Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Af einhverjum ástæðum telja margir fjölmiðlar það frétt að tveir landsþekktir miðaldra karlar sem aldrei verða sammála um nokkurn skapaðan hlut séu að rífast á samfélagsmiðlum og að einhverjir minni spámenn blandi sér í deilurnar, sumir með subbulegum hætti.
Það er auðvitað ekki fréttnæmt að þekktur hægrimaður og leiðtogi íslenskra sósíalista deili harkalega. En það geta margir haft nokkra skemmtun af skylmingunum því báðir eru ágætlega ritfærir og oft orðheppnir. Annar beitir húmornum betur en flestir en hinn er ódrepandi í að boða hugmyndafræði sem sagan og reynsla tugmilljóna hafa ekki farið vel með. En það er frétt að skemmdir séu unnar á húsnæði stjórnmálaflokks og það er alvarleg frétt ef haft er í hótunum við einstakling vegna stjórnmálaskoðana. Engu skiptir hversu fráleitar okkur þykja skoðanir viðkomandi. Við eigum öll, hvert og eitt og sameiginlega, að hafa burði til að fordæma hótanir um ofbeldi.
Hnútukast tveggja karla er ekki frétt frekar en að nokkrir gervilimir ungrar stúlku, sem er þekkt kynlífsstjarna, hafi bráðnað. Það er hins vegar raunveruleg frétt að rekstur kynlífstækjaverslunarinnar Blush gangi vel og að veltan hafi aukist verulega á liðnu ári.
Drulla og helvíti
Alveg óháð því hvað fólki finnst um Vikuna með Gísla Marteini þá lýsir það einstakri fréttafátækt að slá því upp að einhver önugur spyrji á Twitter: „Er þetta helvíti að byrja aftur?“ Það er lítil frétt í því að Gísli Marteinn snúi aftur á skjáinn þegar haustar, en það hefði verið fréttnæmt ef Ríkisútvarpið hefði ákveðið að taka þætti sjónvarpsmannsins af dagskrá. Og hvernig má það vera að fjölmiðill telji það frétt og slái því upp að myndlistarmaður „drulli“ yfir nýjustu mynd Baltasars Kormáks í færslu á Facebook? Í alvöru?
Frásögn af því að ung stjórnmálakona sem er að taka sín fyrstu skref í pólitík hafi „frumsýnt“ nýja kærastann er forvitnileg vegna þess að hún svalar áhuga okkar á samferðafólki, ekki síst því sem mest er áberandi. En það er fráleitt að gera engan greinarmun á slíkri frásögn og fréttum af stríðsátökum, stýrivaxtahækkunum eða umdeildum stjórnvaldsákvörðunum.
Palladómur þingmanns, sem sjálfur þolir illa gagnrýni, um að forseti þingsins sé „ákvarðanafælnasti maður“ sem hann viti um, er ekki frétt heldur aðeins sleggjudómur – skoðun þar sem ruglað er saman yfirvegun við ákvarðanatöku og fljótfærni þess sem alltaf er snöggur að saka aðra um ófagleg vinnubrögð.
Það er því miður orðið of algengt að stóryrði og palladómar sem látin eru falla á samfélagsmiðlum rati inn á fréttasíður netmiðla líkt og um alvörufrétt sé að ræða. Þetta er verra en kranablaðamennska þar sem frumkvæðið kemur þó frá blaðamanninum sem kallar fram skoðun áhrifafólks á ákveðnu máli í stað þess að bíða eftir því að einhver skrifi á samfélagsmiðla og þá helst með stóryrðum. Kranablaðamennska var eitur í beinum áhrifamestu blaða- og fréttamanna síðustu áratuga. Áhrif þeirra og leiðsögn virðist gleymd og grafin. Þeir hefðu bent fjölmiðlungum samtímans á að afritun og líming af Facebook og Twitter (copy & paste) ætti litla samleið með blaðamennsku. En vissulega kunni frétt að liggja undir steini sé honum velt við og kannað af hverju viðkomandi skrifar eða talar með þeim hætti sem hann gerir, og leitað skýringa og álits annarra. Og ekki er ólíklegt að gömlu lærifeðurnir hefðu reynt að beina athygli blaðamanna að því að segja frá og grafast fyrir um gang sakamáls sem er til rannsóknar vegna meintrar byrlunar. Fjölmiðlungar koma þar við sögu. Frá þeirri rannsókn er lítið sagt.
Bergmálshellir
Skilin milli frétta, afþreyingar, hreinnar skemmtunar og auglýsinga eru hægt að bítandi að þurrkast út. Fréttir um hvar, hvenær, hverjir og hvers vegna verða hægt og bítandi aukaatriði og skemmtanagildið tekur völdin. Þessi þróun er ekki bundin við Ísland. Netvæðing frétta hefur gert skilin, sem prent- og ljósvakamiðlar gera á milli frétta, afþreyingar og skemmtiefnis, óljósari en áður.
Auðvitað er ekkert að því að fjölmiðlar segi frá hinu furðulega og skemmtilega, frá samtímafólki sem stendur á tímamótum, og öðru sem fangar athygli almennings. Eitt hlutverk fjölmiðla er að vera vettvangur afþreyingar og skemmtunar.
Þegar samfélagsmiðlar eru hins vegar orðnir mikilvæg uppspretta fjölmiðla sem vilja leggja áherslu á fréttir og fréttaskýringar er hættan sú að þeir festist í bergmálshelli með háværum einstaklingum sem hafa unun af því að fella sleggjudóma yfir fólki og málefnum svo draumurinn um að komast í „fréttir“ dagsins rætist. Fjölmiðlungar sem lifa og hrærast í bergmálshelli eru ekki líklegir til að sýna frumkvæði við fréttaöflun.
Um það er ekki deilt að fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í frjálsum samfélögum. Forsenda fyrir skynsamlegum ákvörðunum er að fyrir liggi réttar upplýsingar – staðreyndir um samtímann sem settar eru í nauðsynlegt samhengi. Fyrirtæki, einstaklingar, heimili, stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins byggja litlar og stórar ákvarðanir á fréttum.
Gagnrýni, opin umræða, upplýsingafrelsi, frjáls fjölmiðlun og valfrelsi borgaranna er eina trygging þess að allar helstu stofnanir samfélagsins búi við nauðsynlegt aðhald. Ríkisrekin fjölmiðlun grefur undan þessari tryggingu. Grafið er undan fjárhagslegum grunni sjálfstæðra fjölmiðla og þar með getu þeirra til að uppfylla skyldur sínar við samfélagið, valfrelsi borgaranna er virt að vettugi og aðhald að fjölmiðlum verður takmarkað. Ef einhverjum mislíkar við frjálsan fjölmiðil er alltaf hægt að segja upp áskriftinni, hætta að horfa eða hlusta og miðillinn missir tekjur. Ríkismiðillinn lætur sér fátt um finnast því allir eru þvingaðir til að greiða áskriftargjaldið hvað sem tautar og raular.
Allir þurfa aðhald. Stjórnmálamenn og ríkiskerfið allt þurfa aðhald og gagnrýni. Atvinnurekendur og forysta verkalýðshreyfingarinnar þurfa aðhald. Almenningur treystir því að fjölmiðlar veiti stofnunum samfélagsins aðhald.
Aðhaldið fæst ekki í bergmálshelli samfélagsmiðla.
Morgunblaðið, 7.september 2022.