Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Á dögunum mælti ég fyrir frumvarpi nokkurra Sjálfstæðismanna sem á að einfalda starfsmannahald ríkisins og gera það skilvirkara. Breytingarnar miða aðallega að því að fella niður þá skyldu forstöðumanns að áminna starfsmann með formlegum hætti vegna brots hins síðarnefnda á starfsskyldum eða þegar hann hefur ekki staðið undir þeim kröfum sem leiða af starfi hans. Þetta ferli er enda bæði þunglamalegt og tímafrekt og hefur Ríkisendurskoðun gert athugasemdir við málsmeðferð við uppsagnir ríkisstarfsmanna og lagt til að lögunum verði breytt. Breytingarnar eru sömuleiðis nauðsynlegar í ljósi þess að starfsmannahald hins opinbera hefur vaxið jafnt og þétt og fjölgun opinberra starfa hefur verið mikil. Með breytingunum sem lagðar eru til er sömuleiðis lagt til að stigið verði lítið skref í þá átt að því að jafna réttarstöðu allra launþega, án tillits til þess hver er vinnuveitandi þeirra er. Með frumvarpinu er hins vegar ekki verið að afnema réttarvernd opinberra starfsmanna, hún verður áfram langtum meiri en vernd annarra launþega.
Í vikunni fóru síðan fram umræður á Alþingi um frumvarp okkar Sjálfstæðismanna sem miðar að því að verja stjórnarskrárvarin réttindi launamanna til félagafrelsis, en Óli Björn Kárason er fyrsti flutningsmaður þess. Frumvarpið snýr meðal annars að því að óheimilt verði að skrá mann í stéttarfélag án hans samþykkis og vinnuveitanda verði óheimilt að veita fólki forgang við ráðningu í störf á grundvelli félagsaðildar. Slíkt er enda í andstöðu við stjórnarskrárvarið félagafrelsi og félagsmálasáttmálann sem Ísland er aðili að.
Það er löngu tímabært að lög um ríkisstarfsmenn verði uppfærð og einfölduð og réttarstaða allra launþega jöfnuð að þessu leyti. Og það er löngu tímabært að mikilsverð réttindi launþega verði sambærileg því sem gerist hjá nágrannaþjóðum okkar og félagafrelsi þeirra verði virt. Það verður síðan fróðlegt að fylgjast með afstöðu annarra stjórnmálaflokka á Alþingi til þessara mikilvægu mála Sjálfstæðismanna.
Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. október 2022.