Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Nauðsynlegt er að fjölga háskólamenntuðu heilbrigðisstarfsfólki á næstu árum. Þjóðin er að eldast og þegar skortir menntað starfsfólk. Nýsköpun og bætt verklag getur dregið úr mannaflaþörf og létt undir með starfsmönnum en það breytir því ekki að nauðsynlegt er að efla menntun heilbrigðisstarfsfólks. Þrír háskólar koma mest að menntun í heilbrigðisþjónustu. Umfangið er mest innan Háskóla Íslands en Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík gegna einnig mikilvægu hlutverki. Rúmlega sjö milljörðum króna er árlega varið í háskólamenntun á sviði heilbrigðisvísinda og skyldra greina.
Háskólaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið ásamt Háskóla Íslands og Landspítala hafa ákveðið að grípa til margvíslegra ráðstafana til að bregðast við vandanum. Háskólarnir verða hvattir til að forgangsraða í þágu heilbrigðisvísinda og fjölga nemendum í námsgreinum á sviði heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verða skólarnir hvattir til aukins samstarfs á þessu sviði. Óskað verður eftir hugmyndum um það hvernig þeir geta fjölgað nemendum og hvað þeir telja sig þurfa til að af þeirri fjölgun geti orðið.
Þá verða háskólar og heilbrigðisstofnanir hvött til að koma með tillögur að nýjum og öflugum færnibúðum. Þar er um að ræða sérstaka kennsluaðstöðu til að kenna og þjálfa klínísk vinnubrögð sem er forsenda þess að hægt verði að fjölga nemendum verulega og um leið bæta menntunina. Þetta mun einnig nýtast nemendum á framhaldsskólastigi en stefnt er að eflingu náms heilbrigðisstétta á því skólastigi, m.a. til að fjölga sjúkraliðum.
Skólarnir verða hvattir til að sækja nú þegar um stuðning til nýs Samstarfssjóðs háskólanna. Stefnt er að því að heilbrigðisráðherra styrki verkefnin með sambærilegri fjárhæð.
Auk framangreinds fela aðgerðirnar í sér að leitað verður til Nýs Landspítala um tillögur til að hraða framkvæmdum við nýtt húsnæði fyrir Heilbrigðisvísindasvið HÍ. Þá er ráðgert að endurskoða skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa og fjölga starfsleyfum heilbrigðismenntaðs starfsfólks utan EES-svæðisins. Nauðsynlegt er að einfalda umsóknarferli og liðka fyrir réttindum þessara einstaklinga til að starfa hér á landi.
Loks er rétt að nefna fjölgun sérnámsgreina lækna hér innanlands, en ástæða er til að fjölga bæði sérnámsnemum og þeim sérnámsgreinum sem eru í boði út frá þörfum þjóðfélagsins.
Hér hefur verið bent á nokkrar aðgerðir sem ráðist verður í nú þegar til að fjölga starfsfólki með heilbrigðismenntun. Við erum í samkeppni við önnur lönd þar sem skortur er á heilbrigðisstarfsfólki á heimsvísu. Starfsumhverfi heilbrigðismenntaðra verður að vera bæði fjölbreytt og spennandi til að geta staðist þá samkeppni.
Morgunblaðið, 21. september, 2022.