Óli Björn Kárason, formaður þinflokks Sjálfstæðisflokksins:
Í 74. grein stjórnarskrárinnar er öllum tryggt félagafrelsi. Allir eiga „rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess“. Skýrt er tekið fram að engan megi „skylda til aðildar að félagi“ en þó megi með lögum „kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra“.
Þrátt fyrir þessi skýru ákvæði stjórnarskrárinnar er félagafrelsið í raun ekki virkt á íslenskum vinnumarkaði. Almenn löggjöf takmarkar rétt manna til þess að velja sér félag eða standa utan félags. Þar er gengið mun lengra en þekkist í nágrannalöndum okkar.
Þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var lögfestur árið 1995 var mikilvægt nýmæli samþykkt í 2. málsgrein 74. greinar: Þar var beinlínis kveðið á um rétt manna til að standa utan félaga. Litlar eða engar breytingar hafa hins vegar verið gerðar á vinnumarkaðslöggjöfinni frá þeim tíma til að tryggja að ákvæðið næði fram að ganga. Úrskurðir dómstóla virðast ekki hafa tekið mið af þeim breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá.
Úrelt löggjöf
Vinnumarkaðslöggjöf er barn síns tíma og í mörgu úrelt. Hún þrengir að félagafrelsinu og illa er hægt að halda því fram að launafólk hafi raunverulegt frelsi til að ákveða hvort það standi utan stéttarfélags eða ekki. Þrátt fyrir að launamanni sé heimilt að standa utan stéttarfélags hefur lagaumgjörðin verið með þeim hætti að valfrelsið er aðeins að nafninu til. Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er kveðið á um skyldu ófélagsbundinna starfsmanna til greiðslu iðgjalds til þess stéttarfélags sem hann „ætti“ að tilheyra. Á almennum vinnumarkaði eru lögin hins vegar fremur óskýr um hvort slík greiðsluskylda sé fyrir hendi. Af orðalagi 2. mgr. 6. gr. starfskjaralaga má ráða að slík skylda sé einungis fyrir hendi þegar sérstaklega er kveðið á um hana í kjarasamningum. Það er því augljóst að brýnt er að breyta lögunum þannig að launafólk utan stéttarfélags sé ekki þvingað til að greiða iðgjald til félags sem það á enga aðild að. Um leið koma í veg fyrir að verkalýðsfélög og samtök atvinnurekenda taki sér það vald að leggja slíka skyldu á launafólk, án þess að það hafi nokkuð um það að segja.
Þá eru utanfélagsmenn bundnir af ákvörðun stéttarfélags um vinnustöðvun, þ.e. verkfall og verkbann. Þeim er skylt að leggja niður störf, boði stéttarfélagið til vinnustöðvunar, þrátt fyrir að þeir fái ekki greitt úr verkfallssjóði stéttarfélagsins. Utanfélagsmanni er því meinað að vinna, af félagi sem hann á enga aðild að, án þess að honum sé það bætt, hvorki í gegnum verkfallssjóð né atvinnuleysisbætur. Segja má að réttindi þeirra sem standa utan stéttarfélaga séu enn takmarkaðri en ef það væri hreinlega kveðið á um aðildarskyldu í lögum, enda væri þeim þá í það minnsta tryggð sú þjónusta og réttindi sem felast í félagsaðildinni. Launafólk sem stendur utan félaga nýtur mun minni réttinda og þjónustu stéttarfélaga, en bera hins vegar sömu skyldur og fullgildir félagsmenn. Vinnumarkaðslöggjöfin gengur þannig verulega á félaga- og atvinnufrelsi fólks.
Gegn félagafrelsi
Hér á landi eru svokölluð forgangsréttarákvæði í kjarasamningum, þrátt fyrir að slík ákvæði gangi gegn félagafrelsi launafólks. Um er að ræða svo mikla þvingun að leggja má að jöfnu við skylduaðild að stéttarfélagi, þar sem fólk er í raun útilokað frá tilteknum störfum, gangi það ekki í stéttarfélagið sem hefur forgang samkvæmt kjarasamningi. Forgangsréttarákvæði hafa í för með sér að einstök stéttarfélög geta í raun komið í veg fyrir að stofnuð verði stéttarfélög í sömu starfsgrein á sama félagssvæði, enda bresta allar forsendur fyrir stofnun nýs félags ef annað félag hefur forgang í öll störf á svæðinu. Hið sama á við þegar kemur að uppsögnum. Í framkvæmd er enginn munur á forgangsréttarákvæðum og hreinum aðildarskylduákvæðum, þar sem niðurstaðan er alltaf sú sama. Valfrelsi er forsenda félagafrelsis og með forgangsréttarákvæðum er launafólk svipt raunverulegu vali um stéttarfélagsaðild.
Nánast öll vestræn lönd hafa bannað ákvæði af þessu með vísan til félagafrelsis launafólks. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu fjallað um forgangsréttarákvæði, í máli Sørensens og Rasmussens gegn Danmörku frá 11. janúar 2006 (52562/99). Af dóminum má draga þá ályktun að bæði forgangsréttarákvæði og aðildarskylduákvæði brjóti gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í kjölfar dómsins voru samþykkt lög í Danmörku um félagafrelsi á vinnumarkaði þar sem lagt er bann við forgangsréttarákvæðum.
Ein grunnskylda ríkisins er að tryggja mannréttindi borgaranna. Þegar almenn löggjöf, dómaframkvæmd eða vinnubrögð grafa undan þessum réttindum, getur löggjafinn ekki setið hjá. Af þessum sökum getur Alþingi ekki komist hjá því að endurskoða vinnumarkaðslöggjöfina og tryggja í reynd félagafrelsi í samræmi við ákvæði stjórnarskrár – tryggja að réttur launafólks hér á landi sé ekki lakari en réttur launafólks vina- og frændþjóða sem við berum okkur gjarnan saman við. Virkt félagafrelsi launafólks er ein forsenda þess að heilbrigður vinnumarkaður verði til.
Morgunblaðið, 14. september 2022.