Virðum félagafrelsið
'}}

Óli Björn Kárason, formaður þinflokks Sjálfstæðisflokksins:

Í 74. grein stjórn­ar­skrár­inn­ar er öll­um tryggt fé­laga­frelsi. All­ir eiga „rétt til að stofna fé­lög í sér­hverj­um lög­leg­um til­gangi, þar með tal­in stjórn­mála­fé­lög og stétt­ar­fé­lög, án þess að sækja um leyfi til þess“. Skýrt er tekið fram að eng­an megi „skylda til aðild­ar að fé­lagi“ en þó megi með lög­um „kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsyn­legt til að fé­lag geti sinnt lög­mætu hlut­verki vegna al­manna­hags­muna eða rétt­inda annarra“.

Þrátt fyr­ir þessi skýru ákvæði stjórn­ar­skrár­inn­ar er fé­laga­frelsið í raun ekki virkt á ís­lensk­um vinnu­markaði. Al­menn lög­gjöf tak­mark­ar rétt manna til þess að velja sér fé­lag eða standa utan fé­lags. Þar er gengið mun lengra en þekk­ist í ná­granna­lönd­um okk­ar.

Þegar mann­rétt­indakafli stjórn­ar­skrár­inn­ar var lög­fest­ur árið 1995 var mik­il­vægt ný­mæli samþykkt í 2. máls­grein 74. grein­ar: Þar var bein­lín­is kveðið á um rétt manna til að standa utan fé­laga. Litl­ar eða eng­ar breyt­ing­ar hafa hins veg­ar verið gerðar á vinnu­markaðslög­gjöf­inni frá þeim tíma til að tryggja að ákvæðið næði fram að ganga. Úrsk­urðir dóm­stóla virðast ekki hafa tekið mið af þeim breyt­ing­um sem gerðar voru á stjórn­ar­skrá.

Úrelt lög­gjöf

Vinnu­markaðslög­gjöf er barn síns tíma og í mörgu úr­elt. Hún þreng­ir að fé­laga­frels­inu og illa er hægt að halda því fram að launa­fólk hafi raun­veru­legt frelsi til að ákveða hvort það standi utan stétt­ar­fé­lags eða ekki. Þrátt fyr­ir að launa­manni sé heim­ilt að standa utan stétt­ar­fé­lags hef­ur lagaum­gjörðin verið með þeim hætti að val­frelsið er aðeins að nafn­inu til. Í lög­um um kjara­samn­inga op­in­berra starfs­manna er kveðið á um skyldu ófé­lags­bund­inna starfs­manna til greiðslu iðgjalds til þess stétt­ar­fé­lags sem hann „ætti“ að til­heyra. Á al­menn­um vinnu­markaði eru lög­in hins veg­ar frem­ur óskýr um hvort slík greiðslu­skylda sé fyr­ir hendi. Af orðalagi 2. mgr. 6. gr. starfs­kjara­laga má ráða að slík skylda sé ein­ung­is fyr­ir hendi þegar sér­stak­lega er kveðið á um hana í kjara­samn­ing­um. Það er því aug­ljóst að brýnt er að breyta lög­un­um þannig að launa­fólk utan stétt­ar­fé­lags sé ekki þvingað til að greiða iðgjald til fé­lags sem það á enga aðild að. Um leið koma í veg fyr­ir að verka­lýðsfé­lög og sam­tök at­vinnu­rek­enda taki sér það vald að leggja slíka skyldu á launa­fólk, án þess að það hafi nokkuð um það að segja.

Þá eru ut­an­fé­lags­menn bundn­ir af ákvörðun stétt­ar­fé­lags um vinnu­stöðvun, þ.e. verk­fall og verk­bann. Þeim er skylt að leggja niður störf, boði stétt­ar­fé­lagið til vinnu­stöðvun­ar, þrátt fyr­ir að þeir fái ekki greitt úr verk­falls­sjóði stétt­ar­fé­lags­ins. Ut­an­fé­lags­manni er því meinað að vinna, af fé­lagi sem hann á enga aðild að, án þess að hon­um sé það bætt, hvorki í gegn­um verk­falls­sjóð né at­vinnu­leys­is­bæt­ur. Segja má að rétt­indi þeirra sem standa utan stétt­ar­fé­laga séu enn tak­markaðri en ef það væri hrein­lega kveðið á um aðild­ar­skyldu í lög­um, enda væri þeim þá í það minnsta tryggð sú þjón­usta og rétt­indi sem fel­ast í fé­lagsaðild­inni. Launa­fólk sem stend­ur utan fé­laga nýt­ur mun minni rétt­inda og þjón­ustu stétt­ar­fé­laga, en bera hins veg­ar sömu skyld­ur og full­gild­ir fé­lags­menn. Vinnu­markaðslög­gjöf­in geng­ur þannig veru­lega á fé­laga- og at­vinnu­frelsi fólks.

Gegn fé­laga­frelsi

Hér á landi eru svo­kölluð for­gangs­rétt­ar­á­kvæði í kjara­samn­ing­um, þrátt fyr­ir að slík ákvæði gangi gegn fé­laga­frelsi launa­fólks. Um er að ræða svo mikla þving­un að leggja má að jöfnu við skylduaðild að stétt­ar­fé­lagi, þar sem fólk er í raun úti­lokað frá til­tekn­um störf­um, gangi það ekki í stétt­ar­fé­lagið sem hef­ur for­gang sam­kvæmt kjara­samn­ingi. For­gangs­rétt­ar­á­kvæði hafa í för með sér að ein­stök stétt­ar­fé­lög geta í raun komið í veg fyr­ir að stofnuð verði stétt­ar­fé­lög í sömu starfs­grein á sama fé­lags­svæði, enda bresta all­ar for­send­ur fyr­ir stofn­un nýs fé­lags ef annað fé­lag hef­ur for­gang í öll störf á svæðinu. Hið sama á við þegar kem­ur að upp­sögn­um. Í fram­kvæmd er eng­inn mun­ur á for­gangs­rétt­ar­á­kvæðum og hrein­um aðild­ar­skyldu­ákvæðum, þar sem niðurstaðan er alltaf sú sama. Val­frelsi er for­senda fé­laga­frels­is og með for­gangs­rétt­ar­á­kvæðum er launa­fólk svipt raun­veru­legu vali um stétt­ar­fé­lagsaðild.

Nán­ast öll vest­ræn lönd hafa bannað ákvæði af þessu með vís­an til fé­laga­frels­is launa­fólks. Þá hef­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu fjallað um for­gangs­rétt­ar­á­kvæði, í máli Søren­sens og Rasmus­sens gegn Dan­mörku frá 11. janú­ar 2006 (52562/​99). Af dóm­in­um má draga þá álykt­un að bæði for­gangs­rétt­ar­á­kvæði og aðild­ar­skyldu­ákvæði brjóti gegn 11. gr. mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Í kjöl­far dóms­ins voru samþykkt lög í Dan­mörku um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði þar sem lagt er bann við for­gangs­rétt­ar­á­kvæðum.

Ein grunn­skylda rík­is­ins er að tryggja mann­rétt­indi borg­ar­anna. Þegar al­menn lög­gjöf, dóma­fram­kvæmd eða vinnu­brögð grafa und­an þess­um rétt­ind­um, get­ur lög­gjaf­inn ekki setið hjá. Af þess­um sök­um get­ur Alþingi ekki kom­ist hjá því að end­ur­skoða vinnu­markaðslög­gjöf­ina og tryggja í reynd fé­laga­frelsi í sam­ræmi við ákvæði stjórn­ar­skrár – tryggja að rétt­ur launa­fólks hér á landi sé ekki lak­ari en rétt­ur launa­fólks vina- og frændþjóða sem við ber­um okk­ur gjarn­an sam­an við. Virkt fé­laga­frelsi launa­fólks er ein for­senda þess að heil­brigður vinnu­markaður verði til.

Morgunblaðið, 14. september 2022.