Nei takk, herra Trump
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Don­ald Trump hef­ur til­kynnt, eins og flest­ir reiknuðu með, að hann sæk­ist eft­ir til­nefn­ingu Re­públi­kana­flokks­ins sem for­setafram­bjóðandi árið 2024. Nati­onal Review [NR], áhrifa­mikið tíma­rit meðal hægrimanna í Banda­ríkj­un­um, biðlar í leiðara til flokks­bund­inna re­públi­kana að hafna for­set­an­um fyrr­ver­andi án þess að hika eða ef­ast. Trump seg­ir rit­stjórn tíma­rits­ins vera létta­vigt, sem þjóni eng­um til­gangi og út­gáf­an eigi ekk­ert annað skilið en að leggja upp laup­ana.

Rit­stjórn NR var alla tíð gagn­rýn­in á Trump sem for­seta. Þrátt fyr­ir ár­ang­ur á nokkr­um sviðum hafi for­setatíð hans ein­kennst af skipu­lags­leysi og óreiðu, vegna þess hve óút­reikn­an­leg­ur Trump hafi alla tíð verið. Oft hafi hann hegðað sér eins og álits­gjafi gagn­vart eig­in rík­is­stjórn, gefið út til­skip­an­ir á Twitter eða verið með van­hugsaðar yf­ir­lýs­ing­ar sem eng­inn gat tekið mark á. Hann fórnaði ráðherr­um og ráðgjöf­um ef hon­um sýnd­ist svo. „Trump hafði tak­markaðan skiln­ing á stjórn­skip­un okk­ar og þegar öllu er á botn­inn hvolft bar hann litla virðingu fyr­ir henni,“ skrif­ar leiðara­höf­und­ur NR.

Van­hæfni Trumps til að hegða sér í sam­ræmi við þær kröf­ur sem al­menn­ing­ur ger­ir til for­seta gróf und­an hon­um frá upp­hafi til enda. NR full­yrðir að þessi van­geta hafi átt stór­an þátt í því að Trump laut í lægra haldi fyr­ir veik­um fram­bjóðanda demó­krata – Joe Biden - árið 2020. Og skap­gerð Trumps gerði hon­um ókleift að sætta sig við ósig­ur­inn. Hann gerði skamm­ar­leg­ar til­raun­ir til að hnekkja niður­stöðum kosn­ing­anna. Leiðara­höf­und­ur NR seg­ir að for­set­inn fyrr­ver­andi hafi mis­notað vald sitt, gert til­raun til að kúga Mike Pence vara­for­seta til að fresta ein­hliða eða breyta fjölda at­kvæða á fundi í öld­unga­deild­inni 6. janú­ar 2020. Vara­for­set­inn lét ekki und­an þrýst­ingi og múgur­inn réðst inn í þing­húsið.

 

Flokk­ur í helj­ar­greip­um

Re­públi­kana­flokk­ur­inn hef­ur verið í helj­ar­greip­um Trumps, sem hef­ur gert allt til að fá stuðning við rang­hug­mynd­ir og lyg­ar um kosn­ing­arn­ar 2020. Hann hef­ur ýtt und­ir sam­særis­kenn­ing­ar og of­stæk­is­menn en grafið und­an þeim sem hafa and­mælt inn­an flokks­ins. Og haft tölu­verðan ár­ang­ur.

Kosn­ing­ar á miðju kjör­tíma­bili hafa oft­ar en ekki verið erfiðar fyr­ir flokk sitj­andi for­seta. Í byrj­un mánaðar fóru fram kosn­ing­ar til full­trúa­deild­ar­inn­ar auk þess sem kosið var um þriðjung öld­unga­deild­arþing­manna og marga rík­is­stjóra. Re­públi­kan­ar gerðu sér von­ir um að end­ur­heimta meiri­hluta í báðum deild­um þings­ins. Þær von­ir brugðust. Flokk­ur­inn náði naum­um meiri­hluta í full­trúa­deild­inni en demó­krat­ar héldu öld­unga­deild­inni. Fram­bjóðend­ur sem nutu stuðnings og velþókn­un­ar Trumps áttu yf­ir­leitt erfitt upp­drátt­ar.

Re­públi­kan­ar unnu góðan kosn­inga­sig­ur árið 2014 þegar þeir náðu tíu manna meiri­hluta í öld­unga­deild­inni og 59 manna meiri­hluta í full­trúa­deild­inni. Í for­seta­kosn­ing­un­um 2016 fékk Trump aðeins 46,2% at­kvæða – nokkru minna en keppi­naut­ur hans Hillary Cl­int­on - en meiri­hluta kjör­manna. Fjór­um árum síðar fékk Trump, þá sitj­andi for­seti, 46,8% at­kvæða og laut í lægra haldi fyr­ir Joe Biden.

Í kosn­ing­um til full­trúa­deild­ar­inn­ar 2018 – á miðju kjör­tíma­bili Trumps – misstu re­públi­kan­ar meiri­hlut­ann í full­trúa­deild­inni. Þeim tókst ekki að end­ur­heimta meiri­hlut­ann árið 2020 og misstu stjórn á öld­unga­deild­inni. Og þótt tek­ist hafi að tryggja minnsta mögu­lega meiri­hluta í full­trúa­deild­inni nú í nóv­em­ber þá er ljóst að staða flokks­ins hef­ur veikst á síðustu árum. Demó­krat­ar ráða enn öld­unga­deild­inni. Rík­is­stjór­um úr röðum re­públi­kana hef­ur fækkað úr 31 í 25 og víða hef­ur flokk­ur­inn misst meiri­hluta á rík­isþing­um.

Leiðara­höf­und­ur NR neit­ar því ekki að Trump hafi aðdrátt­ar­afl sem stjórn­mála­maður. Hann hafi heillað marga kjós­end­ur sem kunni að meta bar­áttu­vilja hans og óheflaða fram­komu. Í for­kosn­ing­um standi re­públi­kan­ar hins veg­ar frammi fyr­ir því að velja Trump sem fram­bjóðanda til for­seta 2024 eða ein­hvern ann­an sem er and­stæða hans. Leiðtoga sem er ekki stór­kost­lega eig­in­gjarn eða siðferðilega vafa­sam­ur. Enn sé hins veg­ar of snemmt að segja til um hvort ein­hver hafi burði til að bjóða Trump birg­inn.

 

Hvar eru Reag­an og Kemp?

Sá er þetta skrif­ar hef­ur aldrei verið í aðdá­enda­klúbbi for­set­ans fyrr­ver­andi. Áður en Trump náði að tryggja sér end­an­lega út­nefn­ingu re­públi­kana árið 2016 hélt ég því fram að með sér­lega snjöll­um hætti hefði Trump nýtt sér lýðskrum og spilað á lægstu hvat­ir kjós­enda. Í mars sama ár varpaði ég fram spurn­ingu hér á þess­um stað: „Hvar er Ronald Reag­an okk­ar tíma? Hvar er hægrimaður­inn – íhaldsmaður­inn með hið meyra, blæðandi hjarta? Hvar er arftaki hug­sjóna Jacks Kemps?“

Ronald Reag­an og Jack Kemp sann­færðu sam­herja sína í Re­públi­kana­flokkn­um um að með bjart­sýni á efna­hags­lega framtíð væri hægt að ná eyr­um og stuðningi kjós­enda sem áður höfðu fylgt demó­kröt­um að mál­um – allt frá verka­mönn­um til minni­hluta­hópa, frá fá­tæk­um fjöl­skyld­um stór­borg­anna til millistétt­ar­inn­ar.

Don­ald Trump er and­stæða alls þess sem Reag­an og Kemp stóðu fyr­ir. Þeir spiluðu aldrei á lægstu hvat­ir mann­legra til­finn­inga. Þvert á móti. Ekki síst þess vegna ættu re­públi­kan­ar að fara að ráðum NR og segja nei takk, herra Trump.

Re­públi­kana­flokk­ur­inn er í póli­tísk­um ógöng­um – í póli­tískri herkví Don­alds Trumps. Framtíð flokks­ins ræðst af því hvort flokks­mönn­um tekst að brjót­ast út úr herkvínni – end­ur­nýja hug­sjón­ir Reag­ans og Kemps. Og það blæs held­ur ekki byrlega fyr­ir demó­kröt­um. Flokk­ur þeirra hef­ur færst langt til vinstri og er þjakaður af póli­tískri rétt­hugs­un og slauf­un. Joe Biden, sem ætl­ar að sækj­ast eft­ir end­ur­kjöri eft­ir tvö ár, sýn­ir merki um elli­glöp. Vara­for­set­inn er póli­tísk létta­vigt.

Það skipt­ir okk­ur á Íslandi miklu hver og hvers kon­ar ein­stak­ling­ur sit­ur í Hvíta hús­inu. Það skipt­ir heim­inn all­an miklu. Þess vegna er ástæða til að hafa áhyggj­ur af þróun stjórn­mála í Banda­ríkj­un­um. Það er með ólík­ind­um að 335 millj­óna manna þjóð eigi ekki betri kosti en Trump eða Biden.

Morgunblaðið, 23. nóvember 2022.