Að skrifa á brauð eða skera
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra skrifar:

Mér er minn­is­stætt at­vik sem átti sér stað í baka­ríi í Vest­ur­bæn­um. Í af­greiðslunni voru þrír starfs­menn, tvær stúlk­ur og ung­ur karl­maður af er­lend­um upp­runa. Hann var að prófa sig áfram í notk­un tungu­máls­ins og stúlk­urn­ar leiðbeindu hon­um þegar hann rak í vörðurn­ar. Strax og röðin kom að mér bað ég af­greiðslu­mann­inn auðvitað um brauð sem heit­ir „ráðherra­brauð“. Hann sótti brauðið og spurði bros­andi: „Á ég að skrifa á það?“ Ég skildi ekki hvað hann var að fara en stúlk­urn­ar skelltu upp úr og sögðu hon­um að hann ætti að spyrja hvort ég vildi láta skera brauðið en ekki skrifa á það.

Á degi ís­lenskr­ar tungu er vert að hafa hug­fast að stór hluti íbúa lands­ins tal­ar tak­markaða ís­lensku. Í stað þess að úti­loka þann hóp eig­um við að auðvelda hon­um að laga sig að þjóðfé­lagi okk­ar með öfl­ugri ís­lensku­kennslu. Þannig auðgum við tungu­málið og stækk­um því ís­lensk­an er lif­andi mál í stöðugri þróun.

Íslensk­an get­ur verið erfið. Við sem höf­um hana sem móður­mál eig­um sjálf oft fullt í fangi með mál­fræðina og staf­setn­ing­una. Sum þeirra sem eru að læra málið kvarta und­an aðfinnsl­um og leiðrétt­ing­um. Forðast þau jafn­vel að æfa sig í notk­un þess til að kom­ast hjá glós­um og um­vönd­un­um. Við get­um ör­ugg­lega bætt okk­ur í þeim efn­um.

Við höf­um sett okk­ur það mark­mið að þeir sem bú­sett­ir eru í land­inu og hafa ís­lensku sem annað mál skuli eiga kost á ís­lensku­námi. Áhugi minn stend­ur til þess að efla ís­lensku­kennslu í kenn­ara­námi, að auka stuðning við kenn­ara­nema af er­lend­um upp­runa og stuðla að auk­inni fjar­kennslu í ís­lensku. Ég von­ast til að hvat­ar sem ég hef komið á ýti á há­skól­ana til að standa sig enn bet­ur á þessu sviði.

Ungi maður­inn hef­ur senni­lega ekki verið kraf­inn um full­komna ís­lenskukunn­áttu þegar hann sótti um og fékk vinn­una í baka­rí­inu. Staðreynd­in er sú að árið 2019 var um helm­ing­ur starfs­manna í veit­ing­a­rekstri af er­lend­um upp­runa og 20% af öllu vinnu­afli í land­inu. Hið op­in­bera rek­ur lest­ina með inn­an við 10%. Ein ástæðan er strang­ar kröf­ur m.a. um að um­sækj­end­ur hafi „mjög gott vald“ á ís­lenskri tungu. Ég tel mik­il­vægt að skapa sama fjöl­breyti­leika þar og rík­ir á al­menn­um vinnu­markaði. Í því sam­hengi mætti skoða hvort ekki sé nægi­legt að um­sækj­end­ur búi yfir þokka­leg­um grunni í ís­lensku að því gefnu að þeir leggi sig fram um að bæta sig.

Í öllu falli mun ég gera allt sem í mínu valdi stend­ur til að há­skól­arn­ir bjóði upp á fjöl­breyti­legt ís­lensku­nám. Þeir bregði sér með öðrum orðum af fullri al­vöru í það mik­il­væga hlut­verk sem stúlk­urn­ar í baka­rí­inu gegndu þegar þær leiðbeindu sam­starfs­manni sín­um þannig að hann gæti sem best náð góðu valdi á okk­ar „ástkæra og yl­hýra“ tungu­máli.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu á degi íslenskrar tungu.