Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifar:
Mér er minnisstætt atvik sem átti sér stað í bakaríi í Vesturbænum. Í afgreiðslunni voru þrír starfsmenn, tvær stúlkur og ungur karlmaður af erlendum uppruna. Hann var að prófa sig áfram í notkun tungumálsins og stúlkurnar leiðbeindu honum þegar hann rak í vörðurnar. Strax og röðin kom að mér bað ég afgreiðslumanninn auðvitað um brauð sem heitir „ráðherrabrauð“. Hann sótti brauðið og spurði brosandi: „Á ég að skrifa á það?“ Ég skildi ekki hvað hann var að fara en stúlkurnar skelltu upp úr og sögðu honum að hann ætti að spyrja hvort ég vildi láta skera brauðið en ekki skrifa á það.
Á degi íslenskrar tungu er vert að hafa hugfast að stór hluti íbúa landsins talar takmarkaða íslensku. Í stað þess að útiloka þann hóp eigum við að auðvelda honum að laga sig að þjóðfélagi okkar með öflugri íslenskukennslu. Þannig auðgum við tungumálið og stækkum því íslenskan er lifandi mál í stöðugri þróun.
Íslenskan getur verið erfið. Við sem höfum hana sem móðurmál eigum sjálf oft fullt í fangi með málfræðina og stafsetninguna. Sum þeirra sem eru að læra málið kvarta undan aðfinnslum og leiðréttingum. Forðast þau jafnvel að æfa sig í notkun þess til að komast hjá glósum og umvöndunum. Við getum örugglega bætt okkur í þeim efnum.
Við höfum sett okkur það markmið að þeir sem búsettir eru í landinu og hafa íslensku sem annað mál skuli eiga kost á íslenskunámi. Áhugi minn stendur til þess að efla íslenskukennslu í kennaranámi, að auka stuðning við kennaranema af erlendum uppruna og stuðla að aukinni fjarkennslu í íslensku. Ég vonast til að hvatar sem ég hef komið á ýti á háskólana til að standa sig enn betur á þessu sviði.
Ungi maðurinn hefur sennilega ekki verið krafinn um fullkomna íslenskukunnáttu þegar hann sótti um og fékk vinnuna í bakaríinu. Staðreyndin er sú að árið 2019 var um helmingur starfsmanna í veitingarekstri af erlendum uppruna og 20% af öllu vinnuafli í landinu. Hið opinbera rekur lestina með innan við 10%. Ein ástæðan er strangar kröfur m.a. um að umsækjendur hafi „mjög gott vald“ á íslenskri tungu. Ég tel mikilvægt að skapa sama fjölbreytileika þar og ríkir á almennum vinnumarkaði. Í því samhengi mætti skoða hvort ekki sé nægilegt að umsækjendur búi yfir þokkalegum grunni í íslensku að því gefnu að þeir leggi sig fram um að bæta sig.
Í öllu falli mun ég gera allt sem í mínu valdi stendur til að háskólarnir bjóði upp á fjölbreytilegt íslenskunám. Þeir bregði sér með öðrum orðum af fullri alvöru í það mikilvæga hlutverk sem stúlkurnar í bakaríinu gegndu þegar þær leiðbeindu samstarfsmanni sínum þannig að hann gæti sem best náð góðu valdi á okkar „ástkæra og ylhýra“ tungumáli.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu á degi íslenskrar tungu.