Ísland hækkar enn í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að stafrænni opinberri þjónustu og innviðum að því er fram kemur á vef Stjórnarráðs Íslands. Þar kemur fram að í nýrri úttekt Sameinuðu þjóðanna sem gerð er annað hvert ár sé Ísland nú í 5. sæti af 193 löndum, en var í 12. sæti árið 2020. Af þeim löndum sem eru í tíu efstu sætunum í úttektinni hækkar Ísland mest á milli kannanna.
Í úttekt SÞ sé skoðað hversu vel ríkin standa að stafrænni þjónustu (Online Service Index), hugviti (Human Capital Index) og tæknilegum innviðum (Telecommunication Infrastructure Index). Fram kemur að hugvit og tæknilegir innviðir séu þeir þættir sem skili Íslandi 5. sætinu, en Ísland mælist einnig framarlega í stafrænni opinberri þjónustu og má búast við að sá flokkur hækki áfram að því er segir á vef Stjórnarráðsins. Mikil áhersla er á stafvæðingu þjónustunnar þessi misserin af hálfu stjórnvalda sem felur í sér að hún verði að fullu aðgengileg á netinu í formi umsókna, greiðslu og kvittunar fyrir þjónustu.
Fram kemur á vef stjórnarráðsins að Ísland hafi í ágúst sl. verið í 4. sæti meðal Evrópuþjóða í stafrænni þjónustu og hafi hækkað um þrjú sæti milli ára samkvæmt árlegri könnun Evrópusambandsins (eGovernment Benchmark).
Ríkisstjórnin hafi sett sér það markmið að Ísland verði leiðandi í opinberri, stafrænni þjónustu og kannanir sýni að vinnunni miði vel áfram.
Haft er eftir Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra að Ísland sé nú komið í hóp fimm öflugustu ríkja heims á þessu sviði, hvort sem hoft sé til úttektar SÞ eða ESB. „Við erum nú komin í hóp fimm öflugustu ríkja heims á þessu sviði, hvort sem horft er til úttektar SÞ eða ESB. Markmiðið er að ná enn lengra og leiða keppnina á heimsvísu. Við höfum alla burði til þess ef við höldum áfram uppteknum hætti,“ sagði hann.