. Á Torgi hins himneska friðar í Peking voru mótmæli undir forystu stúdenta brotin aftur með hervaldi í júní 1989. Þúsundir lágu í valnum og fjöldi var handtekinn. Hreinsanir hófust, erlendir blaðamenn voru reknir úr landi, embættismönnum vikið úr starfi, ritskoðun hert og öryggislögreglan styrkt.
Sérfræðingar halda því fram að kúgunin hafi náð nýjum hæðum í valdatíð Xi og að enginn leiðtogi kommúnistaflokksins hafi tekið sér meiri völd en hann frá tímum Mao Zedong. Í raun sé Xi orðinn alvaldur í fjölmennasta ríki jarðarinnar. Undir hans stjórn hafa uighur-múslimar sætt ofsóknum og börn verið aðskilin frá foreldrum. Talið er að allt að ein milljón sé í haldi í „endurmenntunarbúðum“ þar sem stunduð er pólitísk innræting. Trúarhefðir og tungumál eru skipulega brotin niður. Menningarlegt þjóðarmorð. Í Hong Kong hefur kommúnistaflokkurinn hert tökin, þvert á loforð. Sett hafa verið sérstök öryggislög til að kæfa andóf. Meira að segja barnabókahöfundar eru ekki óhultir en nýlega voru fimm þeirra dæmdir fyrir samsæri og fundnir sekir um að æsa til uppreisnar með bókarskrifum. Hvergi í heiminum hafa fleiri blaðamenn verið fangelsaðir en í Kína. Á hverjum degi eru almenn mannréttindi brotin á kínverskum borgurum. Fangelsi, ritskoðun og útskúfun eru úrræði ofbeldisstjórnar Xi.
Hið rétta andlit birtist
Hvort mótmælin síðustu daga skila einhverjum árangri á eftir að koma í ljós. Sagan er ekki hliðholl mótmælendum. En Xi er vissulega vandi á höndum. Reiðin vegna harkalegra sóttvarnaraðgerða getur snúist í annað og meira: Kröfu um aukið frelsi og lýðræði.
Jamil Anderlini segir að það hafi verið ótrúlegt að heyra fólk hrópa eftir lýðræði, endalokum stjórnar kommúnistaflokksins og krefjast þess að Xi láti af völdum. „Gefðu mér frelsi eða gefðu mér dauða!“ hrópaði námsmaður við háskólann í Peking rétt áður en hann var fjarlægður af hrottum yfirvalda. Jamil segir greinilegt að eitthvað hafi breyst í þjóðarsál Kínverja og það lofi ekki góðu fyrir Xi eða kínverska kommúnistaflokkinn. Það sé ekki aðeins innbyrð gremja yfir harkalegum sóttvarnaraðgerðum sem er að brjótast út heldur uppsöfnuð reiði vegna áratugar af stöðugt vaxandi kúgun undir stjórn Xi og fámennrar klíku hans.
Hugsjónafólkið sem gengið hefur fram fyrir skjöldu í mótmælum síðustu daga í bæjum og borgum um allt Kína hefur ekki hugmynd um hvort og þá hvaða hryllingur bíður þess. Hugrekkið er svo sannarlega fyrir hendi. En óháð Covid munu stjórnvöld taka niður grímuna og kínverskur almenningur sér hið rétta andlit ógnar- og kúgunarstjórnar Xi Jinping.
Því miður er líklegt að vestræn stjórnvöld þegi þunnu hljóði þegar mótmæli verða barin niður af þeirri grimmd sem talin er nauðsynleg. Efnahagslegir hagsmunir sem eru undir ráða of miklu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2022.