Bjarni Benediktsson setti 44. landsfund Sjálfstæðisflokksins í dag

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins setti 44. landsfund flokksins í Laugardalshöll nú síðdegis.

Bjarni hóf ræðu sína á að minna fólk að það væri komið á langstærstu stjórnmálasamkomu landsins. Kjörorð fundarins væri einfalt en máttugt: Frelsi.

Bjarni fór yfir þau fjögur ár sem liðin eru frá því síðasti landsfundur var haldinn. Á þeim tíma hafi mikið gengið á en staða Íslands væri mjög sterk. Þrátt fyrir heimsfaraldur og stríð stæðu Íslendingar vel í samanburði við aðrar þjóðir. Nýjar atvinnugreinar hefðu skapað ný tækifæri, Ísland væri nú vagga nýsköpunar, störfum hefði fjölgað og kaupmáttur aukist.

Bjarni fagnaði því hve margir ungir sjálfstæðismenn væru mættir á landsfundinn. Þá nefndi hann Salome Þorkelsdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis , sem væri elsti fulltrúinn á landsfundi og reis fundurinn úr sætum og hyllti Salome sem átti sæti á Alþingi um árabil.

Bjarni fór yfir stefnu ríkisstjórnarinnar sem hann sagði byggða á trausti og ábyrgð. Markmið hennar væri að endurvekja stöðugleika og stjórnfestu og það hefði tekist. Einnig væri mikilvægt að halda áfram með frelsismál á borð við sölu bankanna og lækkun skatta. Það hefði tekist og til stæði að halda áfram á þeirri braut.

Bjarni ítrekaði að það væru mörg sóknarfæri og tími væri kominn til þess að sjálfstæðismenn kæmust aftur til valda í Reykjavík.

Hann lauk ræðunni með því að setja tóninn fyrir næstu daga:

„Hér erum við saman komin vegna þess að okkur þykir vænt um landið okkar og við vitum að sjálfstæðisstefnan sameinar þjóðina og gagnast öllum, óháð stöðu eða uppruna. Sameinuð og samtaka, frjáls og sjálfstæð, eru okkur allir vegir færir, íslensku samfélagi og þjóð til heilla.“