Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:
Húsnæðismál voru meginefni síðasta fundar borgarstjórnar Reykjavíkur. Fyrir fundinum lá tillaga Sjálfstæðisflokksins um að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. En undirbúningur Sundabrautar er vonandi loks hafinn af alvöru eftir langvarandi töf vinstri flokkanna í borgarstjórn.
Þótt ekki verði byggt á Geldinganesi á allra næstu árum er æskilegt að skipulag íbúðabyggðar þar verði unnið samhliða vinnu við skipulag og hönnun Sundabrautar, sem mun setja mikinn svip á nesið. Geldinganes hentar vel til íbúabyggðar og Sundabraut getur fallið vel að henni. Forsenda þess er þó sú að byggðin og brautin séu skipulögð samhliða en ekki með bútasaumi.
Áður en tillagan um framtíðarbyggð á Geldinganesi var flutt á fundinum, lýsti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri yfir því að hún yrði felld af fulltrúum meirihluta Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar. Hefur það ekki gerst áður að meirihluti borgarstjórnar gefi út slíka yfirlýsingu um lýðræðislega tillögu áður en tekist hefur að kynna hana og ræða í borgarstjórn eins og lög gera ráð fyrir. Slík málsmeðferð er nýmæli og væntanlega hluti af yfirlýstri stefnu nýs meirihluta að efla lýðræðisleg vinnubrögð í borgarstjórn.
Keldnaland fái ekki samkeppni
Alexandra Briem, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, gerði grein fyrir stefnu nýs meirihluta í skipulagsmálum á fundinum. Útskýrði hún þéttingarstefnu meirihlutans og sagði að verið væri að undirbúa Keldnaland sem næsta stóra uppbyggingarsvæði enda væri það í samræmi við svokallaðan samgöngusáttmála. Að bæta við Geldinganesi, sem væri stórt svæði og mikið til ósnortið, væru mistök á næstu árum og jafnvel áratugum. Síðan sagði hún orðrétt samkvæmt vandaðri umfjöllun Kjarnans um málið:
„Við viljum ekki vera að byggja upp Geldinganes á til dæmis sama tíma og Keldnalandið, þá í beinni samkeppni við Keldnalandið, enda er það eitt af markmiðum samgöngusáttmálans að reyna að fá gott verð fyrir það Keldnaland, enda er því ætlað að fjármagna stóran hluta samgöngusáttmálans af hálfu ríkisins. Því væri það í raun til höfuðs því verkefni að setja í gang annað nýtt stórt úthverfi samtímis. Ég held að það væru mistök,“ sagði Alexandra.
Lóðaskortur hækkar húsnæðisverð
Stefna nýs meirihluta í skipulagsmálum verður varla orðuð skýrar. Lóðaskorti skal m.ö.o. viðhaldið í borginni til að sem best verð fáist fyrir byggingarlóðir í Keldnalandi, sem ætlað er að fjármagna stóran hluta svonefnds samgöngusáttmála. Halda þarf lóðaverði uppi til að tryggja að afrakstur hins opinbera verði sem mestur við skipulagningu Keldnalandsins og sölu lóða úr því til almennings. Gott framboð lóða á hagstæðu verði í öðrum hverfum myndi auðvitað lækka lóðaverð og þannig trufla áðurnefndar fyrirætlanir.
Þessi stefna vinstri meirihlutans í Reykjavík gengur auðvitað í berhögg við hagsmuni tugþúsunda Reykvíkinga, ekki síst ungs fólks, sem hefur lítið á milli handanna en þráir ekkert heitar en að komast í eigið húsnæði. Lóðaskortur stuðlar að háu lóðaverði sem hefur aftur á móti hátt húsnæðisverð í för með sér. Á meðan húsnæðismál í Reykjavík eru föst í þessum vítahring vinstri flokkanna, verður húsnæðisvandinn ekki leystur.
Keldnahverfi verði fallegt og mannvænlegt
Keldnaland er fallegt svæði og þar er því gott tækifæri til að hanna fallegt og eftirsóknarvert íbúðahverfi. Æskilegt er að það verði skipulagt með svipuðum hætti og gert var með góðum árangri í næsta nágrenni, þ.e. Foldahverfi og Húsahverfi. Áðurnefnd yfirlýsing formanns skipulagsráðs vekur hins vegar ugg um að við skipulag Keldnahverfis verði meiri áhersla lögð á mikla uppbyggingu og hámarksafrakstur af lóðasölu en að skapa þar fallegt og mannvænlegt hverfi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. október 2022.