Hildur Sverrisdóttir alþingismaður:
Heilsugæslan er mjög mikilvægur hlekkur sem fyrsti viðkomustaður heilbrigðisþjónustu. Í byrjun árs 2017 var tekið í gagnið nýtt fjármögnunarkerfi fyrir heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Kristján Þór Júlíusson, þáverandi heilbrigðisráðherra Sjálfstæðisflokksins, ýtti því úr vör og með breytingum á fjármögnun heilsugæslunnar var verið að færa inn í rekstur heilsugæslunnar faglega og fjárhagslega hvata sem stuðluðu að betri þjónustu og hagkvæmari rekstri. Grundvallarforsendur endurbótanna fólust í gjörbreyttu fyrirkomulagi við fjármögnun þjónustunnar þar sem markmiðið var að umbuna fyrir skilvirka og góða þjónustu í samræmi við þarfir notenda.
Fjármögnunin byggist á því að fjármagn til rekstrar hverrar stöðvar endurspegli þann sjúklingahóp sem heilsugæslustöðin þjónar. Þá fylgir fjármagnið sjúklingnum þannig að ef hann færir sig á aðra heilsugæslustöð fylgir fjármagnið með.
Farsæl breyting
Markmið breytinganna var að auka gæði og skilvirkni þannig að grunnheilbrigðisþjónusta væri veitt í meira mæli á heilsugæslustöðvum. Það hefur þegar skilað árangri þar sem hlutdeild veittrar þjónustu á heilsugæslustöð jókst af heildargrunnheilbrigðisþjónustu og þá fjölgaði skráðum einstaklingum heilsugæslustöðva og þúsundir fluttu sig yfir á aðra heilsugæslustöð sem hentaði þeim betur. Þá gerði þetta fjármögnun heilsugæslunnar gagnsærri og raunsærri og var skref í rétta átt. Ánægjumælingar hafa einnig sýnt að þær nýju einkareknu stöðvar sem ruddu sér til rúms í kjölfar breytinganna raða sér efst á blað yfir bestu þjónustuna.
Nýleg skekkja veldur áhyggjum
Þó að stefnt hafi verið að því að allar heilsugæslustöðvar sætu við sama borð þegar kæmi að því að fjármagn fylgdi sjúklingi í þágu þess að sjúklingarnir þyrftu aldrei að finna fyrir því á nokkurn hátt hvort um opinbera eða einkarekna stöð væri að ræða þá hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að þar lúta þó ekki allir sömu leikreglum, sem myndar ósanngjarna skekkju á milli þessara aðila. Sem dæmi má nefna að Landspítali verðleggur ýmsar rannsóknir sem hann sinnir fyrir hönd heilsugæslustöðvanna ekki jafnt á milli stöðvanna. Aðrir en opinberar stofnanir sem sinna opinberri þjónustu þurfa að kaupa tryggingu fyrir sinn rekstur og greiða eigin ábyrgð á tjónum af skattfé. Ríkisreknar heilbrigðisstofnanir geta fengið endurgreiðslu á virðisaukaskatti á þjónustu sem aðrar heilsugæslustöðvar njóta ekki. Opinberar heilsugæslustöðvar þurfa að fylgja lögum um opinbera starfsmenn en ekki er tekið tillit til kostnaðar vegna lífeyrisskuldbindinga opinberra starfsmanna í fjármögnunarlíkaninu. Sérstakar verðlags- og launabætur, kostnaður vegna launahækkana ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga í kjölfar gerðardóms og viðbótarkostnaður vegna heimsfaraldurs Covid-19, svo dæmi séu tekin, hefur verið greiddur fram hjá fjármögnunarlíkaninu.
Þetta eru aðeins nokkur dæmi af mörgum sem valda því að notendur standa ekki jafnfætis þegar kemur að vali milli heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og safnast þegar saman kemur. Til að gæta þess að jafnræði sé örugglega fyrir hendi er mikilvægt að rýna fjármögnunarlíkanið svo þættir séu ekki settir fram hjá líkaninu í þágu opinberu stöðvanna og tryggja megi sem jöfnust tækifæri sjúklinga, starfsfólks og heilsugæslustöðva til að nálgast og bjóða upp á sem besta grunnheilbrigðisþjónustu, sem heilsugæslustöðvarnar eru nauðsynlegur hluti af.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. október 2022.