Diljá Mist EInarsdóttir alþingismaður:
Í dag er Alþingi sett, 153. löggjafarþingið. Með því hefst formlega annar þingvetur minn sem kjörinn fulltrúi á Alþingi og ég er full tilhlökkunar og bjartsýni fyrir starfinu sem framundan er. Sumarið notaði ég vel til undirbúnings. Ég átti fjölmarga góða fundi með einstaklingum og heimsótti samtök og stofnanir, auk þess sem ég auglýsti á ný eftir tillögum að málefnum til umfjöllunar á þinginu. Enda margt sem brennur á landsmönnum og við kjörnir fulltrúar eigum að vera duglegir að leggja við hlustir.
Ég ætla að nýta tímann sem ég fæ á Alþingi vel og mun leggja fram nokkur mál og fyrirspurnir í dag í tengslum við þau mál sem ég hef unnið að. Framlög hins opinbera til stjórnmálaflokka hafa margfaldast á undanförnum árum og eru nú helsta tekjulind þeirra. Ég tel þessa ríkisvæðingu flokkanna hafa verið óheillaspor og mun leggja til að opinberir styrkir til stjórnmálaflokka verði lækkaðir í því skyni að auka sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart hinu opinbera. Samþykkt þess yrði stórt spor í lýðræðisátt.
Í aðdraganda haustsins vorum við minnt á það enn og aftur hversu misjöfn staða barna er milli sveitarfélaga þegar að leikskólamálum kemur. Sem þingmaður Reykvíkinga, þar sem staða barna er hvað verst, vil ég bregðast við ákalli um að þingið taki þessi mál til skoðunar þar sem sveitarfélögin fara út af sporinu.
Heilbrigðismálin halda áfram að vera í brennidepli á þinginu og ég læt þar ekki mitt eftir liggja. Þar má nefna málefni þeirra fjölmörgu kvenna sem þjást af endómetríósu og fá ennþá ekki meðhöndlun í íslensku heilbrigðiskerfi. Það er mikilvægt að gamaldags hugsun komi ekki í veg fyrir skynsamlega uppbyggingu á heilbrigðiskerfinu. Þá er mikilvægt að tryggja að við kaffærum ekki atvinnulífið með óhóflegum kröfum og eftirliti. Við þingmennirnir þurfum að veita stjórnvöldum ríkulegt aðhald í því skyni.
Málefni eldra fólks er það einstaka málefni sem fólk leitar oftast með til mín. Endurskoðun tryggingakerfis og betri þjónusta og þar með lífsgæði þessa aldurshóps verður að vera forgangsmál á þessum þingvetri.
Ásamt hópi Sjálfstæðismanna, mun ég leggja aftur fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í því skyni að auka sveigjanleika í opinberu starfsmannahaldi. Það mál snýst ekki bara um hagkvæmni heldur líka jafna stöðu á vinnumarkaði. Sömuleiðis mun ég ásamt fleiri þingmönnum leggja aftur fram tillögu um viðhlítandi þjónustu vegna vímuefnavandans. Það er mikilvægt að styðja við viðhorfsbreytingu í samfélaginu í þá veru að fíknisjúkdómar eigi að vera meðhöndlaðir innan heilbrigðiskerfisins.
Ofangreind mál eru meðal þeirra sem ég mun beina sjónum að í vetur og hvet fólk til þess að halda áfram að leita til mín.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. september 2022.