Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Á dögunum kallaði ég eftir samræmdri móttöku fyrir flóttamenn þar sem jafnframt væri búseta fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd fyrst um sinn. Ekki virðast allir vera sammála mér um mikilvægi þessa og það er allt í lagi, en við skulum ekki mála slíkar lausnir sem útlendingahatur enda eru þær þekktar í nágrannalöndum okkar.
Í nágrannalöndum okkar er tekið á móti flóttamönnum í sértækum búsetuúrræðum. Í Danmörku rekur Rauði krossinn slíkt úrræði með samningi við ríkið en í Noregi er það sveitarfélag. Svæðin eru lokuð utanaðkomandi aðilum til að vernda flóttafólkið. Þannig geta þeir sem þar búa að sjálfsögðu farið út af svæðinu, en aðrir koma ekki inn á það nema með sérstöku leyfi. Þetta er gert til að vernda flóttafólkið sem kemur úr erfiðum aðstæðum og því miður er það svo um allan heim að þessi hópur er varnarlaus og viðkvæmur fyrir misbeitingu af ýmsu tagi. Nýlega upplýsti sérfræðingur frá ÖSE okkur um þá hryllilegu staðreynd að notkun leitarorða á alnetinu eins og „úkraínskt klám“, „úkraínskar fylgdarkonur“ og „úkraínskar konur fyrir kynlíf“ hefur aukist um 200-600%.
Lögreglan og starfsmenn Útlendingastofnunar upplýsa okkur um áhyggjur sínar af því að flóttamenn séu nýttir af óprúttnum aðilum í svarta atvinnustarfsemi. Að aðilar sem stunda skipulagða brotastarfsemi nýti fólkið sem burðardýr fyrir fíkniefni, það sé selt í kynlífsþrælkun og annað mansal. Viðbjóðurinn sem þetta fólk hefur upplifað heldur því áfram jafnvel þótt fólk ætti að vera komið á öruggan stað. Þetta er staðan um heim allan og Ísland er hér engin undantekning.
Bæði í Noregi og Danmörku er tekið á móti umsækjendum á einum stað þar sem þeir búa fyrst um sinn, þar eru skólar og leikskólar, félagsaðstaða, læknisþjónusta, sálfræðiþjónusta og almenn þjónusta og utanumhald um þetta viðkvæma fólk.
Hjá okkur er þessu ekki svo komið heldur eru búsetuúrræði Útlendingastofnunar og Vinnumálastofnunar mjög víða. Fólkið flytur á milli úrræða og börnin mæta beint inn í næsta hverfisskóla. Skólinn veit ekkert um þessi börn fyrr en þau mæta og hefur litlar sem engar bjargir til að veita nauðsynlega þjónustu. Með vaxandi fjölda flóttafólks hér á landi er nauðsynlegt að breyta verklagi okkar, gera kerfið skilvirkara og tryggja að við veitum því fólki sem þarf vernd raunverulega vernd.
Fyrsta búsetuúrræðið sem ég legg hér til er alls ekki hugsað til lengri tíma heldur fyrst um sinn til að tryggja öryggi þessa fólks, meta aðstæður þess og gefa yfirvöldum svigrúm og tækifæri til að meta þarfir hvers og eins og finna framtíðarúrræði fyrir viðkomandi sem hentar. Þá er lykilatriði, til að vel takist til, að flóttafólk dreifist um landið og fái sem best tækifæri til að aðlagast íslensku samfélagi. Þar getum við t.d. lært af nágrönnum okkar Norðmönnum, sem hafa góða reynslu og árangur af því að bjóða flóttafólk velkomið þannig að það aðlagast norsku samfélagi.
Hvort sem þessi hugmynd mín og fleiri aðila um búsetuúrræði verður að veruleika eða ekki tel ég mikilvægt að við tökum umræðuna um útlendinga og flóttafólk af yfirvegun og raunsæi en hættum að mála fólk upp í hópana góða og vonda fólkið – það er ekki til þess fallið að ná árangri í málaflokknum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. október 2022.