Óli Björn Kárason, formaður þinflokks Sjálfstæðisflokksins:
Þingmenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata hafa lagt fram þingsályktun um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um að taka „upp þráðinn í aðildarviðræðum við Evrópusambandið“. Fyrsti flutningsmaður er Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, en tillagan er forgangsmál flokksins á þessum þingvetri sem nýlega er hafinn.
Þegar þetta er skrifað eru nokkrir klukkutímar þangað til Logi Einarsson mælir fyrir tillögunni. Ein af þeim spurningum sem hann þarf að svara er hvaða þráð eigi að taka upp. Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra og forveri Loga í formannsstóli Samfylkingarinnar, pakkaði aðildarumsókninni ofan í skúffu í ársbyrjun 2013. Þá var lítið sem ekkert búið að ræða um erfiða en mikilvæga málaflokka – sjávarútveg og landbúnað. Raunar voru svokölluð samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda í besta falli hulin skýjahulu.
Ekki full yfirráð
En það glitti í markmiðin árið 2011 í fyrstu skýrslu Evrópuþingsins frá því að aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandið hófust. Aðildarumsókn Íslands er fagnað en bent á nokkur ljón sem séu á veginum. Icesave, hvalveiðar og löngun Íslendinga til að verja sjávarútveg og landbúnað. Evrópuþingið hvatti íslensk stjórnvöld til að aðlaga lög um fiskveiðar að reglum innri markaðar Evrópusambandsins. Bent var á að Ísland hefði farið fram á að halda „hluta“ af stjórnun fiskveiða („Iceland ... wishes to maintain some control of fisheries management in its exclusive economic zone“).
Af skýrslunni má ráða að samningsmarkmið íslenskra stjórnvalda í sjávarútvegi hafi ekki verið að tryggja Íslendingum full yfirráð yfir stjórn fiskveiða heldur aðeins „að hluta“ („some control“). Þegar ég vakti athygli á skýrslunni á sínum tíma hélt ég því fram að annaðhvort hefðu þingmenn Evrópuþingsins misskilið aðildarumsókn Íslands eða að forráðamenn vinstristjórnarinnar hefðu ekki komið fram af heilindum gagnvart Evrópusambandinu og íslensku þjóðinni. Logi Einarsson og meðflutningsmenn verða meðal annars að svara því hvort skilningur Evrópuþingsins hafi verið réttur og hvort það komi til greina að færa stjórn fiskveiða að stórum hluta undir embættismenn í Brussel.
Varanlegar undanþágur ekki í boði
En kannski skiptir önnur spurning meira máli. Á blaðamannafundi í júlí 2010, sem haldinn var í Brussel eftir ríkjaráðstefnu ESB og Íslands sem markaði upphaf aðildarviðræðna, tók Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri Evrópusambandsins, það skýrt fram að ekki væri hægt að veita neinar varanlegar undanþágur frá lögum Evrópusambandsins! Sem sagt: Aðildarviðræður Íslands voru viðræður um aðlögun íslenskra laga og reglna að lögum ríkjasambandsins – hvernig og hvenær, en ekki hvort varanlegar undanþágur yrðu gefnar. Stækkunarstjórinn var með vinsamlegar ábendingar til íslenskra stjórnvalda og almennings um hvað fælist í aðildarumsókn – ábendingar sem öllum mátti vera ljósar í upphafi.
Þeir þingmenn sem vilja taka upp þráðinn í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið að nýju hljóta annaðhvort að vera sannfærðir um að stækkunarstjórinn hafi farið með rangt mál eða algjör stefnubreyting hafi átt sér stað innan sambandsins. Þriðji möguleikinn er auðvitað sá að aðildarsinnar séu tilbúnir til að færa allt regluverk og stjórnun m.a. sjávarútvegs, landbúnaðar og orkumála undir Evrópusambandið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsviðtali í september 2011 að enginn stjórnmálamaður berðist í raun fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Pólitíska forystu skorti almennt í málinu auk þess sem stefnan væri óljós. Þessi skoðun Ingibjargar Sólrúnar var ekki ný því þegar í apríl 2010 hafði hún áttað sig á þeim ógöngum sem aðildarumsóknin var komin í. Í viðtali við þýskan blaðamann sagði Ingibjörg Sólrún að betra væri að fresta yfirstandandi viðræðum en halda þeim áfram í óvissu um hvert væri stefnt.
Harmsaga umsóknar
Umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu er ein harmsaga frá upphafi til enda. Alþingi samþykkti 16. júlí 2009 þingsályktun Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra með nokkrum breytingum, þar sem ríkisstjórninni var falið að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Tillagan var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 28 en tveir þingmenn greiddu ekki atkvæði. Við afgreiðslu tillögunnar fluttu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins breytingatillögu þar sem ríkisstjórninni var falið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu „um hvort Ísland skuli sækja um aðild að Evrópusambandinu“. Verði aðildarumsókn samþykkt skuli ríkisstjórnin leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Breytingartillagan tók af öll tvímæli um að ef samningar náist sé „þegar í stað ráðast í að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá, og eftir atvikum öðrum lögum, sem af aðild leiðir. Að því loknu skal aðildarsamningurinn borinn undir Alþingi til staðfestingar og að henni fenginni skal ríkisstjórnin efna til bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um væntanlegan aðildarsamning.“
Þessi tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu var felld af meirihluta þingmanna. Og þar með hófst feigðarförin sem átti aðeins að standa í 18 mánuði samkvæmt digrum yfirlýsingum forráðamanna vinstri ríkisstjórnarinnar. Annað kom á daginn. Á örfáum mánuðum flæddi undan pólitískum stuðningi við umsóknina enda ríkisstjórnin klofin í herðar niður. Hægt og bítandi hvarf öll pólitísk forysta fyrir aðild, líkt og Ingibjörg Sólrún var fljót að átta sig á.
Þetta er þráðurinn sem flutningsmenn þingsályktunarinnar vilja taka upp eða kannski stendur hugur þeirra til þess að vefa nýjan þráð í harmsögu sem aldrei átti að skrifa.
Ég er ekki viss um að verkamaðurinn í Berlín, sem berst við svimandi háa orkureikninga, ráðleggi Íslendingum að innleiða stefnu Þýskalands og Evrópusambandsins í orkumálum. Ekki frekar en spænski sjómaðurinn mæli með því að færa arð- og sjálfbæran íslenskan sjávarútveg undir stjórn misviturra embættismanna í Brussel.
Morgunblaðið, 21. september 2022.