Gull­húðaðar EES-reglur

Diljá Mist Einarsdótir alþingismaður:

Í skýrslu starfs­hóps um EES-sam­starfið sem kom út í septem­ber 2019 er m.a. fjallað um svo­kallaða „gull­húðun“ við inn­leiðingu EES-reglna í lands­rétt. Með því er átt við til­vik þar sem stjórn­völd ein­stakra ríkja herða á í­þyngjandi EES-gerðum til að ná fram sér­stökum mark­miðum á heima­velli eða „lauma“ heima­smíðuðum á­kvæðum inn í inn­leiðingar­frum­vörp. Víða er lögð á­hersla á að inn­leiðing í­þyngjandi EES-gerða eigi ekki að ganga lengra en gerðirnar sjálfar krefjast gagn­vart þeim sem gert er að starfa eftir reglunum. Þetta kemur m.a. fram í reglum um þing­lega með­ferð EES-mála frá árinu 2010, í al­mennum reglum um meðal­hóf á vett­vangi stjórn­sýslunnar, og í um­ræðum á Al­þingi. Engu að síður kemur fram í skýrslunni að víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar. Sam­tök at­vinnu­lífsins og Sam­tök iðnaðarins hafa m.a. vakið máls á þessu.

Af þessum sökum óskaði ég, á­samt fleiri þing­mönnum Sjálf­stæðis­flokksins, eftir að um­hverfis-, orku- og lofts­lags­ráð­herra flytji Al­þingi skýrslu ó­háðra sér­fræðinga um inn­leiðingu EES-gerða. Beiðnin hefur nú verið sam­þykkt. Óskað var eftir fjallað yrði um hvernig inn­leiðingu EES-gerða hefur verið háttað í um­hverfis­ráðu­neytinu og hvort gengið hafi verið lengra en þörf var á. Ráðu­neytið varð fyrir valinu þar sem heppi­legt er að fram­kvæmdin sé skoðuð á einu mál­efna­sviði til að byrja með. Að auki höfðu mér borist á­bendingar um að þar kynni að vera að finna ýmis dæmi um að of langt væri gengið við inn­leiðingu.

Þing­menn gegna mikil­vægu eftir­lits­hlut­verki gagn­vart stjórn­völdum og til þess höfum við tæki á borð við áður­nefnda skýrslu­beiðni. Inn­lend fyrir­tæki og neyt­endur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópu­sam­bandsins. Í­þyngjandi og ó­skil­virkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-sam­starfinu koma enda ó­orði á EES. Okkur skýrslu­beið­endum finnst því mikil­vægt að komast til botns í hvort sá háttur sé hafður á hér á landi. Hvort lengra sé gengið við inn­leiðingu EES-gerða, með þeim af­leiðingum að reglu­verk verði meira í­þyngjandi en þörf er á.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. nóvember 2022.