Yfir 20 þúsund einstaklingar gáfu hundruð milljóna
'}}

Rúm­lega 20 þús­und manns gáfu hundruð milljóna til almannaheillastarfsemi í nóvember og desember í fyrra, með tilkomu nýrra skattahvata úr lagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra.

Þetta kom fram í frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um álagningu opinberra gjalda á einstaklinga fyrir árið 2021.

Sam­tals er um að ræða 416 millj­ónir til félaga á almanna­heilla­skrá og getur end­ur­greiðslan numið á bil­inu 130 til 192 millj­ónum króna, eftir því í hvaða skatt­þrepi frá­drátt­ur­inn lend­ir.

Lög um félög til almanna­heilla tóku gildi 1. nóv­em­ber á síð­asta ári. Við það tilefni kvaðst Bjarni binda vonir við að hvatar fyrir almenning til að láta gott af sér leiða án milligöngu hins opinbera myndu styrkja stöðu íslenskra almannaheillafélaga:

„Með breytingunum sendum við skýr skilaboð til þeirra þúsunda sjálfboðaliða sem starfa við almannaheillastarfsemi um allt land að störf þeirra séu mikils metin og skipti okkur öll máli,“ sagði Bjarni.

Lögin heim­ila skatt­afrá­drátt fyrir allt að 350 þús­und krónum á ári vegna gjafa og fram­laga til félaga sem skráð eru á almanna­heilla­skrá Skatts­ins. Til almannaheillafélaga teljast meðal annars ýmis mannúðar- og líknarstarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarfsemi, starfsemi björgunarsveita og neytenda- og forvarnarstarfsemi. Frekari upplýsingar um almannaheillaskrá og önnur hagnýt atriði er að finna á vef Skattsins.

Heild­ar­end­ur­greiðsla vegna framlaga til almannaheillafélaga á síðasta ári mun liggja fyrir þegar álagning lögaðila fyrir árið verður birt í kringum næstu mánaðarmót.