Vilhjálmur Árnason alþingismaður:
svipstundu hefur sprottið upp mikil umræða um auknar afbrotavarnir lögreglu. Þjóðinni var brugðið þegar lögreglan upplýsti um handtökur vegna gruns um undirbúning að hryðjuverkum. Mánuðina á undan hafði lögreglan einnig boðað til blaðamannafunda vegna rannsóknar á stórum málum sem tengjast skipulagðri brotastarfsemi. Þá er okkur í fersku minni svokallað Rauðagerðismál þar sem morð var framið að því virðist í einhverju undirheimauppgjöri. Ég held að við getum öll verið þakklát fyrir störf lögreglunnar á litla Íslandi í þessum stormi alvarlegra mála og þá vitneskju að við séum öruggari í dag en í gær.
Stjórnvöld hafa undanfarið verið sökuð um að nýta sér mál, sem almenningur hefur alla jafna litlar upplýsingar um, til að auka valdheimildir lögreglu í skugga þeirra. Þar hefur helst verið til umfjöllunar fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um auknar heimildir lögreglu til afbrotavarna. Umrætt frumvarp var birt á Samráðsgátt stjórnvalda 8. mars síðastliðinn. Samfélagsumræða um auknar heimildir lögreglu til afbrotavarna hefur staðið mun lengur, eða allt frá því að lögreglulögum var breytt árið 2006 og starfshópur skilaði tillögum í október sama ár til þáverandi dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar.
Í framhaldi af breytingum á lögreglulögum og tillögum starfshóps varð til það skipulag sem við búum við í dag. Samkvæmt því skipulagi sinnir greiningadeild ríkislögreglustjóra því hlutverki að rannsaka landráð, brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Flest önnur lönd og þar á meðal nágrannalönd okkar starfrækja leyniþjónustur með mismunandi útfærslum til að sinna þessu hlutverki. Það er ekki alltaf innan lögreglunnar sjálfrar sem því er sinnt. Önnur lögregluembætti í samstarfi við Ríkislögreglustjóra annast svo rannsókn og saksókn vegna skipulagðrar brotastarfsemi. Það má því segja að þetta séu tvö aðskilin hlutverk, annars vegar að tryggja öryggi ríkisins og hins vegar að vinna gegn skipulagðri brotastarfsemi. Eðli máls samkvæmt getur verið skörun þarna á milli.
Greiningadeild ríkislögreglustjóra hefur reglulega skilað greiningaskýrslum þar sem fjallað er um hryðjuverkaógn og þróun skipulagðrar brotastarfsemi hér á landi. Þar segir m.a. í einni samantektinni; „Áhætta vegna skipulagðrar brotastarfsemi á Íslandi telst mjög mikil. Aukin notkun brotahópa á stafrænni tækni eykur álag á ýmsum sviðum löggæslunnar. Skipulögð brotastarfsemi felur í sér ógn við öryggi samfélags og einstaklinga.“
Fái skipulögð brotastarfsemi að þrífast hér á landi mun íslenskum almenningi og atvinnulífi stafa af því mikil ógn sem getur haft umfangsmiklar félagslegar og efnahagslegar afleiðingar. Þeir brotaflokkar sem falla undir skipulagða brotastarfsemi eru:
- Fíkniefni – innflutningur, framleiðsla og sala
- Smygl á fólki, mansal og vændi
- Vinnumarkaðsbrot
- Peningaþvætti, „svarta hagkerfið“, skattsvik og spilling
- Farandbrotahópar
Við búum í borgaralegu lýðræðisríki þar sem mannréttindi á borð við friðhelgi einkalífs eru í hávegum höfð. Um þau gildi okkar verðum við að stand vörð. Þau gildi verða hins vegar ekki varin nema öryggi borgara sé tryggt. Það er því grundvallaratriði að sú stofnun sem hefur það meginhlutverk að tryggja öryggi lands og þjóðar hafi viðhlítandi heimildir svo þetta gríðarstóra verkefni farist vel úr hendi.
Alþingi stendur nú frammi fyrir því að ákveða hvaða heimildir, mannafla, tæki og tól stoðir lögreglu á borð við greiningadeild ríkislögreglustjóra eigi að hafa til að sinna sínu hlutverki, meðal annars þegar kemur að því að uppræta skipulagða brotastarfsemi. Auknum heimildum fylgir aukin ábyrgð og með þeirri ábyrgð þarf að hafa öflugt eftirlit. Lögreglan hefur sjálf kallað eftir öflugu eftirliti með störfum sínum til að varpa ljósi á fagmennsku sína, en eftirlit er sömuleiðis lykilþáttur í að ná sátt um hlutverk og störf lögreglunnar hér á landi.
Það er augljóst að verkefnum lögreglu munu áfram fjölga samhliða því að þau flækjast og verða umfangsmeiri. Við sem samfélag verðum að standa vaktina með lögreglunni í þessu verkefni og búa henni þær aðstæður sem til þarf. Tryggjum borgaraleg réttindi okkar með auknum afbrotavörnum.
Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 1. október 2022.