Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Samkvæmt mannréttindakafla stjórnarskrár Íslands má engan skylda til að vera í félagi. Þrátt fyrir ríka vernd stjórnarskrárinnar hefur almenn löggjöf takmarkað félagafrelsi íslensks launafólks verulega og gert það að verkum að réttur fólks til að velja sér félag eða standa utan þess er í reynd mun takmarkaðri en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, t.a.m. hinum Norðurlandaþjóðunum.
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp með það að markmiði að tryggja stjórnarskrárvarin réttindi íslensks launafólks; að það fái að velja sér sjálft stéttarfélag eða að standa utan slíkra félaga, án þess að það val rýri eða raski tækifærum þess til atvinnu. Það á að vera hlutverk stéttarfélaga að gæta að hagsmunum launafólks. Það fer bersýnilega gegn hagsmunum launafólks að stjórnarskrárvarinn réttur þess til félagafrelsis sé takmarkaður af almennum lögum.
Forgangsréttarákvæði kjarasamninga, sem ýmist hygla eða sniðganga launþega eftir aðild þeirra að stéttarfélagi, eru barns síns tíma. Hvort launafólk velji að vera aðili að eða standa utan stéttarfélags á ekki að ráða úrslitum um hvort það hljóti starf eða ekki. Að sama skapi á launafólk ekki að vera sett í þær aðstæður að þurfa að ganga í tiltekið stéttarfélag ellegar vera sagt upp, sem þó er raunin á íslenskum vinnumarkaði í dag. Að sama skapi stríðir það gegn rétti fólks til atvinnu að launafólki sé gert óheimilt að sinna sínu starfi eingöngu vegna þess að félag, sem það á ekki aðild að, hefur tekið ákvörðun um að boða til verkfalls.
Fjárhagslegir hagsmunir stéttarfélaga og atvinnurekenda, sem geta falist meðal annars í lögbundinni mismunun launafólks eftir félagsaðild, eiga ekki að vega þyngra en hagsmunir launafólks á íslenskum vinnumarkaði. Það á ekki að vera undir stéttarfélögum og atvinnurekendum komið að semja frá launafólki þau grundvallarréttindi að fá að velja sér hvernig og hvar það tryggir hagsmuni sína. Almenn lög eiga ekki að standa í vegi fyrir því vali sem stjórnarskráin á að tryggja. Við viljum að það sé tryggt í reynd sem stjórnarskráin er skýr með að vilja tryggja.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. október 2022.