Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Kórónuveirufaraldurinn en þó einkum innrás Rússa í Úkraínu hafa afhjúpað djúpstæða veikleika í efnahagslífi Evrópu. Sú hætta er fyrir hendi að erfitt verði fyrir ríki Evrópusambandsins [ESB] að vinna sig út úr þeim efnahagsþrengingum sem barist er við. Vandinn virðist krónískur.
Í ræðu á árlegum fundi sendiherra ESB hélt Josep Borell utanríkismálastjóri sambandsins því fram að aðildarríkin hefðu rofið sambandið milli velmegunar og öryggis. Hagsæld landanna hefði byggst á ódýrri orku frá Rússlandi og greiðum aðgangi að kínverskum mörkuðum, jafnt fyrir útflutning og innflutning. Rússneskt gas hefði verið ódýrt og talið hagkvæmt með öruggu framboði. Kína hefði verið vettvangur fjárfestinga og uppspretta ódýrra iðnaðarvara. Þannig hefði kínverskt verkafólk, með sín lágu laun, gert meira og staðið sig miklu betur við að halda verðbólgu í skefjum en allir seðlabankar álfunnar samanlagt.
Á sama tíma og velmegun ríkja ESB hafi verið byggð á Kína og Rússlandi – aðgengi útflutnings að risamarkaði og nægu framboði af hagstæðri orku – framselji Evrópa öryggi sitt til Bandaríkjanna. Josep Borell horfir á gjörbreytta heimsmynd. Þótt samstarfið við Bandaríkin hafi verið gott og farsælt geti pólitískir vindar í Washington breytt um stefnu. Augljóst sé að ESB verði að marka nýja stefnu í orkumálum og framleiða orku innan sambandsins – verða óháð öðrum. „Besta orkan er sú sem þú framleiðir heima,“ sagði Borell í ræðu sinni. Efnahagsleg velsæld verði ekki lengur byggð á Rússlandi og Kína. Orka frá Rússlandi sé hvorki ódýr né örugg. Aðgangur að Kína verði sífellt erfiðari. Þetta krefjist róttækrar endurskipulagningar á hagkerfi aðildarríkjanna og skapi pólitísk vandamál. Um leið komist lönd ESB ekki hjá því að axla meiri ábyrgð á eigin öryggi.
Krossgötur
Óháð því hvort tekið er undir með utanríkismálastjóra Evrópusambandsins eða ekki má öllum vera ljóst að sambandið stendur á krossgötum. Margt bendir til þess að vandi aðildarríkjanna sé jafnvel djúpstæðari en Borell rakti í áðurnefndri ræðu.
Öll lönd ganga í gegnum hagsveiflur – góðæri og samdrátt, uppgang og kreppur. Aðlögunarhæfni efnahagslífs Vesturlanda á liðinni öld var mikil. Á tímum samdráttar gátu Evrópubúar treyst á frumkvöðla og að fjármagn leitaði í arðbærar fjárfestingar sem byggðu undir hagvöxt framtíðarinnar. Hugvit og sterkir innviðir iðnframleiðslu með aðgengi að nægri orku leiddu uppbyggingu eftir efnahagssamdrátt – og raunar heimsstyrjaldir.
Ralph Schoellhammer, lektor í hagfræði og stjórnmálafræði við Webster-háskólann í Vín, varar við því í nýlegri blaðagrein að aðstæður sem gerðu löndum Evrópu kleift að vinna sig út úr kreppum hafi gjörbreyst til hins verra. Ekki sé lengur hægt að reikna með því að myndarlegt vaxtarskeið og nýsköpun fylgi í kjölfar samdráttar. Skortur á orku og minnkandi samkeppnishæfni á flestum sviðum, allt frá menntun til tækni og nýsköpunar, leiði til efnahagslegrar hnignunar. Til verður vítahringur – eða spírall samdráttar.
Þegar fjárfestar átta sig á þessari staðreynd minnkar trúin á efnahagslegum bata ríkja Evrópusambandsins og fjármögnunarkostnaður eykst sem skuldsettir ríkissjóðir ráða illa eða ekki við. Schoellhammer segir að það sé sérstaklega pirrandi að vandræðin séu sjálfskaparvíti. Einu sinni var ESB nær sjálfbært hvað viðkom jarðgasi en á árunum 2011 til 2021 minnkaði gasframleiðslan um helming. Á árum áður var Þýskaland með öfluga raforkuframleiðslu í kjarnorkuverum en þeim hefur flestum verið lokað í misskildu trausti á því að hagkvæmt og tryggt framboð af orku kæmi frá Rússlandi. Undirstöður Þýskalands sem efnahagslegs stórveldis líkjast brauðlöppum. Orkukreppan bætist ofan á gríðarlega erfiðleika í löndum Suður-Evrópu. Skuldsettir ríkissjóðir eru að sligast og gamla stórveldið Frakkland er í raun gjaldþrota þegar tekið er tillit til þungra lífeyrisskuldbindinga sem eru ófjármagnaðar og velt inn í framtíðina á sama tíma og þjóðin eldist. Við blasir stórkostlegur niðurskurður velferðarkerfisins og/eða miklar skattahækkanir sem aftur knýja spíralinn niður.
Pissa í skóinn
Hættan er sú að forystufólk ESB velji „auðveldu“ leiðina í örvæntingarfullri viðleitni til að vinna gegn þrengingum og versnandi lífskjörum. Á Íslandi segjum við að pissa í skóinn. Ríkisútgjöld verða aukin. En aukin útgjöld samhliða minni verðmætasköpun leiðir óhjákvæmilega til verðbólgu – enn meiri verðbólgu. Og svarið. Jú, útgjöldin verða aukin enn frekar. Spírallinn heldur áfram.
Schoellhammer heldur því fram að lítill sem enginn vilji sé hjá ráðamönnum ESB til að brjótast út úr vítahringnum. Þess vegna séu efnahagsvandræði Evrópu rétt að byrja. Þessi skoðun rennir stoðum undir fullyrðingar Joseps Borells utanríkismálastjóra ESB um nauðsyn róttækrar endurskipulagningar innan aðildarríkjanna.
Í samburði við ESB er staða okkar á Íslandi í flestu öfundsverð. Við erum að stórum hluta sjálfbær í orkumálum með virkjun fallvatna og jarðhita. Við eigum möguleika á því að tryggja fullkomið sjálfstæði í orkumálum með orkuskiptum á komandi árum, en til þess þurfum við að vera reiðubúin til að auka raforkuframleiðslu með nýtingu jarðvarma, fallvatna og vindsins. Staða ríkissjóðs er sterkari en flestra annarra ríkja og skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu með því lægsta sem þekkist. Lífeyriskerfið er sterkt og einn af hornsteinum efnahagslegrar velsældar á komandi árum. Við höfum náð að nýta auðlindir hafsins, ekki aðeins með sjálfbærum heldur einnig með arðsömum hætti. Við eigum öflugt hátæknifyrirtæki og ótrúlegan fjölda tæknisprota. Í samanburði við aðrar þjóðir Evrópu erum við enn ung en fram undan eru áskoranir.
En jafnvel þótt við stöndum styrkum fótum erum við ekki ónæm fyrir vanda annarra landa. Nái lönd ESB ekki að vinna sig hratt út úr efnahagslegum þrengingum hefur það neikvæð áhrif hér á landi. Þrengingar í Evrópu eru áskoranir okkar Íslendinga.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október 2022.