Alþjóðleg samkeppni um heilbrigðisstarfsfólk
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Nauðsyn­legt er að fjölga há­skóla­menntuðu heil­brigðis­starfs­fólki á næstu árum. Þjóðin er að eld­ast og þegar skort­ir menntað starfs­fólk. Ný­sköp­un og bætt verklag get­ur dregið úr mannaflaþörf og létt und­ir með starfs­mönn­um en það breyt­ir því ekki að nauðsyn­legt er að efla mennt­un heil­brigðis­starfs­fólks. Þrír há­skól­ar koma mest að mennt­un í heil­brigðisþjón­ustu. Um­fangið er mest inn­an Há­skóla Íslands en Há­skól­inn á Ak­ur­eyri og Há­skól­inn í Reykja­vík gegna einnig mik­il­vægu hlut­verki. Rúm­lega sjö millj­örðum króna er ár­lega varið í há­skóla­mennt­un á sviði heil­brigðis­vís­inda og skyldra greina.

Há­skólaráðuneytið og heil­brigðisráðuneytið ásamt Há­skóla Íslands og Land­spít­ala hafa ákveðið að grípa til marg­vís­legra ráðstaf­ana til að bregðast við vand­an­um. Há­skól­arn­ir verða hvatt­ir til að for­gangsraða í þágu heil­brigðis­vís­inda og fjölga nem­end­um í náms­grein­um á sviði heil­brigðisþjón­ustu. Jafn­framt verða skól­arn­ir hvatt­ir til auk­ins sam­starfs á þessu sviði. Óskað verður eft­ir hug­mynd­um um það hvernig þeir geta fjölgað nem­end­um og hvað þeir telja sig þurfa til að af þeirri fjölg­un geti orðið.

Þá verða há­skól­ar og heil­brigðis­stofn­an­ir hvött til að koma með til­lög­ur að nýj­um og öfl­ug­um færni­búðum. Þar er um að ræða sér­staka kennsluaðstöðu til að kenna og þjálfa klín­ísk vinnu­brögð sem er for­senda þess að hægt verði að fjölga nem­end­um veru­lega og um leið bæta mennt­un­ina. Þetta mun einnig nýt­ast nem­end­um á fram­halds­skóla­stigi en stefnt er að efl­ingu náms heil­brigðis­stétta á því skóla­stigi, m.a. til að fjölga sjúkra­liðum.

Skól­arn­ir verða hvatt­ir til að sækja nú þegar um stuðning til nýs Sam­starfs­sjóðs há­skól­anna. Stefnt er að því að heil­brigðisráðherra styrki verk­efn­in með sam­bæri­legri fjár­hæð.

Auk fram­an­greinds fela aðgerðirn­ar í sér að leitað verður til Nýs Land­spít­ala um til­lög­ur til að hraða fram­kvæmd­um við nýtt hús­næði fyr­ir Heil­brigðis­vís­inda­svið HÍ. Þá er ráðgert að end­ur­skoða skil­yrði fyr­ir veit­ingu starfs­leyfa og fjölga starfs­leyf­um heil­brigðis­menntaðs starfs­fólks utan EES-svæðis­ins. Nauðsyn­legt er að ein­falda um­sókn­ar­ferli og liðka fyr­ir rétt­ind­um þess­ara ein­stak­linga til að starfa hér á landi.

Loks er rétt að nefna fjölg­un sér­náms­greina lækna hér inn­an­lands, en ástæða er til að fjölga bæði sér­námsnem­um og þeim sér­náms­grein­um sem eru í boði út frá þörf­um þjóðfé­lags­ins.

Hér hef­ur verið bent á nokkr­ar aðgerðir sem ráðist verður í nú þegar til að fjölga starfs­fólki með heil­brigðis­mennt­un. Við erum í sam­keppni við önn­ur lönd þar sem skort­ur er á heil­brigðis­starfs­fólki á heimsvísu. Starfs­um­hverfi heil­brigðis­menntaðra verður að vera bæði fjöl­breytt og spenn­andi til að geta staðist þá sam­keppni.

Morgunblaðið, 21. september, 2022.