Jákvæðar myndir fjárlagafrumvarpsins
'}}

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2023 dragast fram ýmsar jákvæðar myndir. Mér finnst rétt að vekja sérstaka athygli á nokkrum atriðum, enda á það stundum til að gleymast sem vel gengur.

- Söluandvirði Íslandsbanka hingað til, 108 milljarðar, stendur undir allri fjárfestingu í fjárlögum næsta árs og vel rúmlega það. Meðal fjárfestingarverkefnanna eru framkvæmdir við Nýjan Landspítala, hjúkrunarheimili og ýmis samgöngumannvirki.

- Þrettán þúsund störf hafa skapast á einu ári og atvinnuleysi er lágt í sögulegu samhengi, eftir miklar tímabundnar hæðir í faraldrinum.

- Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri. Tekjur á mann hafa aukist um 60 þúsund krónur á mánuði umfram verðbólgu frá 2016. Kaupmáttur hélt áfram að aukast í faraldrinum, ólíkt því sem gerðist víða í nágrannalöndum okkar. Áherslan nú er að standa með þeim sem helst þurfa, meðal annars með 9% hækkun á bótum almannatrygginga milli ára.

- Verðbólgan er sannarlega áhyggjuefni og mikilvægt að við tökum höndum saman í að ná henni áfram niður. Hins vegar má hafa hugfast að hún er hér næstlægst í Evrópu á samræmdan mælikvarða. Stöðugleiki og dýrmæt sérstaða okkar í orkumálum skiptir hér miklu.

- Nýr Landspítali rís nú hratt. Á næsta ári verða 13,4 milljarðar settir í verkefnið. Útgjöld til heilbrigðismála halda áfram að aukast og eru eins og áður langstærsti útgjaldaliður ríkisins. Á næsta ári verða útgjöldin rúmlega 850 þúsund krónur á hvern íbúa.

Hér er hægt að kynna sér málið betur: https://www.stjornarradid.is/.../fjarlog-fyrir-arid-2023/

Færslan birtist á facebook-síðu Bjarna.