Skref í átt að jöfnum rétti laun­þega

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Á dögunum mælti ég fyrir frum­varpi nokkurra Sjálf­stæðis­manna sem á að ein­falda starfs­manna­hald ríkisins og gera það skil­virkara. Breytingarnar miða aðal­lega að því að fella niður þá skyldu for­stöðu­manns að á­minna starfs­mann með form­legum hætti vegna brots hins síðar­nefnda á starfs­skyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Þetta ferli er enda bæði þung­lama­legt og tíma­frekt og hefur Ríkis­endur­skoðun gert at­huga­semdir við máls­með­ferð við upp­sagnir ríkis­starfs­manna og lagt til að lögunum verði breytt. Breytingarnar eru sömu­leiðis nauð­syn­legar í ljósi þess að starfs­manna­hald hins opin­bera hefur vaxið jafnt og þétt og fjölgun opin­berra starfa hefur verið mikil. Með breytingunum sem lagðar eru til er sömu­leiðis lagt til að stigið verði lítið skref í þá átt að því að jafna réttar­stöðu allra laun­þega, án til­lits til þess hver er vinnu­veitandi þeirra er. Með frum­varpinu er hins vegar ekki verið að af­nema réttar­vernd opin­berra starfs­manna, hún verður á­fram langtum meiri en vernd annarra laun­þega.

Í vikunni fóru síðan fram um­ræður á Al­þingi um frum­varp okkar Sjálf­stæðis­manna sem miðar að því að verja stjórnar­skrár­varin réttindi launa­manna til fé­laga­frelsis, en Óli Björn Kára­son er fyrsti flutnings­maður þess. Frum­varpið snýr meðal annars að því að ó­heimilt verði að skrá mann í stéttar­fé­lag án hans sam­þykkis og vinnu­veitanda verði ó­heimilt að veita fólki for­gang við ráðningu í störf á grund­velli fé­lags­aðildar. Slíkt er enda í and­stöðu við stjórnar­skrár­varið fé­laga­frelsi og fé­lags­mála­sátt­málann sem Ís­land er aðili að.

Það er löngu tíma­bært að lög um ríkis­starfs­menn verði upp­færð og ein­földuð og réttar­staða allra laun­þega jöfnuð að þessu leyti. Og það er löngu tíma­bært að mikils­verð réttindi laun­þega verði sam­bæri­leg því sem gerist hjá ná­granna­þjóðum okkar og fé­laga­frelsi þeirra verði virt. Það verður síðan fróð­legt að fylgjast með af­stöðu annarra stjórn­mála­flokka á Al­þingi til þessara mikil­vægu mála Sjálf­stæðis­manna.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. október 2022.