Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Kryddilmurinn úr eldhúsinu tekur á móti Söfu þegar hún kemur heim eftir langan skóladag. Hún gleymir ljótu orðunum sem krakkarnir hreyttu í hana vegna þess eins að hún fékk hrós frá kennaranum. Hnúturinn í maganum er horfinn. Safa er komin í skjól hjá móður sinni sem er að undirbúa kvöldmatinn, þar sem kryddin sem hún malar og blandar sjálf eru í aðalhlutverki.
Nokkrum árum síðar stendur Safa ein á Íslandi. Tuttugu og tveggja ára kvaddi hún móður sína og allt fólkið sitt í hitanum í Túnis til þess að starfa í gróðurhúsi í Hveragerði. Safa komst fljótt að þeirri niðurstöðu að hér vildi hún búa. Hún skráði sig í íslensku í Háskóla Íslands og í framhaldinu nam hún hugbúnaðarverkfræði. Lífið var gott en hún hugsaði reglulega heim til móður sinnar í Túnis og annarra kvenna í hennar sporum sem bjuggu við óvissu og óöryggi á vinnustað.
Tveimur árum síðar skrapp hún í heimsókn til móður sinnar og fann hvað hún saknaði kryddilmsins sem alltaf tók á móti henni heima. Móðir hennar hennar malar og blandar sín eigin krydd og Safa fór að velta því fyrir sér hvernig krydd hennar myndu bragðast með íslenska fiskinum, lambinu og öllu hinu. Þegar hún sneri aftur til Íslands hafði hún krydd frá móður sinni meðferðis.
Þrátt fyrir að vera altalandi á íslensku, hafa menntað sig í íslenskum háskóla og stofnað fyrirtæki í kringum kryddin gekk ekki þrautalaust fyrir sig að vera hér áfram. Að nokkrum tíma liðnum tókst það þó á grundvelli annars fyrirtækis sem hún rekur sem forritari, en þar eru nú 13 starfsmenn.
Safa er ein af þeim fjölmörgu erlendu sérfræðingum sem ég hef fengið að kynnast á undanförnum mánuðum. Það eru sögur eins og hennar sem sannfæra mig um að við þurfum að taka til hendinni í þessum málum. Hvort sem það er að veita erlendum námsmönnum dvalarleyfi í kjölfar útskriftar, sem heldur sérhæfðri þekkingu þeirra áfram á Íslandi, eða að hraða sérstaklega atvinnuleyfum fyrir sérhæfð störf. Það gagnast ekki aðeins einstaklingum eins og Söfu heldur samfélaginu í heild sinni.
Nú er hægt að fá kryddin frá Túnis á Íslandi. Mabrúka, móðir Söfu, og samstarfskonur hennar í Túnis fá nú öruggar tekjur og starfa við mannsæmandi aðstæður. Mabrúka þýðir manneskja sem færir gæfu. Mabrúka hefur fært nokkrum konum í Túnis betri kjör og íslenskum kokkum betra bragð og Safa hefur tengt íslensk fyrirtæki í hugverkaiðnaði við erlenda sérfræðinga. Allt eru þetta verðmæti sem skipta okkur máli.
Ég vil að fleiri erlendir háskólanemar velji það að koma í íslenska háskóla og dvelja hér áfram að námi loknu svo íslenskt samfélag fái notið sérfræðiþekkingar þeirra, þeir miðli áfram sinni reynslu og þekkingu – og kryddi tilveru okkar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október 2022.