Þjóðir sem framkvæma!
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifar:

Singapúr og Ísland eiga margt sameiginlegt. Hvort tveggja eru litlar þjóðir sem búa við öryggi í löndum sínum, reiða sig á út- og innflutning og leggja mikla áherslu á menntun og nýsköpun. Þá eru þetta þjóðir sem framkvæma!”

Sá sem mælti þessi orð við mig í Singapúr á dögunum hefur búið og starfað sem alþjóðlegur sérfræðingur á báðum stöðum. Sjálfsagt hefur hann lög að mæla en á sama tíma er margt sem þjóðirnar geta lært hvor af annarri. Ég var þarna stödd til að kynna mér hvernig Singapúr hefur staðið að því að bæta umhverfi nýsköpunar. Stefnan sem fylgt hefur verið hefur leitt til eftirtektarverðs árangurs og eflt hugvitsdrifið hagkerfi landsins til muna. Á síðasta áratug hefur landið skipað sér í fremstu röð á því sviði.

Árangurinn á rætur að rekja til öflugs háskólaumhverfis og samvinnu við alþjóðlega háskóla á heimsmælikvarða. Stjórnvöld í Singapúr hafa markað og fylgt eftir langtíma-nýsköpunarstefnu sem m.a. miðar að því að laða rannsóknatengdar hátæknigreinar, iðnað, rannsóknir og alþjóðlega fjárfesta til landsins. Þessi stefna hefur skilað góðum árangri. Singapúr með sínar 5,7 milljónir íbúa og heildarlandsvæði nær fjórðungi minna en höfuðborgarsvæðið á stærð hefur klifrað hratt upp ýmsa alþjóðlega lista um samkeppnishæfni og tæknivæðingu á nýliðnum árum. Landið situr nú í áttunda sæti á lista Alþjóðahugverkstofunnar (WIPO) um helstu nýsköpunarríki heims, þriðja sæti í samkeppnishæfni skv. „Global Competitive“-vísitölu IMD og fyrsta sæti á lista IMD yfir tækniumhverfi. Þá eru tveir háskólar í Singapúr á meðal 20 bestu háskóla í heimi.

Í stuttu máli; stjórnvöld settu sér skýr markmið, lögðu áherslu á að fylgja þeim eftir og það hefur skilað sér í bættum lífskjörum. Við vitum að verðmætin verða sjaldnast til á skrifborðum ríkisins. Verkefni stjórnvalda er að skapa umgjörðina og marka skýra stefnu þannig að fólk og fyrirtæki geti gripið keflið og hlaupið í mark. Eitt af því sem við getum lært af Singapúr er mikilvægi þess að hugsa til framtíðar og setja okkur markmið til lengri tíma. Ísland er á nær öllum mælikvörðum eitt besta land í heimi til að lifa og starfa í en staðreyndin er sú að við getum gert svo mikið betur með þann mannauð sem við búum yfir. Ég hef í starfi mínu í nýju ráðuneyti lagt áherslu á að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Það markmið er ekki úr lausu lofti gripið og ég trúi því að við getum rennt fleiri og sterkari stoðum undir hagkerfi okkar með því að virkja hugvitið og aukið þannig lífsgæði í landinu. Til þess þurfum við í sameiningu að undirbúa okkur fyrir verkefni framtíðarinnar, setja okkur skýr markmið um það hvert við stefnum og hvernig við ætlum að komast þangað. Það er verkefni okkar allra.

Morgunblaðið, 25.11.2022.