Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Morð er alvarlegasta birtingarmynd ofbeldis í nánum samböndum og á sér sjaldan stað án aðdraganda. Hér á Íslandi hafa 22% manndrápa á tímabilinu 1999 til 2020 verið framin af maka eða fyrrverandi maka. Flokkahópur hægrimanna, sem ég er hluti af, hefur nú lagt til að Norðurlandaráð beini þeim tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu ríkisstjórnanna að hafin verði vinna til að tryggja samræmdar skilgreiningar og tölfræði um morð í nánum samböndum.
Við upphaf þessa þings lagði ég fram fyrirspurn til dómsmálaráðherra um ofbeldi í nánum samböndum, þar sem óskað var eftir upplýsingum um fjölda manndrápa í tengslum við ofbeldi í nánum samböndum frá aldamótum. Í svari við fyrirspurninni kemur fram að alls níu manndráp (22%) hafi verið framin af maka eða fyrrverandi maka frá árinu 2000, en vakin er athygli á því að 21 manndráp (51%) hafi verið framið af kunningjum eða vinum, en þar geta fallið undir þau tilvik þegar verknaðurinn beinist gegn núverandi maka þess sem gerandi átti áður í nánu sambandi við.
Líkt og fram kemur í áðurnefndri þingmannatillögu til Norðurlandaráðs er algengast að gerandi hafi áður beitt fórnarlamb ofbeldi þegar um er að ræða manndráp í nánu sambandi. Samkvæmt norskri rannsókn hefur fórnarlambið í flestum tilvikum haft samband við lögreglu, heilbrigðis- og hjúkrunarþjónustu eða leitað aðstoðar annars staðar í kerfinu í aðdraganda manndráps.
Líta verður á ofbeldi í nánum samböndum sem fyrirboða um að alvarlegri atvik geti átt sér stað í framtíðinni. Í svari dómsmálaráðherra hvað þetta varðar kemur fram að við rannsókn mála hjá lögreglu hér á landi sé forsaga könnuð ef tilefni er til þess. Þannig getur fjöldi fyrri tilkynninga komið til skoðunar í hverju máli fyrir sig. Það hefur þó ekki verið framkvæmd sérstök athugun á fjölda slíkra tilkynninga, en samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra er verið að skoða möguleikann á því að kanna sérstaklega og leggja heildstætt mat á þau mál sem hafa komið upp og munu koma upp í framtíðinni þar sem manndráp hefur átt sér stað og tengjast ofbeldi í nánum samböndum. Mikilvægi slíkrar athugunar er að mínu mati gríðarlegt, sér í lagi þegar litið er til þess að hlutfall manndrápa á Íslandi sem framin eru innan náinna sambanda er hærra en á heimsvísu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. október 2022.