Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi:
Neyðarástand ríkir á húsnæðismarkaði í Reykjavík. Húsnæðisskortur er viðvarandi þar sem íbúðauppbygging í borginni hefur að mestu takmarkast við dýr og þröng þéttingarsvæði á undanförnum árum. Íbúðir á þéttingarsvæðum eru dýrar og varla á færi fólks með meðaltekjur, hvað þá efnalítils fólks.
Miðstýrður húsnæðismarkaður
Húsnæðisstefna Samfylkingarinnar og fylgiflokka hennar hefur verið ráðandi í Reykjavík frá því um aldamót. Á þessum tíma hafa vinstri stjórnir í Reykjavík knúið fram stórfelldar hækkanir á húsnæðisverði með ýmsum ráðum, t.d. með lóðaskortstefnu, lóðauppboði, auknu flækjustigi í stjórnsýslu, hækkun margvíslegra gjalda og álagningu nýrra, t.d. hárra innviðagjalda. Allar slíkar aðgerðir eru lóð á vogarskálar hækkandi húsnæðisverðs.
Auk þess að stórhækka húsnæðisverð hefur þessi stefna gefið fjársterkum aðilum kost á að sanka að sér byggingarlóðum og þar íbúðir til almennings á uppsprengdu verði. Þessi stefna felur því í sér þjónkun við fjársterka verktaka og stórfyrirtæki, sem hafa hagnast um tugi ef ekki hundruð milljarða króna vegna húsnæðisstefnu vinstri flokkanna.
Nóg land til að mæta eftirspurn
Besta leiðin til að bregðast við umræddu neyðarástandi er að leggja áherslu á úthlutun lóða víðar en á þéttingarreitum þar sem uppbygging er seinleg og kostnaðarsöm. Nefna má Úlfarsárdal, Keldnaland, Kjalarnes sem dæmi um svæði, þar sem hægt væri að úthluta þúsundum lóða í náinni framtíð.
Á borgarstjórnarfundi sl. þriðjudag lögðum við sjálfstæðismenn fram tillögu um að hafist verði handa við skipulagningu framtíðaríbúðasvæðis í Geldinganesi með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar. Vegna mikillar uppsafnaðrar byggingarþarfar í Reykjavík er rétt að hefja nú þegar það verk þótt ljóst sé að úthluta megi mörgum lóðum fyrst á öðrum nýbyggingarsvæðum.
Skipulag Sundabrautar og Geldinganess
Mikilvægt er að slíkt íbúðasvæði sé skipulagt samhliða hönnun Sundabrautar, sem stendur nú yfir eftir því sem næst verður komist. Rétt er að tækifærið verði nýtt til að skipuleggja Geldinganes í heild, af metnaði og fyrirhyggju í senn. Ef ekki liggur fyrir skýr yfirlýsing borgarstjórnar um að ætlunin sé að taka Geldinganes til íbúabyggðar er hætt við að unnið verði að skipulagi og hönnun Sundabrautar með sjálft umferðarmannvirkið í forgangi en framtíðaríbúabyggð mæti afgangi. Æskilegt er því að þetta stóra umferðarmannvirki verði hannað samhliða skipulagningu íbúabyggðar í Geldinganesi.
Meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar kaus að fella umrædda tillögu og sýndi þannig af sér skort á fyrirhyggju og framtíðarsýn í skipulagsmálum. Í umræðum um tillöguna kom vel fram að ýmsir borgarfulltrúar meirihlutans líta ekki svo á að það sé hlutverk Reykjavíkurborgar að svara þeirri eftirspurn sem nú er eftir lóðum á höfuðborgarsvæðinu. Stýra þurfi lóðaframboði með ákveðnum hætti, m.a. í því skyni að halda uppi háu lóðaverði í Reykjavík.
Þegar það er beinlínis stefna borgarstjórnarmeirihlutans að takmarka lóðaframboð, halda við lóðaskorti og miðstýra málum með slíkum hætti, ætti það ekki að koma á óvart í sjálfu sér að húsnæðismál séu í slíkum ógöngum í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 6. október 2022.