Diljá Mist Einarsdótir alþingismaður:
Í skýrslu starfshóps um EES-samstarfið sem kom út í september 2019 er m.a. fjallað um svokallaða „gullhúðun“ við innleiðingu EES-reglna í landsrétt. Með því er átt við tilvik þar sem stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi EES-gerðum til að ná fram sérstökum markmiðum á heimavelli eða „lauma“ heimasmíðuðum ákvæðum inn í innleiðingarfrumvörp. Víða er lögð áhersla á að innleiðing íþyngjandi EES-gerða eigi ekki að ganga lengra en gerðirnar sjálfar krefjast gagnvart þeim sem gert er að starfa eftir reglunum. Þetta kemur m.a. fram í reglum um þinglega meðferð EES-mála frá árinu 2010, í almennum reglum um meðalhóf á vettvangi stjórnsýslunnar, og í umræðum á Alþingi. Engu að síður kemur fram í skýrslunni að víða sé pottur brotinn hvað þetta varðar. Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa m.a. vakið máls á þessu.
Af þessum sökum óskaði ég, ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, eftir að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flytji Alþingi skýrslu óháðra sérfræðinga um innleiðingu EES-gerða. Beiðnin hefur nú verið samþykkt. Óskað var eftir fjallað yrði um hvernig innleiðingu EES-gerða hefur verið háttað í umhverfisráðuneytinu og hvort gengið hafi verið lengra en þörf var á. Ráðuneytið varð fyrir valinu þar sem heppilegt er að framkvæmdin sé skoðuð á einu málefnasviði til að byrja með. Að auki höfðu mér borist ábendingar um að þar kynni að vera að finna ýmis dæmi um að of langt væri gengið við innleiðingu.
Þingmenn gegna mikilvægu eftirlitshlutverki gagnvart stjórnvöldum og til þess höfum við tæki á borð við áðurnefnda skýrslubeiðni. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins. Íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu koma enda óorði á EES. Okkur skýrslubeiðendum finnst því mikilvægt að komast til botns í hvort sá háttur sé hafður á hér á landi. Hvort lengra sé gengið við innleiðingu EES-gerða, með þeim afleiðingum að regluverk verði meira íþyngjandi en þörf er á.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. nóvember 2022.