Ragnhildur Alda Vilhjálmsdóttir borgarfulltrúi:
Í nýlegri frétt Innherja um fjárhagsspá Orkuveitunnar má sjá að Orkuveitan ætlar sér stóra hluti á næstu árum. Annars vegar eru aukin umsvif Carbfix í pípunum eftir að hafa fengið grænt ljós í borgarráði og rýni borgarfulltrúa ráðsins. Hins vegar eru uppi áform um að leggja svokallaðan Landshring, ljósleiðara um alla landsbyggðina, sem ég og aðrir borgarfulltrúar verðum fyrst vör við eftir frétt Innherja. Það hlýtur að eiga að vera pólitísk ákvörðun að eitt af dótturfélögum Orkuveitu Reykjavíkur, Ljósleiðarinn, ákveði að tengja ljósleiðara á landsbyggðinni. Þá sérstaklega í ljósi þess að til stendur að fjármagna framkvæmdina með hlutafjáraukningu sem er að hluta einkavæðing Ljósleiðarans. Því er ekki annað hægt en að spyrja hvers vegna ekki hafi átt sér stað umræða innan borgarstjórnar um þessi verkefni. Var borgarstjóri hafður í ráðum varðandi fyrirhugaða hlutafjáraukningu eða samþykkti hann hana? Það lítur út fyrir að Orkuveitan sé þegar byrjuð að hrinda þessum áformum í framkvæmd.
Í fréttinni er jafnframt sagt frá leigu Ljósleiðarans á tveimur þráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins, einnig þekktur sem NATO-strengur, en hann liggur um allt land. Jafnframt er sagt frá samkomulagi um kaup Ljósleiðarans á búnaði Sýnar fyrir þrjá milljarða króna, hvort tveggja mikilvæg skref í átt að nýjum Landshring að sögn framkvæmdastjóra Ljósleiðarans. Hann segir einnig að þótt hlutafjáraukning sé æskileg sé hún ekki forsenda samkomulagsins við Sýn. Þá vakna skiljanlega spurningar um fjármögnun þessa verkefnis. Verður sótt meira hlutafé til borgarinnar og nágrannasveitarfélaga? Eða mun meirihlutinn undir forystu Samfylkingarinnar leita til einkaaðila um hlutafé til að fjármagna uppbyggingu fjarskipta á landsbyggðinni? Síðast en ekki síst má velta fyrir sér hvort nágrannasveitarfélögin, meðeigendur borgarinnar í Orkuveitu Reykjavíkur, hafi verið höfð með í ráðum.
Óháð ágæti þessara áforma Orkuveitunnar er mörgum spurningum ósvarað, en til þess er borgarstjórn einmitt; að tryggja lýðræðislega umræðu og gagnsæi ákvarðana um umsvif borgarinnar og fyrirtækja hennar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. október 2022.