Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Háskólar gegna margþættu og þýðingarmiklu hlutverki. Þar verður til ný og mikilvæg þekking á grundvelli margvíslegra rannsókna auk þess sem reynsla kynslóðanna er þar varðveitt og henni viðhaldið. Eitt helsta hlutverk háskólanna felst í miðlun þekkingarinnar til nýrra kynslóða og samfélagsins í heild með öflugu og fjölbreyttu kennslustarfi. Á síðari tímum hafa háskólar í auknum mæli lagt áherslu á það hlutverk að þjálfa hámenntaða starfsmenn í nýjum atvinnugreinum með virku vísinda- og rannsóknarstarfi sem er grundvöllur nýsköpunar og frekari framfara, hvort tveggja í atvinnulífinu og samfélaginu.
Þetta hlutverk og samvinna við atvinnulífið dregur ekki úr mikilvægi hefðbundinna verkefna. Þeim verkefnum verður að sinna áfram. Ný verkefni krefjast þess á hinn bóginn að háskólarnir efli samstarf sitt og að skapaður verði grundvöllur til að ramma inn samstarf við atvinnulífið. Þarna getur orðið til frjór jarðvegur nýjunga og hugverka þar sem ný fyrirtæki og nýjar atvinnugreinar spretta úr grasi.
Það er ljóst að alþjóðleg samkeppni háskóla mun aukast á næstu árum með aukinni stafrænni miðlun námsefnis. Fjarlægðirnar verða styttri í þessu tilliti og valmöguleikarnir um nám um leið óþrjótandi. Það er því mikilvægt að íslenskir háskólar standist þá alþjóðlegu samkeppni um nemendur og hugvit.
Til að stuðla að auknu samstarfi háskólanna og efla þá þannig enn frekar hef ég sett á laggirnar nýjan Samstarfssjóð háskólanna. Samstarfssjóðurinn er ein forsenda þess að við bjóðum upp á samkeppnishæft háskólanám á heimsmælikvarða. Þar með ýtum við úr vör ýmsum jákvæðum hvötum, meðal annars þeim að skólarnir stígi frekari skref í átt að auknu fjarnámi. Ég skynja það sterkt í samtölum mínum við ungt fólk á landsbyggðinni hve mikilvægt fjarnám er fyrir samfélögin þar og valfrelsi ungs fólks um hvar það kýs að búa og starfa. Þá má einnig nefna hvata um íslenskukennslu og að aukin fjarkennsla mun fjölga valmöguleikum þeirra sem t.d. vilja hefja íslenskunám óháð búsetu. Hér er um mikilvægt mál að ræða því þannig aukum við lífsgæði út um allt land, sem mun nýtast bæði atvinnulífinu og samfélögunum þar.
Spurningin um aukið samstarf tengist öðrum áleitnum spurningum um framtíð háskólanna. Höfum við metnað til að koma þeim í hærri gæðaflokk? Erum við reiðubúin til að verja auknum fjármunum í rannsóknir og vísindastarf? Getum við að öðrum kosti virkjað hugvitið þannig að til verði nýjar útflutningsgreinar og vel launuð störf?
Svörin við þessum spurningum leiða okkur til sömu niðurstöðu. Við förum þá leið sem önnur ríki hafa farið og náð hafa mestum árangri í þróun nýrrar þekkingar og tækni, styðjum við rannsóknir, nýsköpun og fjölbreytni í námi um leið og við fjölgum valkostum til að styrkja samkeppnishæfni okkar við önnur lönd.
Morgunblaðið, 16. september 2022.